14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sveinn Ólafsson:

Jeg á hjer 3 litlar brtt. En ekki á jeg því láni að fagna, að háttv. nefnd hafi viljað taka þær upp á arma sína. Að því leyti hefir henni líkt farið og við 3. umræðu, er hún lagði á móti öllum tillögum mínum, og stend jeg því ekki í neinni þakklætisskuld við hana.

Þessar brtt. hafa nú það til ágætis sjer, að þær fara eigi fram á fjáreyðslu úr landssjóði; að því leyti ættu þær að vera öllum meinfangalausar. Og þótt ein þeirra hækki lítillega gjaldahlið fjárlaganna, þá er það að eins flutningur úr einni pyngju landssjóðs til annarar. Í brtt. minni á þgskj. 925 er farið fram á, að skógræktarfjeð verði hækkað um 2000 kr. hvort árið, eða úr 12 þús. kr. upp í 14 þús. kr., og að af fje þessu sje 2700 kr. hvort árið varið til íbúðarhússbyggingar á Hallormsstað. Jeg flutti þetta sama erindi, þó í nokkuð annari mynd, hjer inn í háttv. deild við 3. umr. fjárlaganna. Fór jeg þá fram á, að veittar væru 5400 kr. í einu lagi til húsbyggingarinnar, en nú legg jeg til, að upphæðin sje greidd á tveim árum, en að fjeð, sem veitt er til skógræktar, minki ofurlítið. Jeg hygg, að þetta geti staðist, og þótt skógræktin kunni að bíða einhvern lítinn hnekki við það í bili, þá held jeg, að það sje betra en að þetta fornfræga höfðingjasetur sje látið níðast niður. Höfðingjasetur leyfi jeg mjer að nefna Hallormsstað, því að staðurinn ber þess órækan vott, að vitrir menn og sannir höfðingjar hafa þar setið og varðveitt skóginn fagra frá eyðingu. Það er vansæmd að láta þessa fögru eign landssjóðs níðast niður og jafngóða jörð standa húsalausa; og síst er það metnaðarauki fyrir oss, er útlendingar heimsækja þennan landsfræga gróðrarreit, að sýna þeim hann í slíkri vanrækslu, sem hann er nú.

Það hefir verið haft á móti þessari tillögu minni, að byggingarefni sje ófáanlegt. Ef svo er, þá nær það ekki lengra og fjeð sparast. En jeg hygg, að ýmislegt af efninu sje fáanlegt, og nokkuð af því þegar fengið, og því sje rjett að veita fjeð nú. Jeg hygg, að þeir, sem Hallormsstað þekkja, telji það illa farið, ef hann er látinn leggjast í kaldakol, og að þingið muni litla viðurkenningu fyrir þá sparsemi hljóta, sparsemi, sem stingur svo átakanlega í stúf við alt fjárlagasukkið í þetta sinn. Þess ber að gæta, að þegar hefir verið lagt allmikið fje og vinna í að bæta stað þennan og skreyta, miklu verið kostað til girðingar um skóginn allan og gróðrarreitanna; væri hrapallegt, ef hætta ætti nú við hálfunnið verk, því að húsalaus getur jörðin ekki verið. Jeg vona því, að tillögunni verði leyft að fljóta, og að háttv. þingdm. átti sig á því, að með þessari litlu fjárveitingu er til sæmdar og gagns unnið.

Önnur brtt. mín er á þgskj. 928, um það, að það sje gert að skilyrði fyrir fjárveitingunni til ferðalaga augnlæknisins, að hann komi á land á viðkomustöðum skipanna.

Þessa ósk hefi jeg borið fram af því, að einn af hjeraðslæknum austanlands hefir kvartað um, að sjúklingar, sem vanfærir eru til ferða, einkum gamalmenni og börn, sem ekki hafa verið fær um að fara út í skip, hafi ekki haft not af komu augnlæknisins. Mjer finst það sanngjarnt, þótt farið sje fram á, að hann komi á land á viðkomustöðum skipanna.

Hv. frsm. (M.P.) tók það fram, að ástæðulaust væri að fara fram á þetta, því að augnlæknirinn hefði allan sinn umbúnað til að taka á móti sjúklingum á skipi úti. En þótt svo sje, og þótt hann geti má ske ekki skoðað sjúklinga til fullnustu nema þar, þá er ekki stór kvöð á hann lögð, þótt hann eigi að koma á land og líta á sjúklinga þá, sem geta ekki komist út í skip til að hitta hann þar.

Það hefir viljað svo óheppilega til, að í prentuninni hefir fallið aftan af brtt. orðin »til viðtals við sjúklinga«. Leyfi jeg mjer að skjóta því til hæstv. forseta, hvort eigi muni mega leiðrjetta þetta án þess að tillagan sje nú prentuð upp.

Loks kem jeg að 3. brtt. minni á þgskj. 925, um það, að úr athugasemdinni um forgangsrjettarskólana falli Hvammstangaskóli. Þegar fjárlagafrv. fór hjeðan úr deild, voru tilnefndir 4 unglingaskólar, er hver um sig skyldu njóta 1500 kr. styrks af þeim 15000 kr., sem ætlaðar voru til unglingaskóla. Auk þess var 2 af skólunum ætlað alt að 1000 kr., er miðast skyldu við nemendafjölda.

Í háttv. Ed. var svo bætt við 5. skólanum, skólanum á Hvammstanga; hafði verið borin upp um það tillaga hjer í deild, en fallið.

Að jeg legg til, að þessi skóli sje feldur úr athugagreininni, kemur til af því, að mjer finst ekki rjett að minka styrkinn til ónafngreindu skólanna, fram úr því, sem ákveðið var hjer í deild. Nú munu vera einir 11 unglingaskólar, auk þessara 5, og kemur þá ekki mikið í hvers hlut, þegar frá eru gengnar 8500 kr. Mjer finst þeim vera órjettur ger með því að taka svona marga forgangsrjettarskóla á kostnað þeirra, og jeg hefi enga vissu fyrir verðleikum þessara, sem forgangsrjett eiga að hafa. — Jeg þykist heyra þeirri spurningu varpað fram, hví jeg vildi ekki fella þá alla. Þessu svara jeg á þann veg, að þrír af skólum þessum eru í þeim landsfjórðungum, sem minstan styrk hafa fengið úr landssjóði til skólahalds. 2 þeirra eru í Vestfirðingafjórðungi, á Núpi og Ísafirði, og einn í Austfirðingafjórðungi, á Seyðisfirði, og er ekki nema sanngjarnt, að þeir sjeu látnir njóta styrks, framar skólum þeirra fjórðunga, sem eiga marga landsstyrkta skóla, svo sem er um Sunnlendinga- og Norðlendingafjórðunga.

Á þgskj. 910 er tillaga frá háttv. þm. Dala. (B. J.), sem jeg mundi hafa látið afskiftalausa, ef hún hefði ekki staðið í svo nánu sambandi við tillögu mína á þgskj. 924. Þar er farið fram á að setja skólann í Hjarðarholti í Dölum í tölu forgangsrjettarskólanna. Jeg verð að sjálfsögðu að vera á móti þessari tillögu, því að hún gengur í öfuga átt við það, sem jeg vildi vera láta um unglingaskólana, að skifta milli þeirra eftir nemendafjölda og starfstíma, eins og verið hefir. Um aðrar brtt. ætla jeg ekki að ræða, vil ekki eyða tímanum til þess, enda tækifæri við atkvæðagreiðslu að minnast þeirra.