14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E):

Það var till. frá mjer um skrifstofukostnað sýslumanna samþ. í háttv. Ed. Við þann lið eru hjer fram komnar 2 brtt. Önnur er frá háttv. fjárveitinganefnd og fer fram á að lækka liðinn úr 10300 kr. niður í 5000. Hin er á þgskj. 912, og fer fram á að fella liðinn alveg. Jeg skal leyfa mjer að geta þess, að ástæðan til þess, að jeg bar þennan lið fram, var sú, að það kom brjef frá sýslumanninum í Húnavatnssýslu, þar sem hann fer þess á leit, að hann fái 1500 kr. í skrifstofufje, þangað til launakjör íslenskra embættismanna verði endurskoðuð. Hann gaf einnig yfirlit yfir nauðsynlegan kostnað af embættinu, sem var svo mikill, að launaafgangurinn varð ekki nema 1552 kr. Fjárveitinganefnd Nd., sem fjekk þessa skýrslu frá sýslumanni, sendi hana stjórnarráðinu til athugunar, og virtist vilja taka mál þetta til greina á einhvern hátt. Ástæðurnar til að veita sýslumönnum skrifstofufje eru, eins og sakir standa, ákaflega margar, og sá stjórnin sjer ekki annað fært en að taka þessa beiðni til greina á þann hátt að veita öllum sýslumönnum örlítinn skrifstofukostnað. Í fyrsta lagi eru ástæður, sem stafa af stríðinu, sem nú stendur yfir í heiminum, sem sje þær, að sýslumannsembætti, sem áður voru svo vel launuð, að þau þoldu nokkurn embættiskostnað, eru miklu tekjurýrari nú, því að aukatekjurnar eru sama sem engar. Flest sýslumannsembættin eru líka þannig löguð, að eins og hlaðist hefir á þau mikið af alls konar aukastörfum nú, er ómögulegt að reka þau án mikils skrifstofukostnaðar. Jeg skal leyfa mjer að skýra frá kostnaðinum við hin ýmsu embætti, samkvæmt skýrslu, sem samin var 1916, þegar dýrtíðaruppbót embættismanna var ákveðin. Jeg ætla að lesa þessa skýrslu upp með leyfi hv. forseta

Sýsla. Föstlaun. Emb.kostn.

kr. kr.

