14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Stefán Stefánsson:

Við erum tveir flutnm. að þremur brtt. á þgskj. 916. Fyrstu tvær tillögurnar ætla jeg sjerstaklega að skýra dálítið, gagnvart póstafgreiðslumanninum á Siglufirði. Hann hafði sent erindi til landsstjórnarinnar með ósk um hækkun á launum sínum og líka hækkun á húsaleigustyrk. Áður hefir hann haft 800 kr. í laun og 150 kr. í húsaleigustyrk. Í brjefinu til stjórnarinnar er lýst nákvæmlega starfi því, sem hann hefir með höndum, og sömuleiðis því, hve miklir peningar ganga í gegnum höndur hans, eða, með öðrum orðum, hann lýsir störfunum, sem hann verður að inna af hendi, og ábyrgðinni, sem á honum hvílir. Eftir þessu brjefi er það sjáanlegt, að borgunin, sem maðurinn fær, samsvarar ekki líkt því fyrirhöfn hans og ábyrgð.

Í brjefinu stendur, að á árinu 1916

hafi verið afgreiddar ávísanir upp á: kr. 215,427,00

302 verðböggiar kr. — 32,351,00

579 peningabrjef á. — 254,943,00

Alls kr. 502,721,00

Enn fremur 659 ábyrgðarbrjef, sem ekki eru reiknuð til verðs. Póstafgreiðslumaðurinn kemst þannig að orði: »Þetta virðist mjer vera nokkuð stórfengleg ábyrgð á manni með að eins 800 kr. launum, því margoft þarf maður hjálpar með að sumrinu, og þá er kaupgjald svo gífurlegt, að því trúir enginn, sem ekki þekkir til hjer, alt að 1 kr. og 50 aur. á tímann.«

Það er því auðsjeð, þar sem hann dag eftir dag þarf á hjálparmanni að halda að sumrinu til, hve langt þessi laun hrökkva til þess að borga manni, og til þess að hann hafi hæfilega þóknun fyrir fyrirhöfn sína. Auk þessa er þess að gæta, að hann er bláfátækur fjölskyldumaður, og hefir ráðist í að byggja stórt hús, til að geta haft póstafgreiðslu og símastöð. Hann hefir því ekki einungis bygt fyrir sig, heldur líka fyrir tvær opinberar stofnanir, og hvíla því á honum stórskuldir. Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu hefir sent meðmæli með því, að hann fái hærri laun og líka hærri húsaleigustyrk. Hann getur þess einnig, að póststofan, sem notuð hafi verið, sje nú orðin ófullnægjandi fyrir allar þær póstsendingar og alla þá afgreiðslu, sem þar fer fram árlega; og í brjefi sínu tekur póstafgreiðslumaðurinn það skýrt fram, að fyrir stofu þá, sem hann nú fær 150 kr. í leigu fyrir frá landssjóði, hafi sjer boðist 1000 kr. frá öðrum, árið sem leið, og það fyrir utan ljós, hita og ræstingu. Það er því fyllilega sanngjarnt, að hann fái viðbót við húsaleigustyrkinn, auk þess sem honum ber að fá uppbót á sínum eigin launum. Nú leggjum við til, að laun hans verði hækkuð um 500 kr., auk þess, er fjárveitinganefnd ræður til, en eftir tillögum háttv. fjárveitinganefndar á hann að fá 1000 kr., eða 200 kr. hækkun frá því sem nú er. Í brjefinu fer hann fram á 2500 kr. laun. Þá fyrst telur hann sjer viðunanlega borgað, svo að hann geti fengið sjer þá hjálp, sem hann þarf á að halda. Þarna munar þá 1000 kr. frá því, sem hann fer fram á. Við húsaleigustyrkinn förum við fram á 300 kr. viðbót. Öll fjárveitingin, sem við flutnm. förum fram á, nemur því 800 kr. Jeg vildi því mega vænta þess, að tillögurnar yrðu báðar samþyktar. Jeg vil ekki tefja tímann með því að lesa upp brjef sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu um þetta erindi, en það lýsir vel, hvernig ástatt er að þessu leyti. Sjerstaklega er lögð áhersla á það, að húsnæði það, sem notað hefir verið, sje með öllu ófullnægjandi, og enn fremur bent á, að launin sjeu óforsvaranleg fyrir mann með svo miklum störfum og svo stórri ábyrgð.

Jeg skal geta þess, að við höfum ekki sett það sem athugasemd með fjárveitingunni, hvert hún eigi að ganga, en álitum, að nægja mundi að taka það fram í framsögunni, og vænti jeg þess, að enginn verði í vafa um, hvernig á fjárveitingunni stendur, nái hún samþykki, þótt hún standi ekki sem sjerstakur liður í fjárlögunum, heldur inni í þeirri upphæð, sem ætluð er til að launa póstafgreiðslumönnum á stærri póststöðvum utan Reykjavíkur; að eins þessa eins að gæta, að í upphæðinni eru þá 500 kr. sem persónuleg launauppbót til póstafgreiðslumannsins á Siglufirði, sem þá fær alls að launum árlega 1500 kr. Svo tel jeg ekki þurfa að lýsa þessu nánar. Jeg vona, að mönnum skiljist, að það er af fylstu nauðsyn, sem þetta er flutt.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að 3. brtt., sem er smávægileg fjárveiting, til framhalds þjóðveginum frá Akureyri um Þelamörk, sem nefndur er Öxnadalsvegur. Við flutnm. bárum fram brtt. um fjárveiting til vegarins við 2. umr. fjárlaganna, og fórum þá fram á 3000 kr. hvort árið. Nú er upphæðin færð niður í 2500 kr., og verður það undir áliti hæstv. forseta, hvort tillagan megi koma undir atkvæði deildarinnar eða ekki. Jeg skýrði þá afstöðu þessa máls og benti á nauðsyn vegarins, skýrði frá því, að vegur þessi væri aðalumferðar- og kaupstaðarleið tveggja hreppa, og að að eins væru ógerðir 4 eða 5 km. til þess, að báðir þessir hreppar, og enn fremur nokkur hluti Glæsibæjarhrepps, gætu notað veginn sem akveg. Mjer finst það því ærið hart leikið, ef háttv. deild legst á móti þessari litlu fjárveitingu, og það því fremur, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki muni koma til með brúarbygging á Eyjafjarðará á þessu fjárhagstímabili. Eins og háttv. þingdm. mun reka minni til, fluttum við — þm. Eyf. — hjer áður þá tillögu, að verja mætti nokkru af brúarfjenu til þess að leggja vegarspotta þá, sem leggja þarf að brúnni, þótt hún yrði ekki bygð, en sú tillaga var feld. Það væri því nokkuð hart að gengið, ef háttv. deild ætlar líka að varna því, að þessi litli vegarkafli geti orðið lagður. Eyjafjarðarsýsla leggur þó svo mikið fram í landssjóðinn, að hún er vel að því komin, þótt þessum fáu krónum væri varið til jafnnauðsynlegra og sjálfsagðra framkvæmda. Og ef það er alvara þingsins að veita fátækum mönnum atvinnu vegna dýrtíðarinnar, þá hygg jeg, að þess greiða sje ekki síður þörf þar en víða annarsstaðar. Einmitt þar í grend er margt af fátæku fólki, sem mundi vilja og þakka fyrir að fá atvinnuna.

Ætla jeg svo ekki að mæla fleira hjer um, en treysti háttv. deildarmönnum til sanngjarnra úrslita.