03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gat þess við 1. umr., hvers vegna nefndin hefði tekið það ráð að setja í eina heild öll þau lög, er nú gilda um aðflutningsbann áfengis, og bæta við þeim breytingum úr frv. þeim, er til nefndarinnar höfðu borist, er nefndinni fanst ástæða til að taka til greina. Ætla jeg því ekki að gera annað nú en minnast á helstu breytingarnar.

Fyrst eru þá breytingarnar í 1. og 2. gr., er standa í sambandi innbyrðis. Meiningin með þeim er að koma í veg fyrir misbrúkun á þeim vökvum, sem ekki eru í raun og veru nothæfir til drykkjar, en þó notaðir þannig, svo sem t. d. ilmvötn, hármeðöl, suðuvökvi og »politur«. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þessir vökvar eru notaðir til drykkjar, og líka kunnugt, að þeir valda enn meiru heilsutjóni en það áfengi, sem innflutningur er bannaður á með bannlögunum, og því sýnilega enn meiri nauðsyn að reyna að hindra neyslu þeirra en innflutning á áfenginu sjálfu. Geri jeg því ráð fyrir, að flestir fallist á þessar breytingar.

Svo kemur breytingin í 5. gr. um, að þegar skip er rannsakað á fyrstu höfn, er lögreglustjóra heimilt að »opna hirslur skipverja og farþega og aðra staði í skipi, eftir því sem þörf þykir«. Jeg lít nú svo á, að í raun og veru hafi þetta verið heimilt áður, en til þess þurfti dómsúrskurð. Í 6 gr. tolllaganna stendur, að ef grunur leikur á, að rangt sje skýrt frá, má lögreglustjóri eða umboðsmaður hans, láta rannsaka farminn og hafa eftirlit með uppskipun. Rjett mun það, að ekki hafi verið hægt að opna hirslur nema dómsúrskurður kæmi til, en með þessari breytingu er það beint heimilað, hvað áfengi snertir. Þetta er víða siður, að útlendir og innlendir farþegar verða að opna hirslur sínar, til þess að tollstjóri sjái, hvort ekki eru tollskyldar vörur í þessari hirslu.

Þá er næst breyting í 14. gr. 4. málsgr , um það, að auk sekta skuli beita fangelsisrefsingu, ef áfengi hefir verið aflað til veitinga í atvinnuskyni eða sölu. Það virðist vera sjerstök ástæða til þess að setja þyngri hegningarákvæði, er menn gera sjer beinlínis að atvinnu að smygla víni inn í landið og selja það með jafnvel okurverði.

Um brtt. í 15. gr. er það að segja, að það vakti sama fyrir nefndinni, sem sje að skerpa hegningarákvæðin, þegar það er meiningin að gera sjer atvinnu af sölu og veitingu áfengra drykkja. Jeg get ekki verið að nefna allar tölurnar, geri ráð fyrir, að háttv. þingdm. hafi frv. fyrir sjer og sjái breytingarnar. Jeg skal geta þess, að í næst síðustu málsgr. 15. gr. er prentvilla. Þar stendur 500 —1000, en á að vera 50—1000 kr., en þetta eru hegningarákvæði fyrir þá menn, er afla sjer áfengis undir því yfirskyni, að þeir ætli að nota það í lögleyfðum tilgangi, en nota það til drykkjar.

Um breytinguna í 16. gr. þarf ekki að fjölyrða. Það er nauðsynleg formbreyting.

Eins og háttv. deild sjer er felt burt ekki alllítið úr frv. á þgskj. 72. Það eru feld burt breytingaratriði, sem nefndin gat ekki felt sig við, en sum þessara atriða eru nú tekin upp í brtt. á þgskj. 620, frá háttv. þm. Borgf. (P. O.), og verð jeg því að minnast á þær brtt.

Fyrri brtt. gengur út á það að óheimila íslenskum skipum, sem eru í siglingum milli landa, að flytja með sjer áfengi. Er að þessu leyti gerður greinarmunur á íslenskum og útlendum skipum. Jeg gat þess áður, að nefndin hefði ekki getað fallist á þetta, því að það er alkunna, að ýmsir menn vilja heldur ferðast með þeim skipum milli landa, er hafa áfengi. Með þessu væri því afstaða íslenskra skipa gagnvart erlendum fjelögum gerð veikari. Hjer væri gerður greinarmunur í þá átt að gera íslensk skip ver sett. Jeg skal og geta þess, að nefndin fjekk brjef frá stjórn Eimskipafjelagsins, og lagði hún talsverða áherslu á, að þetta ákvæði yrði ekki tekið upp í frv.

Önnur brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O) mælir svo fyrir, að hver, sem sjest ölvaður á almannafæri, skuli sæta sektum frá 20—200 kr. Á þetta gat meiri hluti nefndarinnar ekki fallist, vegna þess, að ölvaður maður þarf ekki að gera óspektir, og á meðan einstökum mönnum er leyft að eiga áfengi í sínum húsum, neyta þess sjálfir og veita einstökum mönnum, er það dálítið einkennilegt að sekta menn, ef það sjest á þeim, að þeir hafa neytt þess, sem heimilt er að neyta. Það sýnist ganga fullnærri að taka mann og sekta, er gengur leiðar sinnar rólegur, án þess að gera neinum neitt, þótt á honum kunni að sjá vín, sem oft getur verið álitamál, hvort er eða ekki.

Meiri hluti nefndarinnar mun því greiða atkvæði móti þessum brtt. En einn nefndarmanna, háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), hefir þó áskilið sjer rjett til að greiða atkv. með annari þeirra. En öll nefndin hefir verið sammála um að fella burt sum ákvæði frv. á þgskj. 72, svo sem t. d. 6. gr., um að frá l. jan. 1919 skuli afnuminn sá rjettur, sem einstakir menn hafa til að eiga áfengi, samkvæmt 11. gr. laga um aðflutningsbann á áfengi, 30. júlí 1909. Allir voru sammála um, að það væri í raun og veru óhæfilegt, að löggjöfin heimilaði mönnum árið 1909 að eiga svo og svo miklar birgðir áfengis og taka þann rjett síðan burt. Hjer væri beinlínis verið að svíkja þá, sem treyst hefðu þessari heimild og birgt sig upp. Enn fremur voru allir samdóma um að fella burt 5. gr. á sama þgskj, um að hegna þeim, er gefa tortryggilega skýrslu. Með þessu ákvæði væri brotið í bág við þá aðalgrundvallarreglu hegningarlaganna, að hegna aldrei nema menn sjeu sannanlega sekir.

Enn fremur vildi nefndin fella burt 3. gr. sama frv. Hún er algerlega óþörf, þar sem búið er að gefa út slíka reglugerð, sem þar um ræðir, og ef sú reglugerð þykir ekki nægileg, er full heimild til að bæta úr því.

Við 1. umr. mintist jeg á, hvers vegna frv. háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fann ekki náð fyrir augum nefndarinnar, og þarf því ekki að minnast á það nú.