22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

146. mál, almenn hjálp

Matthías Ólafsson:

Jeg hefi ekki tekið til máls í þessum dýrtíðarmálum hjer í deildinni, en jeg hefi ekki getað varist því að hugsa töluvert um þau, eins og jeg veit að flestir þingmenn munu hafa gert. Hjer hefir aðallega verið rætt um tvær leiðir til að ljetta undir dýrtíðarbyrðina, sem á mönnum hvílir. Önnur leiðin er sú að selja undir sannvirði fleiri eða færri tegundir af nauðsynjavörum; hin leiðin er að styðja menn til þess að afla sjer nauðsynja sinna, þótt dýrar sjeu. Eftir því, sem jeg hefi hugsað þetta mál betur, eftir því hefi jeg færst fjær fyrnefndu leiðinni, en hallast meir og meir að hinni.

Það liggur í hlutarins eðli, að því betur stöndum vjer að vígi, þegar yfir erfiðleikana er komið, sem vjer höfum þurft minna á hjálp annara að halda til að standast þá. Eins mun auðvitað verða nú. Til þess mun vera ætlast af háttv. meiri hluta bjargráðanefndar um lán þau, sem veitt verða í tilefni af dýrtíðinni, að þeim verði einkum varið til atvinnubóta. Jeg hallast eindregið að þeirri stefnu, því að það er víst, að menn munu alment geta dregið fram lífið, ef þeir hafa nóga atvinnu, þótt dýrtíð sje. Þess vegna á einmitt að veita lán til atvinnubóta. Aftur mundi afleiðingin af hinni stefnunni verða sú, að menn hugsuðu minna um það að afla sjer atvinnu, ef þeir gætu fengið nauðsynjar sínar lágu verði. Í öðru lagi ber að líta á það, að ef einni stjett manna er veitt uppbót á launum sínum vegna dýrtíðarinnar, eins og jeg geng út frá að gert verði við starfsmenn landssjóðs, þá fá þeir menn tvöfalda dýrtíðarhjálp, ef þeir fá svo á eftir vörur sínar undir sannvirði. Jeg hallast því að till. meiri hluta bjargráðanefndar í þessu efni. En jeg get ekki verið honum sammála í öllu. Jeg álít, að lánstíminn, sem ákveðinn er í frv. meiri hlutans, sje altof stuttur. Jeg er yfirleitt á móti því, að þessi lán geti nokkurn tíma orðið að sveitarstyrk. Þess vegna mun jeg koma með brtt um þessi atriði við 3. umr. málsins. Till. verður í þá átt, að í stað »10 ár« komi 20 ár, í 1. gr. frv., og að síðari málsgrein 3. gr. falli burt. Jeg álít, að menn verði að eiga það undir þegnskap landsmanna, að þeir, sem geta greitt þessi lán, geri það, þótt ekki liggi við rjettindamissir. Jeg held, að þeir verði ekki margir, sem vilja ekki borga þessi lán. Og þótt einstöku menn kunni að vera svo miklir ódrengir, að borga ekki, þá verður þjóðin að hafa það eins og annað hundsbit. Þegnskaparskortur þeirra má ekki ganga út yfir hina, sem geta ekki borgað. Jeg vildi gera grein fyrir þessari brtt. minni, sem kemur fram við 3. umr., og jeg vildi taka það fram, að jeg er sannfærður um það, að það er eina leiðin, sem hægt er að fara í þessum vandræðamálum, að gera sem mest til þess að afla mönnum atvinnu, og veita þeim svo lán með hægu móti, sem geta ekki komist af hjálparlaust.