12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

164. mál, tekjuskattur

Magnús Kristjánsson:

Það verður líklega með þetta mál eins og fleiri, að það verður til lítils fyrir þessa háttv. deild að reyna að koma fram með umbótatilraunir, því að mjer þykir líklegt, að það verði að engu haft og drepið í Nd.; við höfum sjeð svo mörg dæmi þess, að þótt margt hafi verið til bóta, sem hjer hefir verið gert, þá hefir það ekki orðið að liði, og býst jeg við, að eins verði með þetta.

Gallar á frv., eins og það kom frá Nd., stafa auðvitað af því sjerstaka ástandi, sem nú á sjer stað, og voru þeir ekki fullkomlega sjáanlegir þegar málið var fyrst til meðferðar. Þær erfiðu kringumstæður, sem hafa steðjað á sjávarútveginum, gera það algerlega óverjandi að ætlast til þess, að þessi lög verki aftur fyrir sig og nái til ársins 1816. Þetta verður maður fyrst af öllu að gera sjer ljóst. Jeg skyldi ekki hafa lagt eitt orð í móti þessu frv., ef svo hefði farið, að þeir menn, sem rekið hafa þennan atvinnuveg, hefðu grætt á honum, en þegar það ætti að vera hverjum manni ljóst, sem nokkurt reikningsvit hefir, að þeir hafa tapað miklu meiru síðan en þeir greiddu árið 1916, þá vona jeg, að það sje hverjum manni ljóst, að slíkt verður að taka til greina. Og það er ekki nóg með, að þeir hafi tapað á þessu ári, heldur liggur það svo fyrir, að það eru mestar líkur til þess, að þeir menn geti orðið fyrir stórtjóni á komandi ári. Það er ekki nóg með, að þessir menn hafa orðið að kaupa ógrynnin öll af vörum, sem þeir ætluðu að nota á þessu ári, en þeir verða að liggja með, af því að aflinn brást, verða að liggja með það til seinni ára, heldur er það nokkurn veginn gefinn hlutur, að verðfall á þessum vörutegundum getur bakað þeim stórtjón. Þessi yfirvofandi hætta rjettlætir það, að brtt. á þgskj. 884 eru komnar fram.

Það væri rjettast af þessari háttv. deild að breyta málinu í það horf, sem hún álítur rjettast, hvernig svo sem háttv. Nd. fer með það á eftir. Það virðist svo, að þeir menn, sem lítinn kunnugleika hafa á þessum atvinnurekstri, ímyndi sjer, að það sje svo afarmikill og ljetttekinn gróði á honum, en menn verða að gá að því, að þessi atvinnuvegur verður ekki rekinn nema með svo afarmiklu fje. Flestir menn, sem byrja að gera út botnvörpungar og mótorskip til síldveiða, verða að taka allan sinn höfuðstól að láni, og það gefur að skilja, að þessi gróði verður fyrst og fremst að ganga til þess að afborga þetta lánsfje. Ef svo slæm ár koma fyrir, áður en búið er að borga nokkuð verulegt af þessu lánsfje, hvað skeður þá? Það, að eignin, sem menn hafa keypt fyrir lánsfje, fellur í verði, svo að menn eru engu betur stæðir en þegar þeir byrjuðu.

Jeg vona, að allir geti skilið það, að þeir menn, sem nú, þessi síðustu ár, hafa lagt í stórfenglegan kostnað til atvinnurekstrar, muni að minsta kosti ekki vera betur staddir en þegar þeir byrjuðu á honum, sem þeir gerðu sjer von um góðan arð af. Þá get jeg ekki sjeð, að það nái neinni átt, þótt lítilfjörlegur gróði hafi orðið fyrri árin, ef tap hefir aftur orðið seinni árin, að láta þessi lög koma til að verka aftur fyrir sig. En það má segja, að till. háttv. þm. Vestm. (K. E.) geti bætt úr þessu, ef hún yrði samþ., og verð jeg að segja fyrir mitt leyti, að eins og nú er ástatt þá er mjer næst skapi að gefa henni atkv. mitt.

Þá miða einnig brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) til bóta. Svo er t. d. um 1. brtt., við 2. gr. Hana tel jeg sjálfsagt að samþykkja, svo og brtt. við 3. gr., sem er sama eðlis og brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.) á þgskj. 878. Jeg tel það skifta minstu máli, hvor þeirra er samþ. Deila má um 4. og 5. brtt., hvort þær eru aðgengilegri en frumvarpsgreinarnar sjálfar. En annars eru ýms ákvæði í brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) til verulegra bóta. Háttv. þm. Snæf. (H. St.) þótti óþörf 6. brtt., en svo er ekki, því að með henni er komið í veg fyrir óþarfa upptuggu í frv.

Jeg tel svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta mikið, en vona, að háttv. þingdm. skilji, hver mín skoðun er. Hún er í fáum orðum þessi. Það hefði verið verjandi að samþ. þetta frv., ef þessi sjerstaka óáran hefði ekki komið fyrir, sem veldur því, að lögin hljóta að koma afarþungt niður á þeim, sem ætlast er til, að þau nái sjerstaklega til. Ef háttv. þingdm. gera sjer þetta ljóst, þá er óhjákvæmilegt fyrir þá að samþ. annaðhvort brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) eða brtt. háttv. þm. Vestm. (K. E.). Þeir geta valið, hvorar þeir fella sig betur við. Viðvíkjandi ummælum háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefi jeg það að segja, að jeg hygg þau stafa af því, að hann hafi ekki kynt sjer málið nógu rækilega. Jeg hefi aldrei þekt hann að því að vilja beita ósanngirni, en það gerir hann, ef hann samþ. frv. óbreytt. Og jeg er þess fullviss, að hann sjer eftir því síðar, við nánari athugun, því að þó að frv. verði breytt talsvert, þá geta lögin haft sitt gildi, þegar þetta ástand er hjá liðið. Mikil von er til þess, að talsvert verði farið að rætast úr 1918, og enn meiri von 1919. En ef frv. yrði nú samþ. óbreytt, þá væri það þinginu til vansæmdar, því að það gerði sig þá sekt í óverjandi rangsleitni.