22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Gísli Sveinsson:

Eins og frsm. (M. G.) hefir tekið fram leggur fjárhagsnefndin ekki kapp á það sjálfs sín vegna, að háttv. þm. samþykki þetta frv., heldur gerir hún það vegna landssjóðs. Landssjóðinn mun vanta tekjur, eins og allir vita, og allir mæna vonaraugum til fjárhagsnefndar, og þá ekki síst stjórnin sjálf. Því undarlegra er það, þegar þeir hinir sömu rísa gegn tillögum nefndarinnar. Það er ekki eins auðvelt að finna nýja tekjustofna og hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) heldur. Það er að vísu auðvelt að taka einhvern toll eða skatt og tvöfalda hann, eins og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefði líklegast gert í sporum nefndarinnar. En það er ekki það, sem nefndin hefir gert. Þessi skattur (burðargjaldið), ef skatt skal kalla, er einmitt tekinn af því, að öll sanngirni mælir með því, að hann sje aukinn að nokkrum mun, þótt ekki sje nema til bráðabirgða. Allur flutningskostnaður hefir aukist svo stórkostlega, að það er ótækt, að landssjóður beri ekki meira úr býtum en verið hefir. Allir aðrir, fjelög og einstaklingar, hafa hækkað flutningsgjald langt fram yfir helming, og því skyldi þá landssjóður halda burðargjaldi í sömu skorðum. Það sjá allir, að ekki hefir flutningskostnaður hans hækkað minna en annara, líka að meðtalinni dýrtíðaruppbót til pósta.

Þessi hækkun er bráðabirgðaráðstöfun, eins og önnur frv. fjárhagsnefndarinnar. Það er ekki um það að ræða að tvöfalda burðargjald fyrir fult og alt.

Þótt eitthvað væri til í því, sem fyrir flm. brtt. (J. B. og S. S.) vakir, þá væri ekki stór skaði skeður, þótt eithvað af blöðum hætti að koma út. Aðalskaðinn við það væri, að tekjur landssjóðs lækkuðu lítið eitt. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að feiknin öll af því, sem prentað er í bókum og blöðum, er alveg óþarft og á ekkert skylt við mentun og menning. Nú er ástæða til að leggja áherslu á eitthvað annað en að út sje gefið svo og svo mikið af óþörfu bóka- og blaðadrasli.