08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Magnús Torfason:

Mig langar til að minnast með örfáum orðum á brtt á þgskj. 890, sem snertir mig persónulega að nokkru. Jeg skoða þetta ekki, þó að samþ. verði, sem neina dýrtíðarhjálp eða launaviðbót, heldur sem endurgreiðslu á skrifstofukostnaði, sem landið er skyldugt að bera. Þegar launalögin frá 1875 voru samin, var gengið út frá því, að þau föstu laun, sem þá voru ákveðin, væru sæmileg, en ónauðsynlegt þótti að hafa nokkurt sjerstakt skrifstofufje, sökum þess, að skrifstofukostnaður var því nær enginn. Nú er það á allra vitorði, að störfum þessara embættismanna hefir fjölgað stórum, svo að segja ár frá ári. Hefði því verið eðlilegt, að haldið hefði verið áfram á sömu brautinni og lagt var inn á með Reykjavík, sem sje að veita sjerstakt skrifstofufje. En því hefir ekki verið að heilsa, heldur hafa sýslumönnum og bæjarfógetum verið ætlaðar sjerstakar aukatekjur, í sambandi við aukin störf og aukna ábyrgð. Nú hafa þessar aukatekjur fallið niður alstaðar utan Reykjavíkur, og lít jeg þess vegna svo á, að það sje skylda löggjafarvaldsins að bæta þetta upp. Að því er mig persónulega snertir þá ætla jeg ekki að greiða atkv. um brtt., en láta það ráðast, hvort þeir óhlutdrægu menn, sem hjer eiga atkv. um málið, líta svo á, að um fulla sanngirniskröfu sje að ræða eða ekki, og samkvæmt því lýsi jeg yfir því, að ef úrskurður hæstv. forseta skyldi falla á þá leið, að jeg sje skyldur að greiða atkv., þá mun jeg greiða atkv. móti till. Jeg vil ekki draga fje í minn vasa með atkv. mínu.