10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Fjármálaráðherra (S. E.):

Mjer liggur í ljettu rúmi, hvort frv. þetta nær fram að ganga eða ekki, en, eins og sakir standa, mun jeg greiða því atkvæði, en jeg vil, fyrir mitt leyti, mæla á móti því, að brtt. háttv. nefndar verði samþ.

Það má öllum vera ljóst, að blöðin eiga nú erfitt uppdráttar, og því er ekki rjett að íþyngja þeim með þyngri gjöldum, og ekki rjett að samþ. brtt. nefndarinnar, heldur frv. óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd. Við vitum það, að blöðin borga sig illa og að flest þeirra eru fremur rekin með tekjuhalla en gróða, og auk þess hefir alt, er að útgáfu þeirra lýtur, hækkað í verði. Pappír er í margföldu verði við það, sem áður var, og prentunarkostnaður miklu meiri, svo að þótt blöðin hafi hækkað verð sitt, þá eiga þau altaf erfiðara og erfiðara.