21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

164. mál, tekjuskattur

Fjármálaráðherra (B.K.):

Jeg gat þess við fyrstu umr. þessa máls, að jeg væri fyrir mitt leyti hlyntur stefnu frv., og gat þess jafnframt, að jeg hefði ekkert að athuga við »scalann« nje hundraðsgjaldið, en að jeg væri deigur við 3. og 4. gr. frv., sem sje að útvíkka tekjuskattskylduna til þeirra, sem hingað til hafa verið undanþegnir henni, nefnilega bændur og útvegsmenn. Eins og kunnugt er halda bændur alment ekki búreikninga, og þar af leiðandi er erfitt að fá uppgjöf hjá þeim, enda eru þeir undanskildir tekjuskatti í lögunum frá 1877. Auðvitað er hægt að hugsa sjer, að skattanefndirnar geri þeim upp tekjur, en það getur orðið ranglátt, af því að þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sjer. Að vísu hefir milliþinganefndarálitið frá 1907 ætlast til þess, en það hefir samt ekki orðið enn.

Þá er 4. gr. frv., um það, að bankar og sparisjóðir sjeu skyldir að láta skattanefndum í tje upplýsingar um fjárhag manna. Það tel jeg ófært ákvæði, því að það stríðir móti reglugerðum bankanna, og jeg tel það stórmikið óhapp, ef háttv. deild samþykkir þá grein, því að jeg óttast, að menn flytji fje sitt úr landi, þeir sem ættu fje í banka til muna. Að vísu geri jeg ráð fyrir, að lagðar yrðu þungar sektir við, ef skattanefndir gæfu frá sjer slíkar upplýsingar, en það gef jeg ekki mikið fyrir, enda er afarörðugt að sanna, þótt slíkum leyndarmálum sje ljóstað upp. Í slíku fámenni sem hjer veit þjóð þá 3 vita, og engin trygging er fyrir, að þeirri vitneskju verði haldið heimulegri, er skattanefnd fær. Jeg óska því, að þessi gr. falli niður, svo að þetta frv. verði í samræmi við gildandi lög. Að öðru leyti hefi jeg ekkert við frv. að athuga.