Mýra- og Borgarfj 3500 1200

Snæf.n. og Hnappadals 3000 1300

Dala 2500 760

Barðastrandar 2500 1580

Stranda 2500 600

Húnavatns 3500 1326

Skagafjarðar 3000 600

Þingeyjar 3500 1400

Norður-Múla og Seyðisf. 3500 2800

Suður-Múla 3000 2300

Skaftafells 3000 1064

Rangárvalla 3000 775

Veetmannaeyja 2000 1600

Árnes 3500 2765

Gullbr. og Kj. og Hafnarf. 3000 2470

Það er engin skýrsla fyrirliggjandi frá bæjarfógetunum á Ísafirði og Akureyri, því að þeir óskuðu ekki eftir dýrtíðaruppbót. Fyrst nú að kostnaðurinn af embættinu er svona mikill 1916, þá er auðsjeð, að það er ekki mikið eftir að lifa af, þegar búið er að draga hann frá föstu laununum. Fyrir komandi ár má búast við, að kolakostnaðurinn verði svo mikill, að hann hleypi skrifstofukostnaðinum fram að miklum mun. Við þetta bætist, að þingið er altaf að leggja meiri og meiri verk á sýslumennina, án þess að auka laun þeirra á nokkurn hátt, enda er eðlilegt, að eftir því sem viðskiftalíf okkar eykst ár frá ári aukist einnig störf þessara manna. Þá er á það að líta, að þessir embættismenn sumir hverjir eru, þegar á alt er litið, víst allra embættismanna verst launaðir, en hafa þó mörgum mjög þýðingarmiklum störfum að gegna, hafa t. d. aðalinnheimtu landsins, og það má nærri geta, hve holt það er að hafa þá menn svo illa launaða, að þeir verði að leita sjer aukastarfa, til þess að geta lifað. Það er mjög nauðsynlegt, að þeir sjeu efnalega sjálfstæðir menn. Það sýnist því liggja í hlutarins eðli, að jeg þurfi ekki að fara fleirum orðum um þetta, hve mikil nauðsyn það er að láta þessa menn hafa skrifstofufje, þar sem líka sjerstaklega harðar kröfur eru gerðar til þeirra um það að afgreiða mál fljótt, eins og sjálfsagt er, en til þess að geta rekið þau með nægilegum hraða, þarf eitthvert skrifstofufje. Það er líka merkilegt tímanna tákn, að nú er eitt sýslumannsembætti laust, sem talið er með þeim betri. Það er sem sje Suður-Múlasýsla. Jeg hefi nýlega átt tal um það við tvo lögfræðinga, sem báðir sögðu, að þeir hefðu mjög gjarnan viljað sækja um það, en hafi ekki treyst sjer til þess vegna þess, hve illa það er launað. Það er yfirleitt ekki vinsælt að flytja mál sem þetta á Alþingi, en ætti þó að vera það, því að það er enginn bitlingur, þótt veitt sje nauðsynlegt fje til nauðsynlegra embætta, til þess að þau geti orðið rekin þjóðinni til sem mests gagns. Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um þetta að sinni, en leyfi mjer að vænta, að þessi styrkur fái að standa óbreyttur, eins og hann er í frv. nú, er það kemur frá háttv. Ed. Undir öllum kringumstæðum er ófært að hafa hann minni en háttv. fjárveitinganefnd hefir stungið upp á. Þá vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um 13. brtt. nefndarinnar. Hún er um stórstúku Good-Templara, og jeg skal ekki vera margorður um hana, en að eins leyfa mjer að mælast til, að hún verði feld ásamt varatill., en styrkurinn til stórstúkunnar látinn standa. Jeg verð að líta svo á, að þessi styrkur sje veittur í viðurkenningarakyni fyrir störf, sem hafa orðið til mjög mikils góðs.

Þá er brtt. á þingskj. 932, sem jeg hefi komið fram með. Jeg vil leyfa mjer að þakka háttv. fjárveitinganefnd fyrir það, hve vel hún hefir tekið henni, og sjerstaklega háttv. framsm., þm. Dala. (B. J.), fyrir ummæli hans um þessa brtt. Í raun og veru hefi jeg engu við það að bæta, sem hann sagði um hana, því að hann tók alt það fram, sem jeg hefði gjarnan viljað segja. Eins og kunnugt er hefir skrifstofustjóri Indriði Einarsson verið í þjónustu landsins í 37 ár, lengst af við mjög lítil laun, en verið fjölskyldumaður og því átt við þröng kjör að búa. Hann er búinn að starfa, sem sagt í þjónustu landsins í 37 ár, og því ekki nema eðlilegt, að hann sje dálítið farinn að þreytast, enda hefir hann auk þess, sem hann hefir starfað beinlínis í landsins þarfir, haft ýms önnur áhugamál, því að hann hefir jafnan í frístundum sínum, eða þegar eitthvert hlje hefir orðið á störfum hans, fengist við að semja skáldrit. Jeg þarf ekki að minna á starfsemi hans sem leikritaskálds eða þann skerf, sem hann hefir lagt til bókmenta þjóðarinnar, því að það er öllum kunnugt. Jeg skal að eins benda á Nýársnóttina, sem hefir verið leikin hjer hvern veturinn eftir annan, og ekkert leikrit hefir gengið eins oft og hún. Jeg veit, að það er ósk Indriða að mega nota þann tíma, sem hann á eftir æfinnar, eingöngu til skáldskapar, sjerstaklega til þess að geta lokið verki, sem hann er þegar byrjaður á fyrir löngu, en hefir ekki getað lokið við, sökum mikilla anna. Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleirum orðum, en læt mjer nægja að vísa til þess, sem háttv. framsm. (B. J.) sagði um þetta atriði, því að honum fórust svo vel orð um það, eins og vænta mátti. Auk þess er mjer kunnugt um, að nálega alt þingið er mjer sammála um rjettmæti þessarar brtt.