03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gísli Sveinsson:

Það er frá mínu sjónarmiði ekki skemtilegt að vera að rekast í þessu máli þing eftir þing. Jeg þarf varla að taka það fram, hví mjer þykir það ekki skemtilegt. Það er af því, að jeg tel best, að lögunum sje haldið óbreyttum, eins og þau eru. Það má vel hlíta við þau, ef framkvæmd þeirra er í lagi. Jeg hefi ekki sannfærst af ræðum þessara ströngu bannmanna, eða rjettara sagt bannæsingamanna, um að ekki hljótist ilt eitt af þessari rekagátt þeirra. Hún verður til þess að æsa andbanninga til enn meiri mótspyrnu gegn lögunum, og jafnvel suma bannmenn líka. Og, eins og hæstv. forsætisráðherra hefir áður tekið fram, hlýtur það að vekja undrun og óhug út á við og síst greiða fyrir bannhreyfingu í öðrum löndum, er það frjettist, að bannlög vor dugi ekki betur en svo, að altaf þurfi að vera að breyta þeim. Jeg er hissa, að þeir menn, sem af góðum hug láta sjer ant um lög þessi, skuli ekki geta beðið eftir því, að reynslan skeri betur úr en enn þá hefir getað orðið, og að þeir skuli vera svo órólegir, að þeir sjái ekki, að jafnyfirgrips mikil lög sem þessi hljóti að þurfa langan tíma til að grafa um sig og hafa áhrif á hugsunarhátt landsmanna. Jeg þykist þess viss, að unnendur laganna hyggi, að þau muni verka þannig á hina uppvaxandi kynslóð, að hún, þegar hún kemst til vits og ára, muni virða þau, en þó svo best, að í lögunum sje sem minst hringlað. Jeg skil ekki í því, hvers vegna æsingabannmennirnir eru svo vantrúaðir á, að það muni smátt og smátt geta lagast, sem áfátt þykir í framkvæmd laganna, ef stilling og staðfesta er sýnd. En þessir menn þekkja ekki nema eitt allsherjarlyf, og það er að herða sí og æ á refsingunum fyrir bannlagabrotin. Hið eina, sem unnist gæti við þetta breytingaflan, er að breytingaberserkirnir sönsuðust loks á það, að síbreytingaleiðin væri ekki heppilegasta leiðin til að skapa bannlögunum fylgi og festu, og hið eina, sem gæti sætt mig við, að frv. þetta fengi framgang, er vonin um, að svo geti farið, að þeir sæju, að leið sú, sem þeir hafa valið, er ekki sigurvænlegust. Reyndar er þetta frv. mestmegnis ekki annað en uppsuða úr eldri lögum, og breytingarnar í því, eins og jeg hefi áður sagt, sumpart óþarfar og sumpart óhæfar, svo að ekki ættu þær að mæla mikið með því.

Breytingar þær, sem um ræðir í 1.— 2. gr., eru heimilar eftir gildandi lögum, og þarf því ekki að raska löggjöfinni þeirra vegna; það er nú heimilt að flytja hingað til lands ilmvötn, hármeðul og þesskonar vökva, og þarf því enga nýja löggjöf um það. En það mun einkum vera, sem hrindir þessu af stað, að refsiákvæðin þykja ofmild og eftirlitið ófullnægjandi. Það dugir ekki að deila við þessa menn, sem því halda fram, að nógu hörð refsiákvæði muni fæla menn frá að brjóta lögin; þeir hafa nú bitið sig fast í það og vilja engum sönsum taka. En jeg er sannfærður um, að þessir menn fara villir vegar. Það er enginn vafi á því, að þeir, sem vilja brjóta lögin, munu halda áfram að gera það, jafnt þótt þeir spili í því lotteríi, að upp komi hjá þeim óhappadráttur og þeir verði uppvísir að lögbrotinu og verði fyrir hinni þungu refsingu, sem af því leiðir. Alveg sama er að segja um þá, sem hafa það fyrir atvinnu að selja áfengi. En það játa jeg, að slíkt er versta og óhæfumesta bannlagabrotið.

Jeg tek það enn fram, að þeir menn vaða í villu og svima, sem halda, að bannlagabrotin minki við það, þótt sektirnar fyrir þau sjeu hækkaðar. Það þarf að fara alt annan veg til þess en refsingaleiðina, — til að fá fólkið til þess að hlýða bannlögunum. Í 5. gr. er bætt inn í ákvæði um, að lögreglustjóri megi opna hirslur skipverja og farþega og aðra staði í skipi, eftir því sem þörf þykir. Háttv. nefnd hefir fóðrað þetta ákvæði með því, að nauðsynlegt væri að gefa þessa heimild, til þess að lögunum yrði framfylgt, og væri þetta til góðra bóta, og vitnar hún í, hvernig ástatt sje með tolllöggjöf vora og tolleftirlit.

