10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Þetta frv. er frá fjárhagsnefnd Nd., og hefir hún borið það fram í þeim lofsverða tilgangi að auka tekjur landssjóðsins, og það sýnist ekki vera vanþörf á því, því að nú, eftir 2. umræðu fjárlaganna hjer í háttv. deild, nemur tekjuhallinn 823 þús. kr. Jeg vænti því, að þessu frv. verði vel tekið.

En frv. þetta er breytt að nokkru frá því, er fjárhagsnefnd háttv. Nd. vildi vera láta; sú breyting var á frv. gerð í háttv. Nd., að blöð og tímarit skyldu vera undanþegin burðargjaldshækkuninni, en nefndin sá ekki ástæðu til þess, og hefir lagt til, að hækkunin á þeim nemi að eins ¼ hluta, eða 25%. Jeg býst ekki við, að neinum háttv. þm. þyki þessi hækkun ofmikil, enda þótt bæði þeir og jeg viðurkenni það, að blöð og tímarit sjeu nauðsynleg, enda er hækkunin ekki svo mikil á hverju þeirra fyrir sig. Svo verður líka að gæta þess, að burðargjald póstbögla er hækkað um 100%, og að margir munir eru þar fluttir, sem eigi eru síður þarfir en blöðin, bæði bækur o. fl. Þessi hækkun á burðargjaldinu kæmi vitanlega niður á kaupendum blaðanna, en hún er svo lítil, að hún yrði engum tilfinnanleg. Útgefendur blaðanna hafa hækkað þau í verði vegna dýrtíðarinnar, og það án þess að spyrja kaupendur að, og eins mundu þeir hjer gera.

Jeg vil svo mæla með því, að háttv. deild samþykki frumvarpið.