12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

164. mál, tekjuskattur

Karl Einarsson:

Jeg á hjer dálitla brtt. á þgskj. 902.

Jeg lít svo á þessi skattafrv., sem komið hafa fyrir þessa háttv. deild, sem þau hafi verið lítt undirbúin, enda hafa þau öll komið frá einstökum þingmönnum, og því ekki von, að þau hafi verið grannskoðuð.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er þó, að mjer virðist, eftir eðli sínu það langskársta af þeim öllum. Það gengur í þá átt að reyna að auka tekjur landssjóðs, þar sem líkindi eru til, að það skaði minst hvern einstakan. Eitt atriði verð jeg þó að telja varhugavert í frv., eins og það nú liggur fyrir, það, að innheimta skuli á næsta vori skatt af tekjum manna fyrir árið 1916 eftir þessum lögum.

Þetta álít jeg mjög varhugavert, því að það er öllum kunnugt, að árferðið í ár hefir verið mjög misjafnt, sem sje að því er sjávarútveginn snertir, og gengið mjög misjafnt yfir; allflestir hafa tapað á síldarútveginum, nokkrir staðið í stað, en mjög fáir hafa haft nokkurn arð. Jeg álít, að þetta sje svo mikilsvert atriði, að jeg mun ekki geta fylgt þessu frv., ef brtt. mín nær ekki fram að ganga, en hún fer í þá átt, að skattur samkvæmt lögum þessum verði fyrst innheimtur árið 1919, af tekjum manna fyrir árið 1917. Það er áreiðanlegt, að ef skattur verður innheimtur á næsta vori af tekjum manna fyrir árið 1916, þá verður tekinn skattur af tekjum, sem eru tapaðar, og miklu meira; það er, með öðrum orðum, að sumir hafa tapað miklu meiru en tekjurnar námu.

Loks skal jeg benda á það, að lög þessi hafa mikinn tekjuauka í för með sjer, þótt árinu 1916 yrði slept, en verði brtt. mín samþykt, verður því ári algerlega slept úr, en það er líka annað unnið við það, að stjórn og þing fær ef til vill tækifæri til að endurskoða lögin og lagfæra þá agnúa, sem á þeim eru, og ef aukaþing verður á næsta sumri, þá má leiðrjetta þessa agnúa, og þótt lögin sjeu þá ekki komin til fullra framkvæmda, þá verður þó farið að starfa eftir þeim, svo að vænta má, að agnúar á þeim verði þá að miklu leyti komnir í ljós, ef þeir er einhverjir.