22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Sigurður Sigurðsson:

Jeg fyrir mitt leyti vil styðja þetta frv., ef brtt. á þgskj. 568 verður samþykt.

Jeg skal ekki gera lítið úr tekjuaukanum, sem mundi leiða af hækkuninni, þótt ekki yrði hann fullar 100 þúsundir. Hins vegar finst mjer oflangt gengið að því er snertir prentað mál. Sú hækkun myndi koma niður á blöðum og tímaritum. Bækurnar myndu sleppa betur; þær eru oftast sendar í stórum pökkum, sem þungaflutningur. Að minsta kosti eru þær sendar á þann hátt út um land. Þótt kann ske megi segja, að nóg sje af blöðum, og ekki stór skaði skeður, þótt þeim fækki nokkuð, þá er á það að líta, að burðargjaldshækkunin gengur jafnt yfir rjettláta og rangláta. Innan um eru blöð og tímarit, sem menn vilja ekki missa af. En það má telja víst, að mörg verði þá að hætta. Blöðin voru engin gróðafyrirtæki fyrir stríðið; það var ekki betur en að þau stæðust kostnaðinn. Síðan hefir pappír og prentun hækkað mjög í verði. Bætist þess vegna hækkun á burðargjaldi við, er mjög hætt við, að það ríði mörgum blöðunum að fullu.

Það má og nefna í þessu sambandi, að töluvert af prentuðu máli er sent með póstunum, sem viðkemur landsstjórninni. Hækkun á burðargjaldi á því eykur ekkert tekjur landssjóðs. Það er að eins að taka úr einum vasanum og láta í hinn. En að því leyti, sem um einstaka menn er að ræða, mun hækkun á burðargjaldi fyrir prentað mál annaðhvort valda óánægju eða því, að menn hætti að gefa út og senda.

Ef brtt. okkar 1. þm. Reykv. (J. B.) verður samþykt, mun jeg greiða atkv. með frv. Jeg tel það til bóta, þótt tekjuaukinn verði ekki eins mikill og gert hefir verið ráð fyrir. Kornið fyllir mælinn, og skal jeg síst verða til að slá hendinni á móti tekjum handa landssjóði, þótt smáar sjeu.