14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Jónsson:

Þegar svo er orðið áliðið þingtímans og dagsins sem nú, verða menn að takmarka ræðutíma sinn. Það, sem vakti fyrir mjer með því að biðja mjer hljóðs, var það, að jeg vildi leyfa mjer að mæla með 2 brtt., sem jeg hefi komið með. Jeg áleit, að eitthvað yrði að reyna að spara í þessum fjárlögum, því að jeg sje, að útgjöldin hafa hækkað töluvert í háttv. Ed. Jeg leit því eftir, þegar fjárlögin komu þaðan, hvaða liði væri tiltækilegast að nema burt eða lækka, og lenti þá á 2, sem jeg hef gert brtt. við, og geta þær brtt. sparað landinu 11,300 kr., ef þær verða samþyktar. Jeg bjóst við, að það myndi verða vandkvæðum bundið að lækka, þótt sýnilega væri hægt að gera það.

Fyrri brtt. er við 16. gr. 21, og er um að lækka laun fulltrúa Fiskifjelagsins úr 12,000 kr. niður í 8,000 kr. Jeg batt mig við þá ástæðu, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar voru honum ekki ætlaðar nema 4,000 kr., og jeg áleit það einkennilegan mismun, sem yrði á þeim lið, ef hann væri hækkaður upp í 12,000 kr. Það getur enginn álitið, að það sjeu eintómir heimskingjar bæði í stjórninni og í Nd., sem ljet þá upphæð standa, en háttv. Ed. hefir samt hækkað þennan lið um 8000 kr. Það hefir stundum verið sagt um þessa háttv. deild, að það væri óhætt að láta alt glannast í gegn hjer, því að háttv. Ed. drægi úr því aftur, en nú hefir farið á annan veg. Samt sem áður hefi jeg fengið upplýsingar um það, að rjett muni að veita Fiskifjelaginu þessa upphæð, og þess vegna ætla jeg ekki að halda þessari brtt. minni til streitu, og hefði enda tekið hana aftur, ef háttv. þm. Dala. (B. J.) hefði ekki óskað þess. Það er eingöngu vegna þess, að jeg tek hana ekki aftur, því að annars hefði jeg gert það. (B. J.: Hahahahahæ). Það er ekki af neinni óvináttu við háttv. þingm. Dala. (B. J.), heldur af því, að hann þykist altaf hafa húsbóndavald yfir mjer, en jeg ætla að sýna honum nú í kvöld, að svo er ekki.

Hin till. er út af fjárveitingu til hafnargerðar Vestmannaeyja. Háttv. þm. Vestm.

(K. E.) hefir minst á þessa brtt. við mig og áleit, að jeg væri illviljaður Vestmannaeyingum, en svo er alls ekki. Jeg kom með þessa brtt. blátt áfram af því, að jeg álít, að landssjóð beri engin skylda til að greiða þessar 3,300 kr., sem farið hefir verið fram á, enda þótt rannsóknin hafi kostað það meira en áætlað var. Jeg skal geta þess, að í Vestmannaeyjum hafa verið gerðar rannsóknir til að vita, hvort ekki mætti bæta höfnina þar, og síðan hefir verið unnið að því, en alt farið jafnóðum í sjóinn. Þess vegna hygg jeg, að varlega sje í það farandi að ausa fje í þetta alveg óbotnandi díki. En aðallega kom jeg með þessa brtt. af því, að jeg þóttist vita, að stjórninni væri kunnugt um, hvernig til hagaði þarna, og hefði því ekki tekið þennan lið inn í frv. Auk þess finst mjer, að Vestmannaeyingar sjálfir eigi að bera ábyrgðina á þessu, því að hygnir menn þar hefðu átt að sjá, að engin tiltök voru á að gera þar höfn. Mönnum gæti eins dottið í hug að gera höfn úti við Eldey eða úti við Dranga eins og í Vestmannaeyjum, sem er klettur út í sjálfu Atlantshafi, og sjórinn er þar svo sterkur, að það getur sjálfsagt ekkert mannlegt afl ráðið við hann, þar sem hann skellur þar á klettana. Það skyldu þá helst vera einhver öfl, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) einum er kunnugt um. Hjer er um það að ræða, hvort landssjóður eða hafnarsjóður Vestmannaeyja á að bera þann halla, sem orðinn er, og jeg hygg, að úr því að rannsókn á þessu byrjaði 1911 og kostaði þá 4,000 kr., þá hefðu Vestmannaeyingar ekki átt að halda áfram og kosta 3,300 kr. meira til, og mig furðar líka á því, að það skuli vera beðið með að koma með þetta fyrir þingið þangað til 1917. Jeg ætla nú samt eftir þær upplýsingar, sem jeg hefi fengið, að taka þessa brtt. aftur, en hina ekki vegna hv. þm. Dala. (B. J.). (H. K.: Jeg held, að jeg verði að taka hana upp aftur, af því að háttv. þm. (E. J.) er búinn að lýsa svo vel rjettmæti hennar).

Þá ætla jeg að minnast nokkrum orðum á þörungana, sem dr. Helgi, bróðir háttv. þm. Dala. (B. J), á að rannsaka. (B. J.: Og þönglana). Það er dálítið einkennilegt, að háttv. þm. Dala. (B. J.) skyldi fara að tala um þennan lið eins og áður, því að hann talaði af svo miklum ókunnugleik, að hann áleit marhálm skepnufóður. Jeg er að vísu ekki mikið kunnugur við sjó, en jeg veit þó, að skepnur borða ekki mikið af marhálmi. (H. K.: Marhálmur er ágætt skepnufóður). Jeg held ekki. (H. K: Jú, það er víst satt). Það er þá öðruvísi á Barðaströndinni en á Eyrarbakka, því að þar er marhálmurinn notaður í heydýnur, en ekki til fóðurs. Við skulum þá annars slá því frá okkur, en ekki hinu, að þegar háttv. þm. Dala. (B. J.) talar um þörungana og bróður sinn, þá fullyrðir hann, að ekkert gagn sje í því að veita honum þennan styrk ekki nema annað árið, heldur verði að veita honum hann bæði árin, en jeg álít, að ef þessar rannsóknir eru til nokkurs gagns, þá geti það komið að gagni að veita styrkinn bara fyrra árið. (B. J.: En marhálmurinn?) Þingsveinar! Viljið þið ekki taka háttv. þm. Dala.

(B. J.) og leiða hann í sæti sitt.