21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

164. mál, tekjuskattur

Einar Jónsson:

Það er æfinlega góðra gjalda vert, þegar nefnd leggur fram frv., því að venjulegast má búast við því, að þau sjeu betur úr garði gerð heldur en frv. einstakra þm. Þetta frv. er þannig til komið, en ekki get jeg þó orðið samþykkur því í öllum atriðum, þótt sumt geti jeg fallist á. Nú munu menn einu sinni heyra þá nýlundu, að jeg verð samferða háttv. þm. Dala. (B. J.), sem er óvanalegt, en þar á móti verða þeir nú ósammála perluvinirnir, háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Sannast hjer, að batnanda manni er best að lifa. Þetta má ekki skilja sem álas til þessara háttv. þm., sem jeg hefi hjer talið. Því að jeg álít það tvent jafnmikla ófæru, að einn þm. segi við annan: Jeg skal í öllu vera þjer samþ., eins og hitt, að heita öðrum því að vera honum aldrei sammála. En því miður þekkjast hjer dæmi svipuð þessu.

Aðalefni frv. sýnist mjer felast í 1. gr., en jeg get þar tekið undir með háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), að mjer þykir lágmarkið helst til lágt, og mundi vilja færa það upp í 1500 kr. eða jafnvel 2000 kr., eins og sá háttv. þm. (Þorl. J.) stakk upp á, en jeg hefi nú ekki viðlátnar brtt. um þetta, en mun þá síðar gera þær, ef þurfa þykir.

Um 4. gr. er jeg alveg samþykkur háttv. þm. Dala. (B. J.), að sparisjóðsfje manna eigi að skattskyldast, svo sem aðrar eignir. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) svaraði því, að bankinn vissi oft ekki, hver bækurnar ætti. En mjer finst þetta svar dálítið út í loftið. Það væri eitthvað undarleg bankastjórn, sem ekki vissi, hver væri eigandi að stórri sparisjóðsbók, ef til vill 1 miljón króna. Það þarf ekki að telja neinum trú um slíkt. Svo stór sparisjóðsinnlög ættu eðlilega að hafa áhrif á lánstraust manna, og illa trúi jeg því, að sá Gullbringu- og Kjósarsýslubúi, sem tugi þúsunda ætti inni í sparisjóði við Landsbankann, ef fjármálaráðherrann (B. K.) væri þar bankastjóri, þektist þar ekki, sem eignamaður, þar sem sannanlegt mun vera, að helmingur allra útlána Landsbankans standa í kjördæmi og bæjarfjelagi hæstv. fjármálaráðherra og bankastjóra (B. K.), sem nú er einn og sami maður.

Jeg skal nú ekki fjölyrða um þetta, eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), og tel mjer skylt að segja honum til þess, að honum líðst ekki lengur að halda svona langar ræður, manni, sem vel ætti að geta í stuttu máli skýrt skoðun sína; það er því furðulegra, sem hæstv. forseti hefir mælst undan óþarfa mælgi. Jeg mun hlýða hæstv. forseta, að halda ekki langa ræðu, en tel sanngjarnt og rjettlátt að ávíta þá, sem með óþörfum ræðum misbjóða mjer og öðrum.