12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

164. mál, tekjuskattur

Magnús Torfason:

Frv. þetta fer fram á hinn langhæsta beina skatt, sem komið hefir til mála að leggja á menn hjer á landi. Og eins og vjer vitum eru beinu skattarnir langsárastir, og eigi sjer þar eitthvað órjettlæti stað, þá kemur það langharðast niður. Þess vegna er ástæða til að vanda vel til þeirra, en demba þeim ekki á þjóðina lítt athuguðum.

Fyrsta brtt. mín fer fram á að hækka lágmark fjárins, sem skattskylt er, úr 1000 kr. upp í 2000 kr., og á að gilda jafnt fyrir alla, en ekki ætlast til þess, að landbúnaður og sjávarútvegur sjeu undanskildir. Jeg leit svo á, að nú í dýrtíðinni væri sjálfsagt að láta alla njóta þessara hlunninda, sjerstaklega verkamenn; því að 2000 kr. kaup á þessum tímum nemur ekki meiru en 1000 kr. fyrir 40 árum, þegar lög þessi voru sett. Þetta kemur líka heim við það, að í Danmörku er veitt dýrtíðarhjálp þeim mönnum, sem hafa ekki yfir 1950 kr. tekjur. Þar er litið svo á, að þessir menn sjeu hjálparþurfar. En ef frv. það, sem hjer liggur fyrir, verður samþ., þá er ætlast til, að þeir greiði skatt, sem síst mega við því. Jeg vænti því þess, að hv. deild verði mjer samtaka um að breyta þessu.

Önnur brtt. er afleiðing af þessari.

Um 4. gr. er það að segja, að lagt er til, að hún falli burt, með því að hún virðist óþörf, sjerstaklega ef samþyktar eru tillögurnar um að rýmka vald skattanefnda.

Í 4. brtt., sem á við 5. gr, er farið fram á að rýmka valdsvið skattanefnda. Er hjer með breytt grundvelli gamla fyrirkomulagsins. Má heita, að skattanefndirnar verði nokkurskonar niðurjöfnunarnefndir.

Loks er 5. brtt., þar sem farið er fram á það, að yfirskattanefndirnar hafi meira vald til þess að láta til sín taka og hafi eftirlit með því, að skattanefndirnar gegni skyldu sinni.

Með 6. brtt. er það lagt til, að orðin »og ganga ríkt eftir rjettu framtali« falli burt. Þessi brtt. er í samræmi við brtt. mína um að fella það ákvæði í 5. gr. frv., að skattanefnd geti, ef henni finst ástæða til, látið framteljanda staðfesta framtal sitt með eiði eða drengskaparheiti fyrir dómi. Jeg lít svo á, að þetta ákvæði ætti að nota eins sjaldan og unt er. Vjer verðum að athuga það, að það er stundum ekki fjárráðandinn sjálfur, sem telur fram, heldur einhver undirmaður hans, og það gæti komið sjer illa, að þessir menn væru

píndir til að vinna drengskaparheit, enda ætti ekki að þurfa að koma til þess, ef brtt. um rýmkun valdsviðs skattanefnda verður samþykt.

Þá kemur ný grein, um þóknun til skattanefnda og yfirskattanefnda. Þar er farið fram á, að báðar nefndirnar hafi sömu þóknun sem sýslunefndarmenn. Samkvæmt gömlu lögunum áttu yfirskattanefndarmenn að fá sömu þóknun fyrir störf sín sem sýslunefndarmenn hafa, samkv. 33 gr. tilskipunar frá 4. maí 1872. En sú grein er numin úr gildi með sveitarstjórnarlögunum 1905, og er hjer því glompa á lögunum, að minsta kosti mjög mikið vafamál, hvort heimilt er að greiða yfirskattanefndarmönnum dagpeninga. En þar sem hjer er lagt þyngra og ábyrgðarmeira, og þar að auki vanþakklátt, verk á skattanefndirnar, virðist sjálfsagt, að þeim sje greitt kaup, enda er verkamaðurinn verður launanna.

Þá er 5. brtt, sem er um það, um hvert leyti árs skattaskrárnar skuli samdar. Þessi brtt. er gerð í því skyni að færa skattárið fram um 1 ár. Eftir gömlu lögunum átti að heimta tekjuskattinn á þriðja ári eftir að tekjurnar fjellu. En þetta ákvæði er mesta ólán. En þar sem nú er um nýjan skatt að ræða, virðist óhæfa, að hann nái aftur í tímann. Jeg hefi leitað fyrir mjer í lögum um þetta efni og ekki fundið neitt dæmi þess, að skattur nái lengra aftur en það ár, sem lögin eru sett. En það eru gömlu lögin, sem valda þessu. Með þessum nýja skatti væri annars tekið gjald af mönnum löngu eftir að þeir hafa ráðstafað fje sínu. Hjer er því verið að fara aftan að mönnum. En menn eiga rjett á að vita, er þeir gera upp búreikninga sína, hverju verður dembt á þau fyrirtæki, sem þeir hafa með höndum. Enda hefir þingið, jafnvel í smáatriðum, gætt þess, að skatturinn nái ekki aftur í tímann.

Og sjávarútvegurinn, er hjer verður verst úti, er stopull atvinnuvegur, eins og best hefir sjest á þessu ári. Er því vafasamt, hvort nokkurt vit er í því að leggja annan eins skatt og hjer um ræðir á þennan atvinnuveg, og það því fremur sem útvegurinn þarf afarmikið fje til rekstrar, — nauðsynlegt, að fjársterkir menn standi að honum.

