14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

146. mál, almenn hjálp

Forsætisráðherra (J. M).:

Það hefir verið tekið fram af hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að ekki er á rökum bygður sá ótti, er sumir háttv. þm. virðast bera fyrir því, að þessi kol, sem selja á undir verði, verði seld öðrum en þeim, sem helst þurfa þess með. Jeg get ekki sjeð, að ástæða sje til að ætla, að sveitarstjórnir muni haga þessu öðruvísi en rjettlátt er.

Eftir því, sem háttv. Ed. ætlaðist til, þá er meiningin, að þessi kol sjeu ekki seld með sama verði til allra, heldur fái þeir fátækustu smálestina fyrir lægra verð en 125 kr., en aðrir aftur dýrara, en þó svo, að samlagt söluverð allra kolanna, er hver einstök sveitarstjórn selur, sje ekki meira en það verð, er hún fær þau fyrir, eða 125 kr. smálestin að meðaltali. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) misskildi þetta dálítið, því að auðvitað má ekki selja kolin dýrara en svo, að meðalverð þeirra verði sama og kaupverðið, 125 kr. smálestin. Í þessu sambandi vil jeg geta þess, út af orðum háttv. þm. Barð. (H. K.), að þetta nær jafnt til kaupstaða og kauptúna úti um land sem Reykjavíkur. Háttv. þm. (H. K.) benti rjettilega á það, að það eru fleiri kaupstaðir á landinu en Reykjavík.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði mikið um það, að það kæmi ekki að neinu gagni fyrir þá, sem ættu ekki til næsta máls, þótt þeir gætu fengið kolaskippund á 20 kr. Þetta er alveg rjett. En þessum mönnum, sem svo báglega eru staddir, verður sveitarfjelagið auðvitað að hjálpa á annan hátt. Hjálpin með kolin, sem hjer er um að ræða, verður aðallega handa þeim, sem eru svo lágt launaðir og hafa svo litlar tekjur, að þeir geti ekki keypt kolin með því verði, sem á þeim er á opnum markaði.

Háttv. þm. (G. Sv.) talaði enn fremur um það, að hægt mundi að fá kol hjer í Reykjavík fyrir 200 kr. tonnið. Þótt það yrði, sem ólíklegt er, þá geta allir sjeð, hversu ranglátt það yrði gagnvart öðrum landshlutum, ef kol yrðu seld hjer fyrir það verð, af þeim sjerstöku ástæðum, sem hann hefir eflaust fyrir augum, en svo aftur fyrir hæsta verð víðs vegar á landinu. Þess vegna var það gert að skilyrði í frv., að kolin væru seld fyrir sama verð á öllum stöðunum.

Mjer finst það annars ekki vera svo ósanngjarnt, þótt Reykjavík nyti góðs af því, að hún er miðstöð fyrir alla aðflutninga á vörum til landsins, og ef selja á alla vöru með sama verði úti um land sem hjer í bænum, þá greiddi Reykjavík talsvert mikinn hluta af flutningskostnaðinum á vörunum fyrir hjeruðin, enda álitamál, hvort sú greiðsla nemur ekki eins miklu eða meiru en niðurfærsla sú, er Reykjavík fær á kolunum.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði enn fremur um það, að fyrst og fremst ættu sýslu- og bæjarfjelög að sjá sínum borgið, en landssjóður svo að hlaupa undir bagga seinna meir. Það mætti fara þessa leið, eða heimila, að sýslu- og bæjarfjelög mættu selja vörur undir verði, en landssjóður síðan borga hallann að einhverju leyti. Þetta er gert í Danmörku, og þar borgar ríkissjóðurinn ? hluta af kostnaðinum.

Það er auðvitað mál, að á svona tímum kemur dýrtíðin miklu harðar niður á kaupstaðarbúum og þeim, sem búa við sjóinn. Því tel jeg það ekki nema rjett og sanngjarnt, að þeir fái einhverja hjálp fram yfir aðra. Enda mun enginn hafa haldið því fram, að nauðsyn bæri til að selja eldivið undir verði upp til sveita, þar sem engin kol eru notuð.

Það er altaf verið að benda á þessi lán, sem á að veita. Ef bæjarfjelögin mega taka þessi lán til að hjálpa íbúum sínum, og eiga von á því, að þau verði síðar gefin upp að meira eða minna leyti, þá er þessi leið auðvitað góð fyrir bæjarfjelögin, en hvernig fer fyrir landssjóði, ef svo væri það? Það er eftir að sjá. En eigi lánið hins vegar að endurgreiðast með venjulegum ársvöxtum, þá get jeg ekki sjeð, að hjálpin sje svo fjarska mikil; það er ekki annað en að byrðinni er þá dreift á nokkuð mörg ár. Þetta getur að vísu verið hagkvæmt fyrir fátæk sveitarfjelög.

Jeg skal ekki segja, hvort það kynni að geta komið fyrir, að einstök sveitarfjelög fengju lánin að einhverju leyti gefin eftir, en jeg á eftir að sjá það, að svo yrði með Reykjavík. Annars er það leiðinlegt, að Reykjavík hefir verið dregin þannig inn í umræðurnar, því að, eins og háttv. þm. Barð. (H. K.) tók fram, gilda þessi lög ekki hana eina, heldur alla þá staði á landinu, þar sem líkt stendur á.

Jeg vona, sem sagt, að frv. fái að vera óhreyft, eins og háttv. Ed. skildi við það, og verð að segja, eins og háttv. fjármálaráðherra (S. E.), að það er mjög ilt fyrir stjórnina, ef engin slík heimild er til að grípa til, ef með þarf. Það er auðvitað, að stjórnin grípur ekki til hennar nema þess sje þörf, og að sjálfsögðu myndi hún setja reglur, er fyrirbygðu alla hættu á því, að auðugir menn fengju hjálp á þennan hátt.