03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það hefir viljað reynast svo oftast, þegar á þetta mál hefir verið minst, að það er mörgum tilfinningamál. Fyrir mjer hefir það aldrei verið tilfinningamál. Jeg hefi aldrei litið öðruvísi en rólega á það. Skynsemin hefir sagt mjer, að þessi leið væri áreiðanlega sú heppilegasta til að girða fyrir ofnautn áfengra drykkja. Flestir fallast á forsenduna, að nauðsynlegt sje að draga úr ofnautn áfengna drykkja, en menn hafa margir hverjir átt mjög erfitt að draga rjetta ályktun af forsendunum, en sú rjetta ályktun er vitanlega sú að girða fyrir innflutning vínsins, eftir því sem unt er. Bannlagaleiðin er áreiðanlega rjetta leiðin.

Síðan bannlögin komu til, hafa andstæðingar þeirra gert hverja tilraunina á fætur annari til að fleyga þau svo, að framkvæmd þeirra verði sem örðugust.

Fyrsti fleygurinn var sá, að heimila mönnum að eiga vín sitt áfram, þó að lögin gengju í gildi. Þetta var mjög óheppilegt, og hefir það sýnt sig síðan.

Næsti fleygurinn var konsúlabrennivínið svokallaða. Jeg var kominn á þing þegar það kom á dagskrá, og gerði það sem jeg gat til að verja bannlögin fyrir þeim fleyg, en það tókst ekki.

Þriðji fleygurinn var að heimila íslenskum skipum að hafa vín. Eðlilegast var þó, að íslensk skip væru vínlaus, eins og heimalandið.

En seig hafa lögin reynst, þrátt fyrir þessa fleyga, og mun það að þakka hinni hollu hugsjón, sem liggur til grundvallar, að útrýma áfenginu.

Hvað snertir þetta frv., þá verður því ekki neitað, að í því eru fólgnar ýmsar heppilegar breytingar. Skal jeg þó einkum nefna breytinguna á 15. gr. Þar er kveðið svo á, að fangelsisrefsingu skuli beitt, ef áfengi hefir verið aflað til veitinga í atvinnuskyni eða sölu. Það eru þeir einir, sem »spekúlera« í lagabrotunum, sem eru bannlögunum hættulegir. Þess vegna er það með öllu sjálfsagt að taka sem harðast á slíkum sökudólgum. Þeir ættu ekki að hafa samúð nokkura manna. Ef hugsunarhættinum yrði breytt í þá átt, þá væri aðflutningsbanninu borgið. Bannlögunum er engin hætta búin af þeim mönnum, sem ná sjer í 1 eða 2 flöskur handa sjálfum sjer, heldur eingöngu af þeim, sem gera bannlagabrot sjer að atvinnu.

Aðalatriðið er það, hvernig bannlaganna er gætt. Það er ekki hægt að neita því, að lögreglustjórunum er fengið í hendur erfitt viðfangsefni. Þeir hafa litla aðstoð til að gæta þessara laga og annara. Auk þess hafa þeir menn, sem hafa lagt sig í líma til að framfylgja lögunum, því miður átt að sæta ýmiskonar tortrygni. Ekki þarf lengra að minnast en nú síðasta vetrar; þá gekk tortrygnin gegn lögreglunni svo langt, að það var gefið í skyn, að miðar hefðu verið máðir af vínpokum, til þess að forða höfðingjunum hjer við ámæli.

Það ákvæði þessa frv., er heimilar lögreglustjórum að láta skoða hirslur manna, er og mjög þarft. Sú hlægilega skoðun hefir gripið töluvert um sig, að það sje óviðeigandi, að hirslur manna sjeu skoðaðar, þegar þær eru fluttar af skipsfjöl.

En hvað gerir tollgæslan alstaðar annarstaðar?

Eftir gömlu lögunum var vafasamt, hvort hægt væri að gera þetta án dómsúrskurðar, en með þessum ákvæðum er sá vafi aftekinn.

Skal jeg svo ekki fara fleirum orðum um málið að sinni, en óska, að frv. verði samþykt, því að það er óefað til bóta.