14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg var að kynoka mjer við að standa upp, af því að það var svo mikill ys og þys í deildinni. En jeg skal reyna að vera stuttorður, svo að menn geti heldur verið kyrrir.

Jeg þarf ekki að vera langorður um þennan kafla fjárl., 1.—13. gr. En jeg skal geta þess, að yfirleitt getur fjárveitinganefnd Nd. verið háttv. Ed. þakklát, því að fjárveitinganefnd Ed. hefir yfirleitt hallast að sömu stefnu, sömu tillögum og nefndin hjer í Nd., og tekið upp sumar till. hennar, sem feldar voru hjer í deildinni. En þótt vjer nefndarmenn getum yfirleitt verið þakklátir efri deildar nefndinni, vildi jeg geta þess, að svo virðist, sem háttv. fjárveitinganefnd Ed. sje óánægð við fjárveitinganefnd Nd. fyrir það, hve lengi hún hafi setið á fjárlögunum. Það kemur fram í nál. um fjárlögin, að þau hafi verið óvanalega lengi í Nd. og komið þaðan óvenjulega seint.

Eins og jeg gat um við 2. umr. voru sjerstakar ástæður til þess, að fjárlagafrv. kom 2 dögum síðar úr nefnd en 1915. En þótt nefndin telji þetta ekki móðgandi, síður en svo, vil jeg benda þeim einstökum háttv. þm., sem lesið hafa nál. Ed. nefndarinnar, á, að þetta er misskilningur háttv. nefndar. Fjárveitinganefnd Ed. hefir aldrei haft eins góðan tíma til að athuga fjárlögin og nú. Er það af því, að samkvæmt nýju þingsköpunum eru nefndir kosnar í byrjun þings, en 1915 var það t. d. ekki fyr en 15. júlí. Þetta gerir það að verkum, að fjárveitinganefndirnar geta setið að störfum allan þingtímann, og fjárveitinganefnd Ed. fylgst með okkur. Við sendum henni í lok hvers fundar útdrátt úr gerðabók okkar, svo að hún gæti fylgst með. Það sýnir sig líka, að fjárveitinganefnd Ed. hefir nú setið á 50 fundum, en 1915 á einum 20 fundum.

Út af því, að svo lítur út í nál., sem fjárlögin hafi gengið miklu fljótar nú í Ed., frá því þau komu frá Nd., en áður, vildi jeg geta þess, að 1915 voru þau afgreidd frá Nd. 27. ágúst og komu til 2. umr. í Ed. 4. september, en nú voru þau afgreidd frá Nd. 30. ágúst og komu til 2. umr. í Ed. 8. september. Þau hafa því verið 2 dögum lengur nú en 1915.

Jeg segi þetta að eins fjárveitinganefnd Nd. til afsökunar og til að benda á, að þetta er misskilningur hjá háttv. Ed.

Sný jeg mjer þá að frumvarpinu, og skal fyrst geta þess, að í Ed. hefir tekjuhallinn aukist um 35 þús. kr., svo að heita má, að þar sje lítið, sem skakkar frá því, er var, sjerstaklega þegar þess er gætt, að það leiðir aðallega af einum lið.

Nú hefir fjárveitinganefndin samt leyft sjer að gera nokkrar brtt., en ekki viljað fara langt, nje ganga í berhögg við Ed., svo að málið þurfi ekki að fara í Sþ.

Er þá fyrst brtt. á þgskj. 934, sem er nýmæli frá nefndinni, tekið upp eftir tilmælum skrifstofustjóra Alþingis. Er hún gerð í því skyni, að ljúka megi prentun á hverri örk fjárlaganna jafnóðum, en hingað til hefir hvað bundið annað, og því orðið að ljúka leiðrjettingu á öllu frumvarpinu áður en hægt hefir verið að ljúka við fyrstu örk, og sjá allir, að þetta hefir verið mesta óhagræði.

Umbætur þær sem hjer er farið fram á, ættu að verða til þess, að þingmönnum bærist fyr í hendur leiðrjett fjárlagafrumvarp, að lokinni umræðu.

Að öðru leyti fer og betur á þessu. Mönnum hlýtur að þykja það haganlegra til yfirlits — þeim er skyn bera á málið — að geta gengið að samtölum greinanna á einum stað.

Geta má þess, að skrifstofustjóri þingsins hefir áður átt tal um málið við landritara, og fjellst hann að öllu leyti á þessa breytingu á tilhögun frumvarpsins, og gerði ráð fyrir, ef til hefði komið, að hann hefði haft með höndum samningu fjárlagafrumvarpsins nú, að haga því eins eða á líkan hátt og brtt. fer fram á.

