29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Bjarni Jónsson:

Það má segja, að háttv. þm. Barð. (H. K.) hafi sýnt málfimi sína og málkunnáttu við samning dagskrár þessarar, því að hún er bæði vel orðuð og gott mál á henni, og mundi jeg hafa eignað hana öðrum manni hjer í deild, ef þessi nafngreindi maður hefði eigi borið hana fram.

En þó vil jeg vara menn við að greiða atkvæði með dagskrá þessari, því að jeg finn enga ástæðu til að vísa málinu frá, og bendi jeg þar á orð hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem er formaður allsherjarnefndar. En áður en gengið er til atkvæða um dagskrána vildi jeg leyfa mjer að beina fyrirspurn einni að formanni allsherjarnefndar.

Jeg hefi heyrt, að Ciceró þessarar deildar, háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) hafi haldið ræðu á móti frv. þessu. Ræðan rann að vanda, sætari en hunang, af vörum háttv. þm. (E. J.). En þó skýtur því nokkuð undarlega við, að háttv. þm. (E. J.) skuli halda slíka ræðu, því að jeg sje ekki betur en að nafn háttv. þm. (E. J.) standi fyrirvaralaust á þgskj. 579, undir greinargerð allsherjarnefndar fyrir máli þessu. Er því ekki nema tvent til. Annaðhvort hefir bæst hjer í deildina nýr 2. þm. Rangæinga, hinn 27. deildarmaður, eða hinn 2. þm. Rang., sá er vjer þekkjum allir, hefir eigi munað til sjálfs sín, er hann hjelt ræðuna áðan, eða ekki vitað, undir hvað hann skrifaði, er hann undirskrifaði greinargerðina á dögunum; væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta hjá háttv. formanni allsherjamefndar (E. A.).