03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg álít það ekki vera þörf að halda nú langa ræðu, því að mikið hefir þegar verið um málið rætt, og flest hefir verið tekið fram, sem jeg hafði ætlað mjer að segja, en þó get jeg ekki stilt mig um að segja nokkur orð.

Jeg get yfirleitt verið háttv. allsherjarnefnd þakklátur fyrir meðferð hennar á frv., þótt jeg geti ekki verið fyllilega samþykkur allri meðferð hennar á því. Jeg býst við því, að menn í þessari nefnd hafi litið misjöfnum augum á frv., og að þetta sje samkomulagsniðurstaðan. Þótt ekki gangi breytingar nefndarinnar eins langt og jeg hefði óskað, þá er þó það gott við þær, að þær miða allar til bóta.

Það mun vera af þessari ástæðu, að háttv. þm. Borgf. (P. O.) flytur fram brtt. sínar, að honum finst, eins og mjer, að till. nefndarinnar gangi ekki nógu langt. Hann hefir því tekið 2 atriði upp úr upphaflega frv. Hann vill láta sekta mann, sem sjest ölvaður á almannafæri. Háttv. frsm. (M. G.) kvað það ógerning að sekta manninn fyrir það eitt, að á honum sæist, að hann hefði bragðað vín. Jeg segi nú fyrir mig, að mjer dettur það ekki í hug, að þessu ákvæði laganna yrði beitt nema hneykslanlegt framferði ætti sjer stað hjá manninum. Jeg hygg, að flestir muni líta svo á, að það sje hneykslanlegt framferði að láta sjá sig svo ölvaðan á almannafæri, að maður sje tæpast sjálffær, og að slíkt ætti að varða sektum.

Við stöndum í þessu efni að baki öðrum þjóðum, sem þó hafa ekki bannað vínsölu, því að þau leggja sektir við slíku. Ensk lög ákveða sektir við þessu, og sjeu miklar sakir, þá líka fangelsi. Ef nefndin kynni betur við að setja inn í till. orðin »svo að hneyksli valdi«, þá gæti jeg verið því meðmæltur, en þó tel jeg þá breytingu óþarfa, en dálítið tel jeg leiðinlegt að sleppa alveg þessu ákvæði, því að það er ómótmælanlegt, að það meiðir tilfinningu flestra manna að sjá útúrdrukna menn á almannafæri, og sjerstaklega á þetta illa við í bannlandi, þar sem erlendar þjóðir, sem ekki hafa nein bannlög, þó leggja sektir við þessu.

Jeg vildi biðja háttv. meiri hluta nefndarinnar að láta í ljós, hvort hann mundi ekki geta fallist á tillöguna með þeirri breytingu, sem jeg stakk upp á áðan. Jeg mundi vilja vinna það til samkomulags.

Þá er önnur till. háttv. þm. Borgf. (P. O.), að 2. málsgr. 5. gr. bannlagafrv. falli burt. Jeg vildi leyfa mjer að fara um hana örfáum orðum. Till. fer fram á það, að skipum Eimskipafjelagsins verði ekki leyft að flytja vín framvegis. Háttv. tillögumaður (P. O.) hefir nú fært ástæður fyrir þessari breytingu sinni, og vildi jeg að eins leyfa mjer að bæta þar við einu atriði.

Það er öllum kunnugt, að Eimskipafjelagið er alþjóðareign, og því ekki síður bannmenn en andbanningar, sem hjer eiga hlut að máli. Það ætti nú að vera öllum ljóst, að bannmenn hljóti að vera óánægðir með, að skipin, sem þeir eiga eins og aðrir, sjeu gerð að fljótandi veitingahúsum. Ef við því neitum að verða við þessari kröfu þeirra, þá er auðsjáanlegt, að það getur orðið fjelaginu að skaða, og væri það ilt, ef þetta ætti að verða til að sprengja fjelagið.

Stjórn Eimskipafjelagsins hefir eitt sinn lýst yfir við nokkra menn, að skaðinn af því að veita ekki þessa undanþágu yrði varla annar en sá, að örðugra yrði að fá bryta með sama kaupi og nú, en jeg vona, að allir sjái, að það er engin ástæða til að leyfa vínveitingar á skipunum. Það er ákaflega leiðinlegt, að það skuli vera heimilt á íslenskum skipum að láta borðin flóa í víni, og jeg er viss um, að fleiri mundu vilja fara með þeim, ef það væri ekki leyfilegt og ekkert áfengi væri veitt á skipunum.

Hv. frsm. allsherjarnefndar (M. G.) vjek að þessari brtt. um ölvuðu mennina nokkrum orðum. Honum hefir þegar verið svarað að nokkru leyti. Aðalröksemd hans hefir þó ekki enn verið svarað, en hún var sú, að það væri hálfleiðinlegt, ef mönnum væri refsað fyrir, að það sæist á þeim vín, þar sem enn sje leyfilegt að eiga vín og neyta þess.

Þó að nú sje heimild til að eiga vín, verður samt ekki til annars ætlast en að menn fari svo vel með vínið, að ekki valdi hneyksli. Annars höfum við flutt brtt. um að nema þessa heimild úr lögum, en nefndin hefir, af einhverjum ástæðum, ekki sjeð sjer fært að taka þá brtt. upp. Það er því ekki okkar sök, þó að hv. frsm. (M. G.) finnist ósamræmi milli þessara ákvæða. En þó að nú þessi heimild verði ekki þegar numin úr gildi, þá þarf hjer enginn árekstur að eiga sjer stað. Jeg get ekki sjeð, hvað sje ósæmilegt við að svifta menn þeim rjetti til að eiga vín, sem þeim var veittur 1909. Það ætti ekki að vera hættulegra en að svifta þá, sem vínverslun höfðu, söluheimildinni, þegar sölubannið kom í gildi. Það væri hægt að gefa mönnum nokkurn frest, ef það þætti betra. Þessu er auðvelt að fá framgengt, án þess að ganga ofnærri rjetti einstaklingsins.

Jeg mæli sem best með brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.), því að jeg tel þær til mikilla bóta. Svo skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta mál.