Jeg skal játa það, að þessi heimild, að opna hirslur manna, sje ekki svo voðaleg að því leyti, að samskonar þekkist ekki í annari löggjöf. En jeg tel þó ekki rjett að gera þessa ótakmörkuðu undanþágu í þessum lögum. Jeg held því fram, að ef leyfa á gagngerða rannsókn á farangri í skipum og hjá farþegum, þá eigi að stíga sporið út og stofna hjer almenna tollgæslu. Auðvitað hefir það mikinn kostnað í för með sjer, en þar fæst þó eitthvað í aðra hönd fyrir þann, sem borgar brúsann, landssjóðinn. En ekki er því hjer að heilsa; hjer er að eins veitt heimild til að rannsaka skipin; og það er mjög undir lögreglustjóra komið, hvernig hann notar þessa heimild, og engin trygging fyrir, að hún geti ekki orðið misbrúkuð. Og í raun rjettri er lögreglustjórum fengið hjer svo mikið starf, að þeir geta einatt ekki komist yfir að leysa það af hendi svo að vel sje. Hugsum oss, að hjer í Reykjavík sæti við stýrið ákafur bannmaður eða bannæsingamaður. Hann mundi sí og æ láta menn sína rekast í rannsóknum, því að jafnan mega þær fram fara, »er þörf þykir«, þótt enginn sjerstakur grunur leiki á. Það sjá allir, hvílíkur trafali og kostnaður yrði að þessu, og langoftast mundi það koma upp úr kafinu, að leitin hefði verið ástæðulaus og árangurslaus. Jeg segi því, ef þessa heimild til rannsókna á að gefa, þá á hún að standa í tolllögum, en ekki í bannlögum. Nú er einmitt í ráði að koma á tolleftirliti hjer í Reykjavík, samkvæmt frumvarpi því, er jeg bar hjer fram á öndverðu þingi, og álít jeg, að það eigi að vera byrjun almennrar tollgæslu hjer í landi, og er sjálfsagt, að tollgæslumönnunum ber eftirlitið með vínfangaflutningi hingað til lands, og hlýtur það að vera betur komið í þeirra höndum og fullkomnara en kák það, sem hjer er ætlast til að framið verði.

Ef á annað borð á að fara fram rannsókn á hverju skipi, til að komast að raun um, hvort áfengi sje í því, þá skil jeg ekki í því, til hvers á líka að heimta skýrslu af skipstjóra um það, hvort áfengi sje í skipinu. Það er lögreglustjóri, en ekki skipstjóri, sem það hvílir á að rannsaka það mál. Og nú á enn á ný að herða á refsingu skipstjóra, ef ekki reynist rjett sagt frá vínbirgðunum í skipinu.

Eins og jeg hefi áður tekið fram hefi jeg litla trú á, að hækkun sekta komi að verulegu haldi. En mjer er líka illa við hitt, að hjer á að innleiða tvöfalda refsingu, sektir og fangelsi um leið. Jeg veit, að slík ákvæði finnast í lögum annara þjóða; en ekki tíðkast þau á Norðurlöndum; nema ef nú á að taka upp hina gömlu refsingaraðferð sem þar tíðkaðist endur fyrir löngu, að margrefsa mönnum, og það jafnvel dauðum mönnum. Þessi refsiákvæði, eða lík því, sem frv. flytur, munu annars fram að þessu hafa verið gildandi í Prússlandi og Rússlandi. En ekki skil jeg í, að við girnumst að sækja okkur refsingarfyrirmyndir þangað, enda liggur annað nær.

Það þýðir annars ekki að vera að deila um þetta, því að forhertir menn láta sjer ekki segjast, hvað skynsamlegar fortölur sem fyrir þeim kunna að vera hafðar; og þó að þeir hafi þá trú, að með hörðum refsingum megi bæta menn, þá geri jeg ekki ráð fyrir, að þeir sjálfir láti sjer fremur segjast við hörð orð en mildar fortölur.

Jeg er sammála háttv. allsherjarnefnd um, að brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.) sjeu óheppilegar og til ills eins; en jeg þarf ekki að leiða sjerstök rök að því, hvers vegna jeg telji þær svo. Það er nóg að benda á það, sem jeg hefi áður tekið fram, að jeg álít allar breytingar á bannlögunum óheppilegar nú. Jeg sje t. d. ekki, að það hafi þá meginþýðingu að fella burt úr 5. gr. þá heimild, sem íslenskum fólksflutningaskipum er veitt þar, að fyrir þær sakir sje ástæða til að vera að breyta bannlögunum, enda mundi það ekki hafa mikla þýðingu til þess að útiloka vín úr skipum þessum eða vínnautn í þeim, því að allir gætu eftir sem áður verið fullir, ef þeir vildu, alt upp undir land, því að í frv. stendur, að ekkert íslenskt skip megi flytja nokkurt áfengi til landsins, nema það, sem eigi að fara til umsjónarmanns áfengiskaupa.

