14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

146. mál, almenn hjálp

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki tefja umræður lengi, en má til að gera grein fyrir atkvæði mínu, sakir þess, að þeir, sem fylgja því, að frv. verði samþykt, eins og það kom frá Ed., sækja það mjög fast. En jeg get ekki fundið, að ástæða sje til þess, nema ef stuðla ætti að því að vekja almenna óánægju úti um land. Þessi kolasala, langt undir verði, er bersýnilega fyrir stærri kaupstaðina gerð, og veldur því afskaplegu misrjetti, og 3. gr. frv. verður eigi framkvæmd án þess að svo fari.

Nær virtist liggja að skifta einhverri ákveðinni fjárupphæð milli allra þurfandi landsmanna, eftir tillögum sveitarstjórna. Hins vegar get jeg alls ekki sjeð, að ástæðan til að veita nokkrum kaupstöðum þessa hjálp sje svo brýn, sem sagt er. Lánsheimildin er öllum opin, og með henni má eigi síður bjargast í kaupstöðum og kauptúnum en í sveitum. Lánin má veita í vörum, eigi síður en peningum, þar sem vörur eru til, og að sjálfsögðu nota þau hjeruð lánsheimildina frekar, sem meiri hafa þörfina. Lánsheimildin er einhlít og rjettlát, en þessi kolagjöf til einstakra kauptúna á ekki við.

Að öðru leyti hefir háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tekið skýrt og ljóslega fram röksemdir vorar, er fylgja viljum því, að 3. gr. sje burt feld, og um það þarf eigi frekar að fjölyrða.