21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

164. mál, tekjuskattur

Þorleifur Jónsson:

Háttv. frsm. (G. Sv.) sagði, að ekki væri tilhlýðilegt að sortjera menn úr, heldur væri rjett, að lögin næðu jafnt yfir alla. Mjer finst nú ekkert ódæði í því, þótt þeir væru látnir vera skattfríir, sem áður hafa verið það. Þótt milliþinganefndin í skattamálinu vildi leggja tekjuskatt bæði á sjávarútveg og landbúnað, þá ætlaðist hún einnig til þess, að niður fjelli lausafjártíund. Sami háttv. þm. (G. Sv.) sagði líka, að ekki væri hætt við, að bændur mundu verða útsognir fyrir þetta, með því að hjer væri að eins um hreinar tekjur þeirra að ræða. En það getur verið álitamál, hvað hreinar tekjur eru. Samkvæmt tekjuskattslögunum má kljúfa frá tekjunum kostnaðinn við atvinnurekstur, en þó ekki það, sem legst í kostnað handa atvinnurekanda sjálfum og vandamönnum hans til lífsnauðsynja, svo að eftir því er ekki hægt að draga frá það, sem fer í búið. Jeg er nú smeykur um, að erfitt sje að vita, hvað fer í búið, svo að þegar kemur til hins ítrasta, verði bændur útsognir, er þetta ofanálag bætist við alla aðra skatta.

Jeg mundi, eins og jeg hefi áður sagt, fella mig best við það, að lágmarkið væri fært upp í 1500 til 2000 kr. Háttv. frsm. (G. Sv.) tók því ekki mjög fjarri, þótt engu lofaði hann um það; jeg mun því við 3. umr. koma með brtt. um þetta, ef nefndin sjálf treystir sjer ekki til þess. Jeg held, að það sje engin goðgá, að þeir, sem hafa undir 1500 kr., sleppi gjaldfríir, einkum meðan þessir örðugu tímar standa.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort hægt er að ná tekjuskatti af stærri sjávarútvegsmönnum samkvæmt tekjuskattslögunum frá 1877; það má vera, að þeir geti sloppið eftir ákvæðum 5. gr. þeirra laga. En sjálfsagt mætti breyta því ákvæði svo, að smærri útgerðarmenn og landbændur hyrfu undan skattinum.