29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Hákon Kristófersson:

Hæstv. forsætisráðherra tók það fram, að óþarfi væri að ræða mál þetta mikið nú og að eins til að auka kostnað. Mjer kemur það kynlega fyrir, að slíku skuli varpað fram úr ráðherrastóli um jafnmikilsvert mál sem þetta. Að umræður um málið hafi kostnað í för með sjer er að vísu alveg rjett, en sú ástæða getur varla talist frambærileg, ef tekið er tillit til allrar þeirrar ónytjumælgi, er ýms smámál hafa haft í för með sjer hjer í þinginu, án þess að neinn hafi minst á kostnaðarhliðina. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að þjóðin muni vilja halda fast við bannlögin, en það mun frekar geta orkað tvímælis, hvort það sje ósk hennar, að sífelt sje verið að grauta í þeim með allskonar breytingum, og þeim sumum hverjum miður heppilegum.

Það er auðvitað tilgangurinn með frv. þessu að bæta bannlögin, en jeg efast um, að þeim tilgangi verði náð með breytingum þeim, sem hjer liggja fyrir. Umbætur frv. virðast vera þær, að sektir fyrir bannlagabrot skuli hækkaðar, og að heimild er veitt til að rannsaka hirslur ferðamanna. Slíkar ráðstafanir sem þessar verð jeg að telja hreinustu vandræði, og efasamt mjög, að þær miði til bóta. Við höfum tolllög, sem margir eru hræddir um að ekki sjeu vel haldin eða vel gætt, en enginn talar um, að rannsókn á hirslum ferðamanna sje nauðsynleg þeirra vegna. Því er mjer spurn, hvers vegna á þá að hafa aðra aðferð gagnvart bannlagabrotum? Jeg tel þetta, eins og jeg hefi áður tekið fram, mjög vafasamar umbætur, og ekkert umboð hefi jeg til að samþykkja ákvæði slík sem þessi. Þykir mjer það ráðlegast, að málinu sje slegið á frest og látið sitja við það sem er, og gefa þjóðinni kost á að láta uppi álit sitt um það, hvort hún getur felt sig við frv. þetta, sem hjer liggur fyrir. Þar sem það er nú fullyrt, að þing verði að sumri, virðist mjer vel fara á því að geyma allar breytingar á lögunum þangað til; þá væri líka fengin vissa fyrir því, hvernig alment væri litið á breytingar þessar.

Jeg er sammála háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) um það, að það sje einkum framkvæmd laganna, sem er því til hindrunar, að þau nái tilgangi sínum. Jeg hefi verið og er bannmaður, og sjálfsagt ekki lakari en hver annar. Þó vil jeg taka málið til rólegrar yfirvegunar, því að allar æsingar í þessu máli verð jeg að telja varhugaverðar. En satt að segja er jeg ekki svo sterkur bannmaður, að jeg hneykslist á því, þótt einhver hafi eina eða tvær vínflöskur í fórum sínum, og neyti vínsins úr þeim í sakleysi, fremur en þótt einhver hafi með sjer vindlakassa. Jeg tel þetta ekki neitt aðalatriði. Hitt er athugaverðara, að mönnum hefir haldist uppi að flytja vín inn í landið og selja það síðan hinum og þessum með afarháu verði. Að frekar verði náð í þrjóta þessa, þótt sektir verði hækkaðar, tel jeg vafasamt, miklu heldur hið gagnstæða.

Af því að jeg tel málið ekki nógu vel íhugað, þá leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta svo hljóðandi dagskrá, og bið hann að bera hana undir atkvæði, að loknum umræðum:

Með því að deildin lítur svo á, að mjög orki tvímælis, hvort heppilegt sje að gera ítarlegar breytingar á bannlögunum, þar sem enn er engin fullnaðarreynsla fengin fyrir þeim, þá vill hún láta við svo búið standa að sinni, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.