12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

164. mál, tekjuskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi í raun og veru gert grein fyrir afstöðu minni til málsins við 2. umr., og get því verið stuttorður í þetta sinn.

Jeg skal játa það, að erfitt er að finna tekjustofn, sem allir eru ánægðir með. Og jeg skal enn fremur játa það, að jeg hefi ávalt verið mótfallinn skatti á atvinnuvegina sjálfa, sjerstaklega landbúnaðinn og sjávarútveginn, því að það getur orðið til þess að draga úr framleiðslunni. Þetta hefi jeg oft sagt áður hjer í þinginu. En það er einn tekjustofn, sem jeg hefi ávalt haldið fram að væri rjettlátur, og það löngu áður en jeg tók við embætti því, sem nú gegni jeg. Mjer hefir ávalt fundist sjálfsagt að leita teknanna hjá þeim mönnum, sem hafa borið eitthvað verulega úr býtum eða grætt mikið. Jeg fæ ekki sjeð, að fundinn verði neinn rjettlátari tekjustofn en þessi. Um þá mótbáru, að hjer sje lagður sjerstaklega skattur á kaupstaðina, er það að segja, að hún fær ekki með nokkru móti staðist. Því að eftir frv. á að taka skattinn af mönnum, hvort sem þeir hafa stundað sjávarútveg, landbúnað eða eitthvað annað. Og aðgætandi er það, að í kaupstöðum eru einmitt flestir þeirra manna, sem alveg mundu sleppa við skattinn. Þar eru flestir verkamennirnir og efnalitlir menn, sem vitanlega mundu sleppa algerlega. Það er því harla einkennilegt að vitna í kaupstaðina og fátæklingana þar, til þess að velta þessu frv. Og skoðun mín er sú, að ef þetta væri borið undir kaupstaðarbúa, þá hygg jeg, að stórkostlegur meiri hluti þeirra væri sammála um, að rjett sje að leggja helst skatta á þá, sem mestan gróða hafa borið úr býtum. Enda er sannleikurinn sá, að með öllum þjóðum um allan heim er nú leitast við að ná tekjunum hjá þeim, sem stórgróðamenn eru. Jeg er því ekki í minsta vafa um, að grundvöllur frv. er alveg rjettur. Hitt skil jeg vel, að stórgróðamennirnir sjálfir vilji gjarnan komast hjá því að greiða þetta af hendi. Það er í sjálfu sjer ekki nema mannlegt.

Sú sjerstaka ástæða hefir verið færð á móti frv., að árið 1917 hafi verið svo erfitt fyrir atvinnuvegina, að menn sjeu þess vegna ekki færir um að gjalda þennan tekjuskatt. Jeg skal ekki neita því, að nokkuð er hæft í þessu, en þó hygg jeg, að árið 1916 hafi mjólkað svo vel að hjer sjeu nú orðnir margir rótgrónir gróðamenn, sem eru fastir fyrir, þótt eitthvað á bjáti. Og ekkert virðist eðlilegra en að leggja á þá skatt. En jeg furða mig stórlega á því, að jafnvitur maður og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) skuli koma með brtt. um að sleppa skattinum frá tekjumesta árinu, sem nokkru sinni hefir yfir þetta land gengið.

Jeg verð að kannast við það, að ekki er óhugsandi, að einstaka maður geti orðið nokkuð hart úti, ef þetta frv. verður að lögum. En svo er í rauninni um allar skattaálögur. Það er ómögulegt að synda fyrir öll sker í þessu efni, en þó dettur engum manni í hug, að fyrir þá sök eigi að afnema alla skatta.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) bar fram þá ástæðu í þessu sambandi, að þetta frv. gæti orðið til þess að ala á atvinnuríg milli sveita og kaupstaða. Jeg get ekki með nokkru móti fallist á, að þetta sje rjett. Eins og frv. ber með sjer nær það til allra landsmanna, sveitamanna sem annara. Hins vegar vil jeg leyfa mjer að benda á, að nú er hjer í deildinni frv. á ferðinni um að selja mönnum kol undir ákvæðisverði, og er búist við, að það komi kaupstöðunum sjerstaklega að gagni. Jeg get lýst yfir því strax, að jeg er því máli fylgjandi. Er það hvorttveggja, að þetta er nauðsynjamál mikið, og hins vegar er ótækt, að sífelt sje haldið á metaskálunum og vegið, hvort þessi og þessi ráðstöfun komi einum landshlutanum meir að gagni en öðrum. Jeg er hræddur um, að kaupstaðarbúar muni margir eiga erfitt uppdráttar í vetur, og er sjálfsagt að hlaupa að einhverju leyti undir bagga með þeim. Og það verð jeg að segja, að jeg skil betur, ef haldnir væru borgarafundir í þessum bæ til þess að krefjast eldiviðar eða til þess að ráða fram úr húsnæðisleysinu, heldur en til þess að mótmæla því, að slíkar varúðarráðstafanir verði gerðar eins og t. d. að fresta skólahaldinu um tíma.

Eins og menn munu nú skilja af því, sem jeg hefi tekið fram, þá mun jeg greiða atkv. á móti 4. og 5. brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.) á þgskj. 884. Að því er snertir brtt. við 2. gr., þá sje jeg mjer ekki heldur fært að samþykkja hana, enda mundi það rýra tekjurnar talsvert, ef hún næði fram að ganga. Sama er að segja um 2. brtt., því að þó að ef til vill sje ástæða til endurskoðunarinnar, þá er það naumast hægt nú. Þá er 3. brtt., við 4. gr., um að fella það burt, að bankar og sparisjóðir sjeu skyldir til að gefa upp innieignir manna. Jeg verð einnig að vera á móti þessari brtt. Mjer vitanlega er þetta víða gert í nágrannalöndunum. Svo er t. d. í Danmörku. En ef þessu ákvæði væri slept, þá er hætt við, að tekjur kæmust undan, sem rjettmætt væri að skattur greiddist af.

Að lokum vil jeg minna á, að nú eru ekki nema örfáir dagar eftir af þinginu, og er hætt við, að frv. nái alls ekki fram að ganga, ef gerðar eru verulegar breytingar á því hjer í þessari háttv. deild. En ef frv. nær ekki fram að ganga, þá verður ekki sagt, að tekjuaukarnir sjeu miklir, sem þetta þing samþykkir, en hætt er við, að útgjaldaliðirnir reynist drjúgir. Loks skal jeg lýsa yfir því, að jeg greiði atkv. á móti brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.) en með brtt. nefndarinnar. Vona jeg, að hv. deild lofi frv. að ganga fram og felli þær brtt, sem gera það gagnslaust.