14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

164. mál, tekjuskattur

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að eins að gera grein fyrir mínu atkvæði í þessu máli. Ef brtt. nefndarinnar hjer hefði komið til atkvæðagreiðslu, þá get jeg sagt það nú þegar, að jeg hefði haldið mjer við mína fyrri till., að þessi skattur næði ekki lengra aftur fyrir sig en til 1. jan. 1917. Þetta hefir orðið niðurstaða mín, eftir nánari umhugsun. Það er þó ekki af því, að mjer fyndist illa til fallið, að Íslendingar yrðu að bera sinn gróðaskatt eins og aðrir, því að jeg bar einmitt fram frv. í þessa átt 1915. En að jeg setti takmarkið 1914, en ekki 1916, var af því, að jeg kaus heldur, að nokkrir slyppu, þótt þeir væru þess óverðugir, heldur en að stuðla að því að sliga hina smærri útgerðarmenn og þá bændur, sem undir þetta mundu komast, því að hagur þeirra mun vera fullerfiður, þótt ekki sje á það bætt. Jeg er því í raun og veru sammála niðurstöðu nefndarinnar um það, hvar þessi skattur ætti að koma niður, og að þeir, sem hafa grætt, ættu ekki að sleppa undan honum að rjettu lagi.

Að öðru leyti finst mjer vera ósköp að heyra öll þessi ærsl og læti út af þessu, og það ekki minst meðal fátæklinganna, þó að einu sinni standi til að leggja rjettlátan stígandi skatt á menn. Það er því undarlegra, að þeir fátækustu láta allra hæst, og ætla alveg að ærast, þó að þeir sjálfir hafi aldrei getað staðið upprjettir undir tollum og sköttum. Því að fátækur maður, sem hefir marga fram að færa og á því erfitt, verður að greiða þyngri álögur heldur en ríkur maður, sem á fyrir fáum að sjá. Svo þegar hjer kemur til umræðu að láta skattana koma rjettar niður, þá er óskapast svo mikið yfir því úti í frá, að jafnvel sjálft Alþingi verður fyrir áhrifum af því og heldur varla fullri dómgreind. — En nú þarf ekki lengur á þessu að halda, og jeg stóð að eins upp til þess að gera grein fyrir, hvernig jeg mundi hafa greitt atkvæði mitt, af því að jeg áleit, að þeir fátækustu útgerðarmenn, er lagt hafa gróða sinn 1916 í að auka útveg, sem þeir skaðast nú á, hefðu ekki risið undir jafnþungum skatti og hjer er um að ræða. Jeg tel það rjett gert af nefndinni að hafa tekið aftur brtt. sínar, til þess að bjarga málinu við. Þó að þetta nái ekki fram að ganga nú, þá mun það verða tekið upp aftur seinna og ekki látið undan, svo að jeg spái, að þá fái einhver að hrína.