18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Sveinn Ólafsson:

Mjer finst dálítið varhugavert að leggja þennan skatt á, því að jeg held, að tekjurnar reynist minni en við er búist af flutningsmönnum, og eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) tók fram er reynsla fengin fyrir því, að afnot pósts og síma eru því meiri, sem gjaldið fyrir afnotin er lægra.

En það eru fleiri hliðar þessa máls varhugaverðar. Frv. nær að eins til póstsendinga innanlands, en það virðist ótilhlýðilegt, að póstgjöld til Danmerkur og Færeyja sjeu lægri en innanlands. Eins er um póstsendingu frá Danmörku og Færeyjum. Eigi að senda þær yfir land, t. d. úr Reykjavík, með landpósti, verður vangoldið undir þær, og verður þá viðtakandi að kaupa þær út tvöföldu verði, þótt fullgoldið hafi verið á afgreiðslustað. Þetta gæti valdið miklum óþægindum. Líka er þess að gæta, að ef þessi lög ganga nú í gildi, meðan samgöngur á sjó eru svo takmarkaðar, þá verður kvöðin afarþungbær fyrir þá, sem verða að borga undir mikinn póstflutning með landpóstum.

Ef jeg ætti að hallast að einhverju í þessu frv., þá er það sú leið, sem hæstv. fjármálaráðherra

(B. K.) benti á, að taka að eins brjef.