21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

164. mál, tekjuskattur

Þorleifur Jónsson:

Jeg verð að álíta, að frv. þetta gangi í rjetta átt að því leyti, að hærri skatt eigi að leggja á miklar tekjur en hingað til hefir verið gert. Stórtekjur hafa vaxið að miklum mun á síðustu árum, og er þetta frv. því vel til fundið. En eitt nýmæli þessa frv. tel jeg athugavert, og það er einmitt 3. gr., sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) líka taldi óheppilega. Í 3. gr. er ákveðið að leggja tekjuskatt á landbúnað og sjávarútveg, sem hingað til hafa verið undanskildir tekjuskatti af atvinnu. Jeg get búist við, að nefndinni hafi þótt erfitt að undanskilja sjávarútvegsmenn, því að þeir hafa einmitt ýmsir hæstu tekjurnar. (Fjármálaráðh.: Þeir eru líka skattlagðir.) Já, en það er spursmál, hvort ekki ætti að leggja meiri skatt á stórútgerðarmenn og síldveiðamenn, en hins vegar játa jeg, að smáútvegur með mótorbáta og róðrarbáta gefur svo lágar tekjur, að ekki er ástæða til að taka þann atvinnuveg með, og eins er með landbúnað, að þar er ekki um mjög háar tekjur að ræða. Þegar tekið er til greina, að undanfarin ár hefir verðlagsskrá hækkað um helming og lausafjár- og ábúðarskattur að sama skapi, svo að gjöldin á landbúnaði hafa verið allþung, tiltölulega þyngri en á öðrum atvinnuvegum, sje jeg því ekki betur en að landbúnaður hafi goldið sinn stríðsskatt. Þá er þess að gæta, að erfitt mun fyrir bændur að gera upp tekjur af búum sínum. Menn halda ekki búreikninga, enda ber fróðustu mönnum ekki saman um, á hvern hátt eigi að gera það; það er því bætt við, að skattanefndum veitist erfitt að ákveða skatthæð landbúnaðarmanna.

Jeg efast mjög um, að þetta verði þægilegt í framkvæmdinni, því að það verður svo erfitt, bæði fyrir skattanefndir og bændur, að ákveða, hve miklar tekjurnar eru. Það er ekki meining tekjuskattslaganna frá 1877, að tekjuskattur sje goldinn af bruttótekjum, heldur nettótekjum, eins og eðlilegt er, og á því að draga frá allan tilkostnað við rekstur atvinnuvegarins. Jeg held, að þetta fyrirkomulag verði of flókið bæði fyrir framteljendur og skattanefndir, og auk þess virðist þessi atvinnuvegur hafa goldið sinn stríðsskatt með verðhækkunartollinum, sem nú er jafnvel búist við að verði framlengdur. Jeg hefi ekki ráðist í að koma með brtt. um að fella 3. gr. frv., því að jeg er efins um, hvort rjett er að fella úr sjávarútveginn, því að álitamál getur verið, hvort ýmsir stórir og tekjuháir útvegsmenn sleppa þá ekki við hinn háa skatt, sem frv. ætlast til að hvíli á stórtekjum. En mjer hefir dottið í hug, hvort nefndin vildi ekki athuga það, að rjett væri að færa lágmarkið úr 1000 kr. upp í 1500 eða 2000 og gera þar með smærri framleiðendum hærra undir höfði. Nú í dýrtíðinni veitir ekki af að hjálpa þeim, sem litlar tekjur hafa. Jeg vil því skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún vill ekki athuga þetta nánar og breyta því við 3. umr.