12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

164. mál, tekjuskattur

Halldór Steinsson:

Mjer finst ekki taka því að lengja umræðurnar frekar, og síst með því að elta ólar við háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Jeg hygg, að hann ætti að taka málið með meiri stillingu og vera ekki eins æstur og hann var.

Háttv. þm. (M. T.) byrjaði á því að gera lítið úr störfum fjárhagsnefndar þessarar háttv. deildar, en að sama skapi mikið úr sínum eigin störfum. En sæmra væri honum að minnast ekki á slíkt, þar sem mönnum er kunnugt um afdrif flestra þeirra mála, er hann hefir helst borið fyrir brjósti.

Hv. þm. (M. T.) skýrði frá því, að formaður fjárhagsnefndar (H. H.) hefði lengi verið sjúkur og lítið sint nefndarstörfum og væri nú fjarverandi. En hann hafi skýrt sjer frá, að hann væri á öðru máli en nefndin í þessu máli. Jeg get þvert á móti lýst yfir því, að formaðurinn er okkur hinum nefndarmönnum fyllilega samdóma í þessu máli. En það er engin ný bóla, þótt háttv. þm. Ísaf. (M. T.) tileinki fjarverandi og látnum mönnum hitt og þetta. Það hefir komið fram áður og mun öllum minnisstætt.

Háttv. þm. (M. T.) hjelt því fram, að jeg myndi hafa misskilið brtt. sínar, er jeg sagði, að þær miðuðu að því að svifta landið tekjum. Jeg hygg, að auðvelt muni að færa þessum orðum stað. Það er sem sje víst, að tekjur af árinu 1916 myndu verða eins miklar og samanlagðar tekjur af árunum 1917 og 1918. Allir vita, hvernig árið 1917 hefir brugðist, og ef stríðið heldur áfram, þarf maður ekki að gera sjer háar vonir um árið 1918.

Háttv. þm. (M. T.) blandaði síldarfrv. inn í þetta mál og spurði, hvað menn myndu nú segja, hefði það frv. orðið að lögum. Jeg fæ ekki sjeð, að það hefði getað skaðað neinn landsmanna. Tollurinn átti að eins að koma niður á útlendingum, því að Íslendingum átti að bæta hann upp. (M. T.: Það var felt.) Þau frv. áttu bæði að fylgjast að. Og sökum þess, að annað frv. var drepið, þá var hitt að sjálfsögðu látið falla úr sögunni um leið. Þar við bætist, að engir útlendingar hafa stundað síldveiðar í ár, og hefðu þá þau lög hvorki getað skaðað þá eða aðra.

Jeg skal svo ekki eltast lengur við háttv. þm. Ísaf. (M. T). Get jeg með jafnmiklum rjetti sagt, að hans rök fyrir brtt. sínum sjeu miklu verri og lítilvægari en mínar ástæður gegn þeim. Jeg hefi ekki heldur neinu að svara öðrum háttv. þm., þar sem þeir hafa ekki sjerstaklega beinst að gerðum nefndarinnar og margir þeirra tekið fram, að þeir myndu greiða brtt. hennar atkv.