23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

164. mál, tekjuskattur

Þorleifur Jónsson:

Jeg hefi ásamt tveim öðrum hv. þingdm. leyft mjer að koma með viðaukatillögu við frv. þetta, um það, að eigi skuli leggja skatt á lægri tekjur en 2000 kr., og er það samkvæmt því, sem jeg tók fram við 2. umr. málsins.

Háttv. framsm. nefndarinnar (G. Sv.) kvað nefndina mundu láta tillögu þessa hlutlausa; hefði jeg þó fremur vænst þess, að háttv. nefnd mundi taka hana upp á arma sína, því að hjer er í engu vikið frá grundvelli þeim, sem frumvarpið byggist á, þeim grundvelli að ná hærri tekjuskatti en nú er af miklum tekjum, en íþyngja ekki lágum tekjum, fram yfir það, sem nú á sjer stað.

Eftir því, sem 3. gr. frv. er nú úr garði gerð, hlýtur starf skattanefnda að verða afarörðugt; þær munu þurfa að gera búreikninga fyrir fjölda framleiðenda, bæði í sveitum og sjávarplássum, til þess að geta ákveðið tekjuskattinn, og sjá allir, að slíkt er ókleift. En það mun verða miklu hægra við að fást, ef lágmark skattskyldra tekna er fært upp, eins og við leggjum til. Þá getur skattanefnd þegar sjeð það í hendi sjer um fjölda manna, að ekki komi til mála, að tekjur þeirra sjeu svo háar, að þeir þurfi að svara tekjuskatti af þeim, og losast þar við alla frekari rannsókn.

Jeg fæ ekki heldur betur sjeð en varúðarvert sje að íþyngja þessum atvinnuvegum nú í dýrtíðinni með nýjum sköttum; flestum mun veita fullerfitt að greiða skatta þá, sem nú hvíla á þeim, ábúðar- og lausafjárskattinn.

Ekki sje jeg, að það valdi ruglingi, þótt brtt. sje samþykt, og varla mun það heldur valda mikilli tekjurýrnun við það, sem annars yrði.

Jeg vil halda sem fastast við aðaltillögu mína, og vona, að hún mæti svo góðum undirtektum, að hún verði samþykt, því að hún á það skilið, enda hefir hún ekki sætt andróðri hjá háttv. nefnd.