08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Guðjón Guðlaugsson:

Það voru orð háttv. þm. Ísaf. (M. T.) í sambandi við brtt. á þgskj. 890, sem komu mjer til þess að standa upp. Mjer finst skilningurinn á fjárveitingunni skifta hjer mestu máli, en síður upphæðin sjálf. Ef jeg á að geta greitt brtt. atkvæði, þá verður það eingöngu með þeim skilningi, að hjer sje um fullkomna dýrtíðaruppbót að ræða. Jeg vil ekki, að litið verði á, að þessi fjárveiting eigi að ganga þegjandi inn í næstu fjárlög, sem launaviðbót, því að það er alveg rjett, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að ótækt er að taka sjerstakar stjettir út úr embættismannahópnum, þar sem við borð liggur að athuga launakjör embættismanna í heild sinni. Það yrði eingöngu til þess að tefja framgang þess máls. En mikil sanngirni mælir með því að veita þessa upphæð sem bráðabirgðaráðstöfun að eins.

Jeg heyrði, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E) tók það fram, að hjer væri ekki um neina bitlinga að ræða. Jeg þurfti alls ekki að fá að vita það, heldur hvort sanngirni mælti með því að veita þessa upphæð, vegna dýrtíðar. Jeg vildi þess vegna gjarnan fá aftur að heyra skýringu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) og umsögn hans um það, hvort hjer væri eingöngu um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem ætlast væri til, að eingöngu ætti að gilda þetta fjárhagstímabil.

Um aðrar brtt. ætla jeg ekki að tala, en mun sýna með atkvæði mínu, hverjum augum jeg lít á þær.