18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Mjer skildist, að háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefði ekki annað við frv. að athuga en að tímarit og blöð myndu hætta að koma út. Sje jeg ekki, að það þurfi að verða til þess; útgefendum þeirra er opin leið til þess að hækka verðið. (J. B.: Þá hætta menn að kaupa). Verðið hefir þegar hækkað, og kaupendur hafa ekki hætt fyrir því. Annars er ósköp hægt að stinga upp á því að drepa öll tekjuaukafrv. og segja, að þetta muni engar tekjur veita. En það er ekki nóg að bera fram frv., er hefir í för með sjer 8 milj. kr. gjaldaauka fyrir landssjóð, og frv. um að lækka helsta tekjustofn hans um helming, og koma með ekkert í staðinn. Alt þetta hefir háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) gert, og hvernig heldur hann, að fjárhagur landsins yrði, ef slíkar útgjaldatillögur yrðu samþyktar og ekki jafnframt sjeð fyrir tekjuauka?

Jeg get ekki sjeð, að þessi hækkun verði mjög tilfinnanleg neinum. Jeg skal geta þess, að vjer nefndarmenn bárum oss saman við póstmeistara, og sagði hann, að við þetta væri ekkert að athuga frá sínu sjónarmiði. (J. B: Það sannar ekkert). Póstmeistari þekkir best, hver áhrif þessi hækkun mundi hafa. Jeg sje ekki heldur, að rjett sje að láta landssjóð borga fyrir að koma út blöðum og tímaritum, eins og hann hefir gert og gerir nú, er póstsjóður tapar á slíkum flutningi. Vona jeg þess vegna, að deildin lofi málinu að ganga áfram.