12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

146. mál, almenn hjálp

Frsm. meiri hl. (Karl Einarsson):

Jeg vil þakka hæstv. atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra (S. E.) fyrir hinar góðu undirtektir þeirra undir þetta mál.

Hæstv. atvinnumálaráðherra tók það rjettilega fram, að landinu bæri að hjálpa þeim, sem væru hjálparþurfar, hvort heldur væri til sveita eða sjávar. Þetta var vel og viturlega mælt.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hafði það eftir mjer, að sjávarútvegurinn fengi þessa hjálp. En þetta hefi jeg aldrei sagt. Jeg sagði, að dýrtíðin kæmi þyngst niður á þeim, sem rækju sjávarútveg og í kaupstöðum byggju. En ef háttv. þm. (G. Ó.) heldur, að hjer sje verið að berjast fyrir ódýrum kolum handa botnvörpungunum eða til útgerðar, þá er það hrapallegur misskilningur. Jeg held líka, að í raun rjettri hafi hann ekki misskilið orð mín, heldur eigi þetta að vera fyndni hjá þm.

Háttv. sami þm. (G. Ó.) sagði, að kolin væru gefin. En hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir tekið það fram, að þetta sje misskilningur, enda sjeu þau sjö sinnum dýrari en þau voru fyrir stríðið.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) sagði, að jeg hefði sagt, að sveitarstjórnirnar mundu ekki hjálpa fólkinu fyr en sæi á því, en þetta var, eins og annað hjá háttv. þm. (G. Ó.), einber misskilningur, og þótt einhverjar sveitarstjórnir kunni að vera fastheldnar á fje, þá er það víst ekki svo, að slíkt geti borið við, en hitt sagði jeg, að ef halda ætti orðalaginu, »að neyðin« ætti að vera »sýnileg«, þá væri ekki unt að skilja þau, nema ef leggja ætti einhvern slíkan skilning í þau, að það þyrfti að sjá á fólkinu. Jeg vona því, að brtt. nefndarinnar verði samþyktar.