12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

164. mál, tekjuskattur

Fjármálaráðherra (S. E):

Mjer þykir leitt, að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) skuli leggjast svo hart á móti frv. Ef menn gengju inn á þær hugleiðingar hans, að ekki mætti koma við þá, er hafa grætt stórkostlega 1916, á hvern ætti þá að leggja skatt? Ætti fremur að leggja hann á daglaunamenn? Eða þá embættismenn, er allra manna harðast hafa orðið úti vegna dýrtíðarinnar? Ef ekki má leggja á þá, sem grætt hafa stórum 1916, og þeir eru margir, sem betur fer, og ef á að hlífa þeim alveg, þá er mjer óskiljanlegt, hvaðan háttv. þm. (M. T.) ætlar að fá skattinn. Jeg er sannfærður um, að almenningur í kaupstöðunum er okkur sammála, sem teljum rjett að leggja mest á þá, er mest hafa grætt, og er því til lítils að vitna til þeirra.

Jeg get yfirleitt ekki skilið það, hvernig nokkur maður getur verið í vafa um það, að rjett sje að leggja skattaálögur svo á, að þær korni mest niður á þeim, er mestar tekjur hafa. Og þótt eitthvert fjelag, er hefir 200 þús. kr. tekjur, verði að greiða 15% af því, þá ofbýður mjer það alls ekki. Hvað mega ekki aðrar þjóðir nú greiða af ófriðargróða sínum?

Þá finst mjer það ekki vera rjett, eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að það væri fátækrahjálp að selja kol undir verði; það er gert til að draga úr hinu óhæfilega verði á kolunum, og má skoða það sem ráðstöfun til þess, að alþýða manna haldi lífi og heilsu. Með því vil jeg mæla.

Jeg vil svo mælast til, að frv. þetta nái fram að ganga með brtt. fjárhagsnefndar.