En ef leggja á svo afarmikla áherslu á, að þessi fáu skip Eimskipafjelagsins, eða önnur slík, megi ekki flytja áfengi, getur komið til mála að breyta þessu, en hjer er nú reyndar ekki um annað að ræða en það, sem stjórn fjelagsins getur ráðið. Jeg veit ekki betur en að það sje bannað að hafa vín um hönd á skipum í landhelgi, eða flytja vín á land, svo að ef að þetta leyfi, sem Eimskipafjelagið hefir haft, hefir að nokkru leyti orðið til þess, að bannlögin hafa ekki náð tilgangi sínum, þá er það eingöngu vegna þess, að þeim núgildandi fyrirmælum í lögum hefir ekki verið framfylgt.

Hin brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.) fjallar um, að hver sá, er ölvaður hittist á almannafæri, skuli sæta sektum. Jeg hefi tekið það áður fram, að þetta ákvæði á ekkert skylt við bannlögin, því að það má lögleiða í hvaða landi sem er, án þess að bannlög sjeu þar gildandi. En það er alveg ótækt að orða þetta svo: »Hver sem ölvaður sjest« o. s. frv., því að það getur verið að ofurselja allra skikkanlegustu menn einræði óbilgjarnra æsingamanna, þótt lögreglustjórar sjeu eða lögreglumenn. Slík lög veit jeg ekki til að sjeu í nokkru landi. Hitt er annað mál, að þetta er í raun og veru lögregluatriði, að hægt sje að taka menn fasta, ef þeir eru með óspektir eða eru svo ölvaðir, að hneyksli valdi. En að orða þetta svo er alveg ótækt, og jeg skil ekki í því að nokkrir þingmenn skuli fást til að flytja svona ákvæði, þótt æsingamenn sjeu.

Jeg hefi ekki miklu við þetta að bæta, enda býst jeg við, að menn skilji afstöðu sína. Jeg vil engar breytingar á þessum lögum, tel það óheppilegt eða óþarft að vera altaf með þessa rekagátt við þessi lög.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) talaði af tilfinningu um rjettmæti þessa máls, en kvaðst þó byggja dóm sinn um málið á skynsemi sinni, og efa jeg það ekki, að hann meini það. Hann komst svo að orði, að eina hættan, sem af þessum lögum stafaði, væri það, að menn gerðu sjer það að atvinnuvegi að brjóta þau. Það kann vel að vera, en jeg veit ekki betur en að refsing sje lögð við því í gildandi lögum. Frá hans sjónarmiði ætti þetta frv. að girða fyrir slík brot, ef það yrði að lögum, og væri betur, að honum yrði að trú sinni. Jeg býst við, að þeir, sem eru sama sinnis og hann, álíti þá, að bannlögunum sje borgið, ef þetta frv. verður að lögum, og væri það nokkur ástæða til að vera því fylgjandi, því að þá ætti þessi gauragangur að taka enda; en jeg sje nú ekki þessa ástæðu, og er því frv. mótfallinn.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kom inn á það atriði, að þegar áfengisflutningar til landsins komust upp í vetur, hefðu gengið miklar sögur um það, að merki hefðu verið numin burt af áfengissendingunum. Já, því er nú ekki að leyna, að miklar sögur gengu um þetta manna á meðal. Jeg þykist vita, að það sje rjett hjá honum, að hann eða lögreglan hafi ekki vitað til, að merkin hafi verið numin burt; en það getur þó verið, að orðrómurinn hafi haft við einhver rök að styðjast, því að maður hittir þá menn, sem fullyrða það enn í dag fullum fetum, að merki hafi verið á flestum eða öllum sendingunum úti í Viðey. Hvort þetta er satt, eða að þau hafa verið afmáð áður en lögreglan hjer eða í Hafnarfirði náði í vínið, eða skolast burt eftir það, skal jeg ekkert um dæma; en forstokkað er það, hvað menn halda þessu fast fram. Háttv. fjármálaráðherra (S. E.) afsakaði höfðingjana hjerna og sagði, að þeir væru mjög varkárir. Hann veit það betur en jeg. En jeg man það, að menn voru svo ósvífnir í vetur að halda því fram, að einhver höfðingjamerki hefðu verið afnumin. Úr því að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fór á annað borð að minnast á þessar hviksögur, þá er best að segja hverja sögu eins og hún gengur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, því að jeg þykist hafa gert nægilega grein fyrir afstöðu minni til málsins.