18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Jörundur Brynjólfsson:

Þegar jeg talaði áðan, var jeg ekki að finna að því, að fjárhagsnefnd bar fram frv. um tekjuauka; því fer fjarri. Mjer var fyllilega ljóst, að eftir því sem útgjöld vaxa, þarf að fá meiri tekjur. En tekjurnar verður að taka af þeim, sem geta borgað.

Háttv. fram. (M. G.) sagði, að ekki dygði að koma með frv. um 8 miljóna útgjöld, en afla landssjóði ekki neinna tekna í staðinn. Þetta getur nú verið gott og blessað. En mjer er spurn, hvort á að meta meira líf og heilsu, velferð og uppeldi 10—20 þús. manna, eða 8 miljónir króna? Það dugir ekki á svona tímum að horfa eingöngu í aurana, heldur verður að athuga vel, á hvern hátt hægt er að fyrirbyggja neyð, ef vandræðin og erfiðleikarnir aukast; með þetta fyrir augum var frv. mitt gert, og var því alveg óþarft að fara að draga það inn í umræðumar um þetta mál.

Það getur vel verið, að hækka megi verð blaða og bóka, en það er sama sem að hætta að gefa út; menn segja upp. Að vísu hafa sum tímarit og blöð hækkað ofurlítið. Lögrjetta mun hafa hækkað úr 5 kr. upp í 7 kr. 50 au., og veit jeg ekki, hver áhrif það hefir haft á kaupendafjölda þessa blaðs. Önnur blöð hafa hækkað lítið, sum svo sem 16% og sum ekki neitt, en hvað er það upp í meira en 100—200% kostnaðarauka? Það sannar ekkert, þótt póstmeistari hafi ekkert við þetta að athuga; jeg veit ekki til, að hann sje bókaútgefandi, og kemur því frv. þetta ekki við hans buddu. Annars tók jeg svo hóglega í þetta mál, að það var óþarft af háttv. fram. (M. G.) að blanda inn í umr. þessar fjarskyldu máli, sem miklu getur varðað hversu með er farið. Jeg sagði að eins, að þetta væri hæpin leið, tekjuaukinn lítill, og frv. gæti ef til vill orðið til þess að rýra upplýsingu í landinu. En það veit jeg að hefir ekki verið tilgangur flutningsmanna.