Það mun naumast þörf að taka fram, að nefndin væntir þess, að fjárlagafrumvarp stjórnarinnar verði eftirleiðis með þessu sniði, ef brtt. gengur fram.

Jeg kem þá að brtt. nefndarinnar á þgskj. 906. Þær hafa í för með sjer nokkra lækkun á útgjöldunum.

1. brtt. er um að lækka skrifstofufje sýslumanna niður í 5000 úr 10300 kr. hvort árið, og auk þess vill nefndin breyta orðalaginu svo, að kalla styrkinn dýrtíðaruppbót á embættisrekstri, því að nefndin vill taka það greinilega fram, að þetta eigi ekki að vera til frambúðar. En því hefir nefndin ekki sett fjárveitinguna eins hátt og Ed., að nú hafa sýslumenn miklar tekjur af landssjóðsversluninni, og þar sem nú er svo gengið frá því máli, að þeir munu hafa þær framvegis, þá þótti nefndinni rjett að taka tillit til þess.

Nefndin vill, að stjórnin ráði því, hvernig fjenu er skift, en vill láta þess getið, að hún hefir miðað upphæðina við það, að slept verði lægstu sýslunum, og upphæðirnar, sem stungið var upp á í háttv. Ed., yfirleitt lækkaðar um helming. Jeg skal að síðustu geta þess, að nefndin var ekki öll sammála um þetta, því að minni hluti hennar vill fella alla fjárveitinguna niður.

Brtt. 906, 3, við 12. gr., skal jeg ekki tala um nú, því að áður hefir verið gerð grein fyrir henni.

Brtt. 906, 4, við 12. gr. 13. lið, um að hækka styrkinn til Jóns Kristjánssonar upp í 2000 kr. fyrra árið, er komin fram til samkomulags. Háttv. Ed. vildi færa hann niður í 1500 fyrra árið, en Nd. hafði samþykt að veita 1500 hvort árið.

Um brtt.906, 5, við 12. gr. 15. lið, er það að segja, að nefndin vildi, að stæði við það sama, sem áður hafði verið ákveðið.

Þá vildi nefndin einnig, að vitamálastjórinn hefði sömu laun og vegamálastjórinn, og færir því fjárveitinguna í sama horf og hún var í áður en frumvarpið fór hjeðan úr deildinni.

Þá er lokið þeim brtt. nefndarinnar, sem jeg tala um að sinni, og skal jeg þá snúa mjer að brtt. annara, og byrja þá á brtt. á þgskj. 928, við 12. gr. 8b., um að binda styrkinn til augnlæknisins því skilyrði, að hann komi á land á viðkomustöðum skipanna. Þetta getur gert lækninum þau óþægindi, að hann geti ekki rannsakað sjúklinga, svo sem þörf er á, því að í skipinu hefir hann myrkraherbergi, sem er nauðsynlegt að hafa, en óvíst, að því verði við komið að hafa það alstaðar í landi. En hins má geta, að sjeu sjúklingarnir ófærir um að komast um borð, þá mun læknirinn altaf fús á að fara í land til þeirra. Nefndin verður því að vera á móti tillögunni.

Þá er brtt á þgskj. 909, um að veita Steinunni Guðmundsdóttur 1000 kr. styrk til að geta rekið lækningastofu sína. Nefndin er sömuleiðis á móti þessari tillögu, því að heyrst hefir, að lækningastofan mundi hætta að starfa, af því að hana skorti rafmagn.

Um brtt. á þgskj. 916, frá háttv. þm. Eyf., skal jeg ekki tala, fyr en þeir hafa talað fyrir þeim. Þó vil jeg minnast á þá síðustu, um Öxnadalsveginn, að mjer virðist það harla undarlegt að vera að þessum sífelda reipdrætti, og koma í sífellu fram með brtt., sem allar hljóða um það sama, þótt tölunum sje lítið eitt vikið við, en margbúið er að fella.

Þá eru loks brtt. á þgskj. 913. Nefndin er á móti þeirri fyrstu, um að lækka skrifstofufje vegamálastjórans. Nefndin er þakklát stjórninni fyrir, að hún kom þessu inn í háttv. Ed. Háttv. flutnm. er það víst ekki kunnugt, að þetta er sparnaður, því að með því að hafa fjárveitinguna svo háa sparast dýrari mennirnir frá venjulegum skrifstofustörfum. Auk þess er maður þegar ráðinn með 2000 kr. launum.

2. brtt. á sama þgskj. er sú sama og nefndarinnar, og því óþarfi að minnast á hana. En um þá þriðju er það að segja, að nefndin álítur 1000 kr. ekki ofhátt, og er því á móti tillögunni.