14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt., sumpart einn og sumpart með öðrum. Ein af þeim, sem jeg flyt með háttv. þm. Borgf. (P. O.), er á þgskj. 912 og fer fram á að fella í burt styrk til skrifstofuhalds handa sýslumönnum, að upphæð einar 10000 kr., eða þar í kring. Jeg lít svo á, að þessi tillög, eða þessi styrkur, til sýslumannanna sje í raun og veru, eins og ástandið er nú, ekkert annað en dýrtíðarstyrkur. Þeir fá því tvöfalda dýrtíðaruppbót, ef þessi styrkur verður veittur, fyrst eftir lögum um dýrtíðaruppbót handa embættismönnum og sýslunarmönnum landssjóðs, sem samþykt voru hjer í dag, og í öðru lagi eftir fjárlögunum, ef þessi brtt. verður ekki samþykt.

Það hefir verið gert orð á því, að sýslumannsembættin sjeu orðin svo rýr, að enginn vilji við þeim líta, og þeir, sem í þeim eru, þrífist ekki. Einhvern tíma þóttu þessi embætti feitir bitar, sem margir sóttu eftir. Vera má, að aukatekjur sýslumanna hafi rýrnað að mun á þessu ári. En aftur á móti hafa þeir þó nokkrar tekjur af landssjóðsversluninni, og munu halda þeim framvegis, því að verslunin mun líklega halda áfram að ganga í gegnum hendur þeirra. Jeg þekki ekki, hve miklu þessar tekjur nema. En jeg hygg þó, að þær hljóti að vera drjúg hjálp þessum mönnum, að því er skrifstofukostnaðinn snertir. Líka má benda á það, að sumir virðast komast af með mjög litla hjálp á skrifstofum sínum, þar sem aðrir þurfa á aðstoð að halda, án þess að meira virðist vera að gera hjá þeim en hinum. Þess vegna tel jeg ekki koma til mála annað en að fella styrkinn eða uppbótina í burt og samþykkja þessa brtt. Því minni ástæða er til að láta þennan styrk standa, þar sem frv. til laga um launahækkun handa yfirdómendunum var felt hjer í deildinni í dag, sem þó hefði legið nær að samþykkja. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) gat þess, er hann mælti með þessum styrk, að sýslumenn ættu við svo erfið launakjör að búa, að full ástæða væri til að veita þeim þetta. Ef þeir eiga við erfið kjör að búa, þá þykir mjer skörin fara að færast upp í bekkinn hjá öllum fjöldanum. Það er enginn vafi á því, að þeir eru betur settir en flestir aðrir starfsmenn landsins.

Það er ekki nýtt á þinginu að heyra þennan jarm um bágborin kjör embættismanna, og það er ilt til þess að vita, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) skuli verða til þess að endurtaka þann jarm. Jeg skal svo ekki orðlengja meir um þennan lið, en vona, að tillaga okkar háttv. þm. Borgf. (P. O.) verði samþykt, þrátt fyrir atlögu tveggja hæstv. ráðherra. Það mætti teljast alt að því hneyksli, ef annað yrði ofan á.

Brtt. á þgskj. 913 legg jeg minna upp úr. Þar er farið fram á, í 1. og 3. lið, að lækka skrifstofukostnað vitamálastjóra og vegamálastjóra. Upphæðirnar eru svo litlar, að þær gera hvorki til nje frá á þessu miljónaþingi. En um annan liðinn, laun vitamálastjórans, er komin fram samskonar brtt. frá nefndinni, og er þá mín brtt. óþörf, svo að jeg get vel tekið hana aftur.

En jeg á enn nokkuð meira í pokahorninu.

