12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

164. mál, tekjuskattur

Halldór Steinsson:

Af því að frsm. nefndarinnar (H. H.) er ekki viðstaddur, vildi jeg, sem einn nefndarmaður, lýsa afstöðu nefndarinnar til þessa máls og þeirra brtt., sem hjer liggja fyrir.

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 878, og þó að nafn mitt eitt standi undir þeirri brtt., hygg jeg þó, að mjer sje óhætt að segja, að hinir aðrir nefndarmenn sjeu mjer sammála. Sú brtt. fer fram á það, að lægsta upphæð, sem skattur greiðist af, sje eins og eftir lögunum frá 1877, þar sem farið er fram á það, að lægsta upphæð skuli vera 1000 kr. Eins og það er rjettlát stefna, að landbúnaður og sjávarútvegur skuli ekki vera undanþegnir skatti, frekar en aðrir atvinnuvegir, eins er það líka sjálfsagt, að sú upphæð, sem skattur greiðist af, skuli vera hin sama fyrir allar stjettir landsins. Jeg verð að segja það, þótt jeg yfirleitt hafi verið á móti skattafrv. og tolllögum á þessu þingi, að ef nokkurt tekjufrv. miðar í rjetta átt, þá sje það þetta. Hjer er farið fram á að taka tekjurnar þar, sem tekjur eru fyrir, en ekki jafnt af fátækum sem ríkum, eins og kemur fram í öllum hinum frv. Sem sagt, nefndin leggur til, að frv. sje samþykt orðrjett og óbreytt, nema þessi brtt., sem er á þgskj. 878.

Þá vil jeg lítillega snúa mjer að brtt. þeim, er hjer liggja fyrir. Skal jeg þá byrja á brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.).

Það er þá fyrst 1. brtt. hans, við 2. gr. frv. Hann vill halda því fram, sem nefndin leggur til að sje felt burt, að lægsta upphæð, sem skattur sje greiddur af, sje 2000 krónur, en sje fært úr 3. gr. í 2. gr. Það liggur í augum uppi, eins og jeg hefi áður tekið fram, að nefndin getur ekki verið með því.

Þá er 3. brtt., við 4. gr. Hana vill háttv. þm. (M. T.) fella niður. En þessi grein fer fram á það, stjórnendur banka og sparisjóða skuli skyldir til að láta skattanefndum upplýsingar í tje um inneign manna og annað þess háttar. Jeg sje ekki, að nein ástæða sje til þess að fella greinina niður, því að þótt menn skilji lögin frá 1877 svo, að þessi heimild sje fyrir hendi, þá er ekkert á móti því að láta þess getið, að ákvæðið nái til þessara manna, einmitt af því, að þessi ákvæði laganna frá 1877 hafa ekki verið notuð, þótt ef til vill megi skilja það svo, að það hefði átt að beita þeim.

Í 4. brtt. háttv. þm. (M. T.) er aðalkjarninn. Það er sú breyting, sem gerir það að verkum, að ef frv. verður samþykt þannig, verður það í alla staði óaðgengilegt. Hún fer fram á, að skatti af tekjum ársins 1916 sje slept. Jeg hygg, að háttv. þm. (M. T.) hafi ekki gert sjer það verulega ljóst, áður en hann kom með þessa brtt. að ef árinu 1916 er algerlega slept við allan skatt, þá væri betra að hafa aldrei komið með þetta frv. og láta lögin frá 1877 halda sjer, því að það veit háttv. þm. (M. T.), að skatturinn af árinu 1916 verður eins mikill og sennilega meiri en af árunum 1917 og 1918 til samans. Allir vita, hvernig árið 1917 hefir brugðist, og ef stríðið heldur áfram, þá er líklegt, að það gefi ekki miklar tekjur. Þess vegna er betra að fella frv. en að samþykkja það með þessari breytingu.

Þá er 6. brtt. háttv. þm. (M. T.), við 6. gr. frv. Hann vill fella niður orðin »og ganga ríkt eftir rjettu framtali«. Jeg skil ekki, hvað honum gengur til þess að láta ekki beita fylsta valdi, sem lögin heimila í þessu efni; jeg hygg, að ekki hafi verið fylgt svo skörulega fram framkvæmdum skattalaganna hingað til, að það veitti af því, að þetta ákvæði fengi að standa í lögunum. Og að síðustu fer háttv. þm. (M. T.) fram á það, að skattanefndum verði borgað fyrir starf sitt. Það er að vísu sanngjarnt, en, eins og mjer er kunnugt um, hefir þetta starf skattanefnda ekki verið svo yfirgripsmikið, að það sje ástæða til að vera að launa þeim, frekar en t. d. hreppsnefndum, sem vinna alt endurgjaldslaust.

Þetta eru helstu brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Þær eru svo vaxnar, að jeg vil miklu heldur, að frv. verði felt, heldur en að það verði samþykt með þeim, því að þær miða að eins til þess að svifta landssjóð þeim tekjum, sem hann annars myndi hafa, ef gömlu lögin fengju að halda sjer.

Þá er ein brtt. frá háttv. þm. Vestm. (K. E.). Verð jeg að segja, að það er ólíkt meira vit í henni. Hún fer ekki fram á að skilja undan árið 1916, en að skattur af því ári skuli greiðast eftir núgildandi lögum. Það er óhætt að segja, að það er meira vit í þeirri till, en hins vegar finst mjer, að ef á að fara að breyta frv. í þá átt, þá held jeg, að þær tekjur, sem frv. gefi landssjóði, verði svo litlar, að það verði varla þess vert að samþykkja frv.

Jeg gleymdi áðan að geta þess, að nefndin á brtt. á þgskj. 815, og stendur þannig á, að ef brtt. mín verður samþ., þá fellur 1. brtt. nefndarinnar; 2. brtt. er orðabreyting, og 3. brtt. er meinlítil, fer fram á, að 9. gr. frv. falli burt, vegna þess, að nefndin leit svo á, að hún væri óþörf.

Jeg skal svo ekki segja meira um þetta mál að svo stöddu.