12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

164. mál, tekjuskattur

Magnús Torfason:

Jeg þykist neyddur til að víkja nokkrum orðum til þeirra háttv. þm., er hafa verið að rjetta ýmislegt góðgæti til mín.

Um brtt. háttv. þm. Vestm. (K. E.) skal jeg taka það fram, að jeg get verið henni samþ. fyrir mitt leyti, þar sem hún fer í sömu átt sem aðalbrtt. mínar. En vitanlega snertir hún að eins 1. málsgr. 4. brtt. minnar og 5. brtt. mína. Hinum brtt. kemur hún ekki við.

Síðari liður 4. brtt. minnar fer fram á að gefa skattanefndum rýmra vald til að ganga eftir skattaskýrslum. Ættu því allir háttv. þm. að geta sjeð, að jeg er ekki mótfallinn því, að þessi skattalög komist á. Með þessari brtt. og 6. brtt. minni hefi jeg viljað koma því til leiðar, að skatturinn yrði sem rjettast innheimtur. Hingað til hefir skatturinn verið miðaður við framtal, en samkvæmt brtt. verður það ekki gert.

Það er ekki í fyrsta skifti, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) bregður mjer um það, að jeg beri fram mál af litlu viti. Jeg skal fúslega kannast við það, er jeg ber mín lítilfjörlegu störf hjer á þingi saman við hans miklu störf, og einkum við hans einstaklega mikla fjárhagsvit, er hann hefir sýnt í störfum sínum í fjárhagsnefnd. Það er síður en svo, að jeg hafi verið að átelja háttv. fjárhagsnefnd. Formaður nefndarinnar (H. H.) hefir verið lasinn mikinn hluta sumars, og sjúkleiki hans ágerðist, er nefndin átti að fara að íhuga þetta mál. Jeg er sannfærður um, að hefði hann verið heill heilsu og athugað málið rækilega, hefði hann aldrei gefið þessu frv. atkvæði sitt, enda hafa orð hans við mig fallið í þá átt, að frv. væri allathugavert.

Jeg varð annars dálítið hlessa, er jeg heyrði framsöguræðu háttv. þm. Snæf. (H. St.). Hún hljóðaði sem sje á þessa leið: Jeg vil skera allar brtt. niður við trog; jeg hefi sýnt það, að jeg einn hefi fult vit á þessu máli, en enginn annar. Ber hann auðvitað einn ábyrgð á þessum ummælum, því að hinn nefndarmaðurinn er nýkosinn í nefndina og hefir engan tíma haft til að athuga málið.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) færði engin rök fyrir sínu máli; vildi að eins vera á móti öllum brtt. Og það litla, sem hann sagði, sannfærir mig um það, að hann botnar alls ekkert í málinu. Það kemur berlega fram, er hann segir, að með brtt. mínum vilji jeg spilla frv. og koma því fyrir kattarnef. 4. brtt. 2. málsgr. skýrir einmitt betur þau ákvæði, er í frv. eru óljós, að skattanefndir skuli hafa rýmra vald en áður. Og 6. brtt. leiðir beinlínis af 4. brtt. En hv. þm. Snæf. (H. St.) hefir sýnilega ekki komið auga á þetta. Lítur helst út fyrir, að hann hafi ekki haft tíma til að athuga málið eins vel og rjett og vert hefði verið.

Um 3. brtt. mína á þgþkj. 884, að 4. gr. falli burt, skal jeg taka það fram, að svo vel vill til, að háttv. fjárhagsnefnd lítur svo á, að greinin sje óþörf. En ef 4. brtt. mín yrði samþ., yrði hún enn óþarfari. Sú brtt. fer fram á að gefa skattanefndum ríkara vald, og þurfa þær þá ekki að grenslast eftir innieignum manna í bönkum og sparisjóðum. Enda hefir háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) tekið það fram, að ákvæði greinarinnar væru gagnslítil og mjög varhugaverð fyrir þær stofnanir.

Þá vildi háttv. þm. Snæf. (H. St) halda því fram, að tillögur mínar yrðu til þess að svifta landssjóð tekjum. Háttv. þm. (H. St.) virðist ekki hafa komið auga á, að frv. á að gilda fyrir 2 ár. Næsta ár getur verið gott og gefið drjúgan skatt. Og jeg er sannfærður um, að nái brtt. mínar fram að ganga, mun skatturinn verða mun drýgri eftir þessum lögum heldur en eftir gömlu tekjuskattslögunum, og það jafnvel í þessu neyðarári, og er þá vel að verið.

Brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.) fer aftur á móti fram á að auka ranglæti í landinu. Því hefir ekki verið og verður ekki mótmælt, að 2000 kr. eru nú ekki betri en 1000 kr. þegar gömlu lögin voru samin árið 1877. Hans brtt. fer fram á að færa lágmarkið aftur niður í 1000 fyrir alla, svo sem er í núgildandi lögum.

Jeg skil vel, hvað knúð hefir háttv. þm. (H. St.) til þessa. Hingað til hefir hann gert lítið til að afla landinu tekna, og vill hann því nú fara sem lengst, hvað sem setur.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hjelt því fram, að skatturinn kæmi jafnt niður á bændum sem öðrum. Það hefir þó verið játað af sumum fulltrúum bænda hjer á þingi, að enginn verulegur skattur falli á þá stjett samkvæmt lögum þessum. Enda eru dæmin deginum ljósari. Hagstofan hefir safnað skýrslum um tekjur bænda. Að eins örfáir töldu fram meiri tekjur en 1000 kr., en í frv. er þó lágmarkið fyrir þá 2000 kr. Er því óhætt að fullyrða, að skattur þessi kæmi ekki nema að mjög litlu leyti niður á bændum. Skattur þessi myndi því nær eingöngu koma niður á sjávarútvegsmönnum og kaupstaðarbúum, og yrði því enn rjettnefndari þorparaskattur en verðhækkunartollurinn, er sjávarmenn greiddu 94% af.