Nú er að vísu svo fyrir þakkandi, að einstaka útgerðarmenn eru orðnir allefnaðir. En hins vegar ber á það að líta, að á síðari árum hafa margir efnalitlir menn ráðist í útgerð í stærri stíl. Græddu sumir þeirra vel árið 1916. En þessir framtakssömu áhugamenn vörðu þeim gróða til þess að auka útgerðina. En svo kom þetta hörmungarár, og margir hafa nú tapað því, er þeir græddu í fyrra, eða freklega það, og er undir hælinn lagt, hvort sumir þeirra hafa ekki goldið það afhroð, að þeir verði að hætta útgerðinni.

Þessi skattur mundi því verða til þess að auka tjón þessara manna, úr því sem komið er. Vona jeg, að háttv. deild sje svo sanngjörn, að hún sjái, að þetta nær ekki nokkurri átt. Það er mælt, að betra sje að 10 ranglátir sleppi en 1 rjettlátum sje hegnt, og hið sama ætti að sjálfsögðu að vaka fyrir háttv. Alþingi.

Það var kallað til mín úr deildinni, að tillögur mínar, er jeg skýrði við síðustu umræðu, án þess að þær væru þá komnar fram, færu fram á að hlífa stórbokkunum. Jeg hugði, að jeg hefði ekki komið svo fram í lífi mínu, að ástæða væri til að bregða mjer um það, að jeg hjengi aftan í auðmönnum þessa lands. Enda vill svo til, að stórauðmennirnir losna ekki við skattinn eftir brtt. mínum. Það eru, þar sem jeg þekki til yfirleitt, að eins hinir ungu og áhugasömu menn, sem tapað hafa á þessu ári, er sleppa við hann. Það eru ekki fyrst og fremst stórauðmennirnir, sem hrundið hafa áfram sjávarútveginum. Til skilningsauka vil jeg geta þess, að hefði árið 1917 verið jafnarðsamt og árið 1916, mundi enginn hafa haft á móti þessum brtt. En nú vilja sumir ekki með nokkru móti sleppa árinu 1916. Jeg vil segja það, að því meiri óáran sem nú er, því fremur er ástæða til að sleppa árinu 1916, nema menn finni ráð til að aðgreina þá, sem grætt hafa 1916 og ekki tapað 1917.

Jeg er í engum vafa um, að frv. verður feykimikil tekjulind fyrir landssjóð. Og sjerstaklega verður þetta gífurlegur skattur, ef miðað er við þá beinu skatta, sem hingað til hafa verið lagðir á menn. Jeg hefði haldið, að þeim, sem vilja demba skattinum yfir nokkurn hluta þjóðarinnar, hefði verið hyggilegra að fara ekki svona freklega í þetta mál nú í fyrstu, svo að skatturinn hefði ekki sætt jafnákveðum mótmælum frá þeim, er hann eiga að greiða. Það væri eðlilegra, að þeir, sem eiga að greiða skattinn; fengju að leggja orð í belg. Nú eru bændur að leggja skatt á sjávarmenn og kaupstaðarbúa, og ættu þeir þá ekki að virða álit þeirra alveg vettugi. Og ef ætti að byggja framtíðarlöggjöf á þessu, væri hyggilegra að ríða ekki svona geist úr hlaði. Þetta mundi valda atvinnuríg milli bænda og kaupstaðarbúa. Sá rígur myndi verða þjóðinni til ómetanlegs tjóns, og sje jeg ekki annað skaðvænna en að ala á slíku. En ef frv., þannig lagað, gengur fram í þessari mynd, verður ekkert fremur til að ala á rígnum.

Því hefir verið haldið fram, að sjávarútvegurinn væri hjálparþurfi, en frv. minkar að miklum mun burðarþol þeirra kjördæma, sem mundu greiða mikinn hluta skattsins. Hjer í landi er skattur, sem heitir útsvar. Með þessum skatti geta kaupstaðir og sjávarþorp látið gjöldin koma rjettlátlega niður á þeim, sem grætt hafa, og nægar holur eru fyrir skattþol í kaupstöðum. Það er enginn vafi á því, að niðurjöfnunarnefndir og bæjarstjórnir hafa ár frá ári lært betur að nota þetta burðarþol. Er því ekki hætt við því, að stórgróðamenn fái ekki að bera sinn hluta gjaldanna.

Jeg vil beina nokkrum orðum til hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Það er eðlilegt og hefir altaf tíðkast, að góðir fjármálaráðherrar hugsi sem mest um að fylla þá sjóði, sem þeir eiga yfir að ráða. Það er einkenni þeirra um heim allan. Hygg jeg, að deildin þurfi ekki að taka mjög mark á síðustu ræðu hans (S. E.). Þetta segi jeg honum alls ekki til miska, því að skiljanlegt er, að hann neyti allra bragða til þess að auka tekjur landssjóðs. En jeg er hræddur um, að það sje ekki alveg laust við það, að hann sjái rautt í þessum skattamálum. Við verðum að athuga það, að í neyðarárum verður að fara ákaflega varlega í að bæta við nýjum sköttum og sjá um, að þeir komi rjettlátlega niður. — Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) er þegar búinn að fá nokkra tolla; hann er búinn að fá samþykt lög um hærra burðargjald, aukinn toll af tóbaki, aukið vitagjald, og var það ekki mjer að kenna, að það varð ekki hærra, og loks fjekk hann Kínann í gær, þótt það væri vitaskuld ekki með hans góða vilja. Jeg hefði þess vegna litið svo á, að þar sem þingið hefir samþykt þessar tollaukningar, þá hefði það átt að hafa ráð á því að fara sæmilega með þetta mál og gæta allrar rjettsýni.