14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

146. mál, almenn hjálp

Bjarni Jónsson:

Jeg get þakkað háttv. Ed. fyrir, að hún hefir farið þá rjettu leið, að setja 3. gr. inn í frv., um það að selja kol undir sannvirði. Að sönnu er hjer ekki nema hálfverk, með því að hún vill ekki heimila að selja nema ? af kolum þeim, sem landsmenn þurfa að hafa til hitunar á húsum og matsuðu. Jeg segi, að háttv. Ed. hafi farið rjetta leið í máli þessu, því að það er áreiðanlega ágóði fyrir landssjóð að slá af vörum sínum, og þótt meira væri en af ? þeirra; það er ágóði, í samanburði við að lána þær út, því að það má gera ráð fyrir því sem vísu, að svo og svo mikið af lánunum borgast ekki; þau verða gefin eftir. En ef það ráð er tekið, að landssjóður gefi mönnum þegar í stað nokkuð af vöruverðinu, mun hitt greiðast, eins og áskilið er; og sannast hjer, að betri er hálfur skaði en allur.

Það, sem kemur út úr því, ef frv. verður samþ., eins og það kom frá háttv. Ed, er þetta, að vara sú, sem landssjóður selur undir verði, lendir því nær eingöngu hjá þeim, sem búa í kauptúnum, en fátæklingar í sveit njóta því nær einkis góðs af henni. Jeg lít því svo á, að rjett sje, að líka sje gefið eftir af verði á þeim vörum, sem almenningur þarf til lífsbjargar, bæði í sveit og við sjó. Því ætlaðist jeg til, að auk kolanna væri og gefið eftir af verði á mjöli og hveiti og kornvöru allri, svo og steinolíu til ljósa, og fylgt þar sömu reglu sem með kolin. Þá næði hjálpin líka til fátæklinga í sveit, sem nauðulega eru staddir. Þessa hefðu þeir háttv. þm. úr sveit átt að minnast, er þeir hömluðu með atkv. sínu brtt. minni að komast að. Það er munur að hlaupa undir bagga með nauðstöddum mönnum í bili, á meðan tími er til, og hinu, að láta þá berjast áfram fram í rauðan dauðann upp á eigin spýtur. Munurinn er sá, að þá hafa þeir etið alt sitt upp og eytt öllu sínu lánstrausti, en atvinnuvegirnir komnir í kalda kol, og uppi stendur fólkið verklaust auðum höndum. Þannig á sig komna verður landssjóður svo að taka á sína arma fjölda fátæklinga, ef stríðið stendur enn svo að árum skiftir, eins og við má búast. En sje þeim hjálpað í tíma, þá er von til, að hægt sje að bjarga við bústofninum. Það er því sjálfsagt búmannlegt frá sparnaðarsjónarmiði að byrja strax á hjálpinni, áður en í öngþveiti er komið. Því bar jeg fram brtt. mína, sem hæstv. forseti hefir úrskurðað að ekki geti komist að nema með afbrigðum frá þingsköpunum, þótt jeg kannist ekki við, að hjer sje um sama atriði að ræða, sem áður hefir verið felt hjer. En hvað sem því líður, þá er úrskurður hæstv. forseta hæstirjettur í þessu máli.

Þessi úrskurður hæstv. forseta varð þess valdandi, að nokkrir háttv. þingdm. gátu gert sjer það til ánægju að hindra það, að till. yrði borin undir atkv., og fyrirbygt með því, að deildinni gæfist kostur á að greiða atkv. um, hvort hún vildi aðhyllast vænlegt bjargráð eða hafna því; en við því mega þessir góðu herrar búast, að þeir verði síðar krafðir til reikningsskapar fyrir þetta atferli sitt.