12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

164. mál, tekjuskattur

Eggert Pálsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls, áleit nægilegt að greiða atkvæði með ýmsum brtt., sem fyrir liggja, en það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ísaf.

(M. T), sem kom mjer til að standa upp, það, að hann virtist gefa það í skyn, að frv. þetta ætti rót sína að rekja til bændastjettarinnar hjer á þingi; væri það fram komið af því, að þeir litu ofsjónum til sjávarmanna og kaupstaðarbúa. Þetta vildi jeg leiðrjetta. Fyrst og fremst má háttv. þm. (M. T.) vera það kunnugt, að frv. þetta er ekki fram komið frá bænda hendi, heldur frá öðrum. (M. T : 1. þm. Skagf. (M. G.) og þm. V.-Sk. (G. Sv.). Frv. þetta á upptök sín í fjárhagsnefnd Nd., og þar eiga ekki frekar sæti bændur en aðrir, og frá því sjónarmiði skoðað er það algerlega rangt að eigna bændum þetta frv. frekar en öðrum þm. Einnig er á það að líta, að þetta frv., þegar á það er litið í heild sinni, ber þess engan vott, að það ráðist á eina stjett fremur annari; mjer virðist, að allir standi jafnt að vígi í þessu frv., ekkert vera undanskilið, hvorki einstakir menn nje einstakar stjettir manna. Hitt er annað mál, þótt skatturinn komi til að hvíla þyngra á einni stjett en annari. Það liggur að eins í því, að hún ber meiri tekjur frá borði.

En þar sem háttv. þm. (M. T.) skaut því fram, að sjer þætti það mjög leitt, að rígur ætti sjer stað á milli landbúnaðarmanna og sjávarútvegsmanna, þá hygg jeg, að ef hann hefði mælt þetta af heilu brjósti, þá hefði hann síst átt að rísa svo öndverður upp gegn þessu frumvarpi, með því að hjer gætir ekki neins rígs í þessu frv., heldur gerir það öllum jafnt undir höfði. En að rísa upp með ákafa og ónotum til sveitamanna, út af þessum sanngjarna skatti, það getur orðið til þess að skapa eða glæða ríginn, ef hann er fyrir.

Hvað frv. snertir, þá er jeg þeirrar skoðunar, að það sje helsti seint fram borið, en það er með þetta eins og annað, að »betra er seint en aldrei«. Það er hörmulegt til þess að vita, að við höfum ekki sjeð við þessu áður en svona er komið. Jeg hygg, að flestar stjórnir hafi sjeð það ráð vænst að reyna að ná í, með hækkuðum tekjuskatti, eitthvað af þeim gróða, sem einstaklingarnir hafa haft á fyrstu árum stríðsins, en við höfum einir ekkert um það hirt. En þó að þetta hafi verið vanrækt hingað til, þá álít jeg ekki ástæðu til að draga það von og úr viti, svo að við getum loks alls ekkert fengið í landssjóðinn, er sannarlega þarfnast einhverra tekna, til jafnvægis þeim útgjöldum, er stríðið knýr hann til að inna af hendi. Þess vegna ber að greiða atkvæði þessu frv., þótt seint sje, til þess að ekki lendi alt í vandræðum. Og ekki er það helsta ráðið að vera að fleyga þetta frv. með næstum óskiljanlegum breytingum, eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir gert. Og ef þær brtt. verða samþyktar, þá er það sýnilegt, að frv. verður með öllu ónotanlegt.

En það er langt frá mjer að halda því fram, að það hafi verið tilgangur háttv. þm.

(M. T.). En jeg segi, að ef svo færi, að brtt. háttv. þm. (M. T.) verði samþyktar, þá yrði það málinu að falli.

Þess vegna verður hver sá maður, sem vill koma málinu í höfn, að greiða atkvæði með till. fjárhagsnefndar, og þar til heyrir brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.).

Það eitt getur bjargað málinu, að það eyðileggist ekki í höndum þingsins og verði því jafnvel til meiri minkunar en þótt engin tilraun hefði verið gerð í þessa átt, sem frv. fer.