Þá talaði háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) um það, að jeg væri að vekja ríg milli stjetta. Þessum ummælum verð jeg að vísa á bug, nema að svo verði litið á, að sjávarmenn ættu að taka þegjandi á móti öllum þeim sköttum, sem bændum dettur í hug að demba yfir þá. Jeg hefi aldrei sjeð hrottalegri tilraun til þess að vekja ríg milli stjetta í landinu heldur en einmitt þetta frv. Hjer er verið að sletta blautum sjóvetling framan í þá, er sjávarútveg stunda. Og þetta er alls ekki fyrsta tilraunin. En bændafulltrúarnir skrækja hástöfum út af þeim litla verðhækkunartolli af ull, sem kaupmenn kveðast þó ekki vita af. Mönnum mun minnisstætt frv., sem þeir fluttu í sumar um að afnema þann toll. (E. P.: Hverjir skrækja nú hæst?) Við höfum alls ekki skrækt. (E. P.: Jú).

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) kvað frv. fram komið til að bæta fyrir gamlar syndir. Já, það er þetta alkunna: Grísir gjalda, gömul svín valda. Það hefði verið rjett að bera þetta frv. fram 1915. En þingið ætti nú ekki að láta sjer sæma að leggja skatt á tjón manna.

Jeg hugði, að við hefðum dæmin fyrir oss, hve óvarlegt er að sletta fram frv., er breyta sköttum og tollum, þegar komið er að þinglokum og alt lendir í fumi. Við megum muna eftir síldarfrv., sem kom fram á þinginu í vetur, og okkur tókst með herkjum að drepa. Hvernig mundu þau lög líta út nú? Jeg býst við, að allir muni þeim þakklátir, er afstýrðu því frumhlaupi. Jeg vil að lokum beina þeim orðum að háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), er hann talaði í sameinuðu þingi í dag: Hingað og ekki lengra.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kvað frv. leggja skatt á rótgróna stórgróðamenn. Jeg hygg, að þeir sjeu ekki svo ýkjamargir, er kalla megi rótgróna stórgróðamenn meðal þeirra manna, er tekjur hafa af sjávarútveg. Það munu vera þeir einir, er lengi áður hafa stundað kaupskap. En þetta frv. tekur engan skatt af þeim gróða.

Þegar menn eru að ræða um frv. þetta, lítur svo út, sem þeir hafi ekki gert sjer ljósa grein fyrir, um hve gífurlegar álögur er að ræða. Jeg heyri sagt, að botnvörpungafjelag eitt hafi grætt í fyrra um 200 þús. kr. Þetta er álitlegur gróði, og ekki síst þegar þess er gætt, að þetta er eitt af yngstu fjelögunum, og komst fyrst þá fyllilega á rjettan kjöl. Skatturinn, sem fjelagið ætti að greiða samkv. frv., myndi nema um 27,820 kr. Og er það dálaglegur ábætir á stórtjón fjelags þessa þetta árið. Jeg vil taka dæmi af hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sjálfum, eins og hann gerði við síðustu umræðu, og hygg jeg, að honum mundi þykja það koma illa út. Hefði hann verið áfram í bæjarfógetaembættinu og haft 10—12 þús. kr. tekjur 1917, en tapað t. d. 16,000 kr. árið 1918, þá hygg jeg, að honum þætti hart aðgöngu, ef svo ætti eftir á að auka þetta 4—6000 kr. tap um alt að 1000 kr., sem skatturinn myndi nema.

Jeg vil þá minnast lítið eitt á fátækrahjálpina, kolin, sem háttv. bjargráðanefnd vill selja undir verði. (Fjármálaráðherra, S. E.: Það er ekki fátækrahjálp.) Jú, það getur ekki kallast annað. Jeg hygg, að þeir ungu og framtakssömu menn, er grætt hafa stórfje á sjávarútgerð, en tapað svo aftur því, sem gróðanum nemur, eða meiru, myndu ekki verða þeirrar hjálpar aðnjótandi, en jeg veit, að á þá muni klínt eins háu útsvari og hægt er. Á Ísafirði voru útsvörin hækkuð stórkostlega í fyrra. Þau hlupu upp úr 28,000 kr. í 46,000. En jeg veit, að þau verður að hækka enn meir, að minsta kosti um þriðjung; ella þarf bærinn að taka stórlán. Jeg hygg yfirleitt, að kaupstaðirnir hafi fulla þörf fyrir alt það fje, er þeir geta tekið af stórgróðamönnum, og menn mega vera þess fullvissir, að þeir verða ekki látnir ganga undan. Háttv. þm. Ak. (M. K.) kvað þetta, sem frv. fer fram á, vera óverjandi rangsleitni. Það er rjettnefni. Hjer er verið að fara aftan að mönnum, en það mátti með engu móti gera gagnvart háttv. brennivínssölum hjerna um árið. Þessari rangsleitni hefir ekki verið mælt bót, og ekkert hefir enn fram komið, er hafi hrakið það, er jeg hefi sagt. Það, sem frv. fer fram á, er í raun og veru það að kutla kið fyrir kálf.