03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Borgf. (P. O.) mintist á, að lögreglustjórar litu misjafnlega vel eftir, að bannlögunum væri framfylgt. Sama kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B) við 1. umr, en þegar jeg bað hann að nefna nöfn, svaraði hann, að það væri ekki víst, að jeg græddi neitt á því. Jeg veit ekki, hvort þetta hefir átt að skiljast svo, að jeg væri í flokki þeirra lögreglustjóra, sem illa litu eftir bannlögunum. Það er náttúrlega auðvelt að bregða lögreglustjórum um þetta. En það er ekki eins auðvelt fyrir lögreglustjórana að vera á rölti um alt umdæmið. Það er ómögulegt fyrir einn mann að vita alt, sem gerist í heilli sýslu. Nei, aðalatriðið er, að menn tala um bannlagabrot sín á milli, en fæstir vilja kæra. Svo álasa menn lögreglustjóranum fyrir að hafa ekki hendur í hári lögbrjóta, sem enginn vill þó kæra. Hitt athuga menn ekki, að lögreglustjóra er ómögulegt að álasa með neinum rjetti, þó að hann taki ekki upp brot, sem enginn kærir og hann veit ekkert um. Þess er að eins hægt að krefjast af honum, ef hann horfir á þegar brotið er framið, eða veit það á annan hátt.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) var að minnast á, hvað fram hefði farið í nefndinni. Það er ekki venja að segja frá slíku, og mun jeg því engu svara.

Þá kem jeg að því, hvernig skýra skuli orðið »ölvaður«. Jeg held, að það eigi við mann, sem hefir drukkið svo, að á honum sjest. Þar fyrir þarf maðurinn alls ekki að vera svo drukkinn, að hneykslanlegt sje, eða að það særi tilfinningar annara. Hjer í Reykjavík er lögreglunni heimilt að taka menn, sem sjást hneykslanlega ölvaðir á götum úti. Enda er það oft gert, og sæta menn sektum fyrir. Sjerstakt ákvæði um þá, sem sjást hneykslanlega druknir, er óþarft í bannlögunum, hvað snertir þá staði, sem hafa lögreglusamþyktir, og alstaðar hjer á landi varðar það refsingu, ef ölvaðir menn gera óspektir.

Hvað snertir Eimskipafjelagið, þá hefi jeg hjer brjef frá stjórn þess. Þar segir svo:

». . . Afnám þessarar heimildar mundi hafa í för með sjer fjárhagslegt tjón fyrir fjelagið, misrjetti gagnvart öðrum millilandaskipum og önnur óþægindi . . .«. Mjer kemur því undarlega fyrir, að stjórnin álíti heimildina lítils virði, eins og hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði. Formaður fjelagsins hefir undirritað brjefið. Vel má vera, að hann sje því ósamþykkur, en það kemur hvergi fram. Hjer er að eins um heimild að ræða, sem stjórn fjelagsins þarf ekki að nota fremur en hún vill. Það er því alveg ástæðulaust að óttast, að þetta mál gæti valdið sprengingu í fjelaginu. Að minsta kosti væri það þá eingöngu stjórninni að kenna.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að engum lögreglustjóra mundi detta í hug að taka ölvaða menn fyrir það eitt, að vín sæist á þeim. En það er mitt álit, að það verði skylda, ef brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.) verður samþykt. Það er alveg rjett hjá 1. þm. Reykv. (J. B.), að þessi brtt. stendur í nánu sambandi við hina brtt., um afnám heimildarinnar til að eiga vín, sem inn var flutt fyrir 1912. Þessar brtt. standa í svo nánu sambandi hvor við aðra, að ef önnur er feld burt, þá á hin að falla líka.