Á þgskj. 915 flyt jeg einn brtt., 3 liði. 1. liðinn skal jeg þegar taka aftur, enda hefir þar slæðst inn ritvilla, því að till. mín átti alls ekki við þennan lið. En um hina tvo liðina, aðstoð á þjóðmenjasafninu og styrkinn til skálda og listamanna, er það að segja, að jeg legg ekki mikið upp úr breytingu á þeim liðum. Það munar ekki svo mikið um einn blóðmörskepp í sláturtíðinni. Jeg skal að eins taka það fram, að brtt. er alls ekki komin fram af ofsókn gegn skáldum og listamönnum. Tilgangur minn var að eins sá að halda málinu í horfinu og koma jafnvægi á. En vel getur verið, að jeg geri það til geðs háttv. þm. Dala (B. J.) að taka brtt. aftur, áður en lýkur. Hluturinn er sá, að það virðist ekki þýða neitt að koma fram með nokkra brtt. í sparnaðaráttina, því að þær fá skjótan dauða, eru allar strádrepnar þegar í stað. Menn eru orðnir svo vanir að reikna með stórum tölum, að það er að engu metið, þótt komið sje með sparnaðartillögur, sem nema nokkrum þúsundum, eða jafnvel tugum þúsunda. Fjárausturinn er orðinn svo gegndarlaus, að einsdæmi mun vera, þótt ef til vill í sumum atriðum sjeu nokkrar ástæður til rjettlætingar. Það er eins og allir flokkar sjeu samtaka um það að bruðla út fje sem mest má verða. Þess má þó geta um einn flokk, sem sje framsóknarflokkinn, að hann hefir sýnt nokkra viðleitni í þá átt að fara varlega. En hann hefir samt ekki staðið einn og óskiftur, og afleiðingin hefir orðið sú, að þeir hafa vanalega orðið ofan á við atkvæðagreiðsluna, sem ósparir eru á landsfje og fjárveitingar. Samheldnin hefir ekki verið nóg, eða ef einhver hefir verið, þá hefir hún farið í mola. Menn tala hjer mest um dýrtíð og miljónir. En miljónirnar, sem þó eru teknar að láni, eða á að taka að láni, hafa stigið mönnum til höfuðsins. Tekjufrv. hafa þar móti verið drepin eða limlest, t. d. tekjuskattsfrv., svo að dregið hefir úr áhrifum þeirra eða tekjuaukanum, sem ætlast var til að ná með þeim. Og það undarlegasta er, að sjálfur fjármálaráðherra (S. E.) er enginn eftirbátur annara í bruðluninni. Það má nú að vísu fyrirgefa þeim mönnum, sem örlátir eru á sitt eigið fje, þó að þeir sjeu líka óhófsamir á annara fje. En undarlegra er, að menn, sem ekki tíma að sjá af 5 aurum úr eigin vasa, skuli ganga vasklega fram í því að sóa opinberu fje.

Það hefir svo sem ekki mikið að segja að koma með till. til sparnaðar, sem að eins hefir í för með sjer nokkurra þúsunda króna sparnað, þar sem fjárlögin nú verða með alt að 1 miljón króna tekjuhalla.

Áður en jeg sest niður get jeg ekki látið vera að minnast á brtt. þgskj. 932, þar sem lagt er til, að Indriði Einarsson fái 3500 kr. í eftirlaun og til ritstarfa, sjálfsagt þá með það fyrir augum, að hann láti af embætti. Jeg ætla mjer nú ekki að tala um þessa brtt. Maðurinn er gamall maður, og hefir nokkra verðleika sem embættismaður, en þó meiri á öðrum sviðum, sem sjónleikaskáld og rithöfundur, svo að ekki er nema gott eitt um hann að segja. En jeg verð að telja þessa leið mjög varhugaverða, og hún getur leitt ljóta dilka eftir sjer, ef gengið er langt út á þessa braut. En ef þessi brtt. verður samþykt, þá vænti jeg þess — og það var það, sem jeg í þessu sambandi vildi hafa sagt — að hæstv. stjórn bresti ekki vit nje vilja til þess að skipa í embættið góðan mann, en fari þar ekki eftir bróðerni, venslum, vináttu eða pólitískum loddaraskap. Hjer þarf á verulega hæfum manni að halda, og hæfa menn eigum vjer í þetta afaráríðandi embætti, og jeg vona, að stjórnin taki mann úr þeirra flokki. Vjer eigum meira en nóg af lítt hæfum mönnum í embættum, þótt þetta embætti yrði vel skipað.

Á þgskj. 952 er farið fram á það, að heimiluð sje eftirgjöf á 12000 kr. láni, er tekið var 1915 Mjer þykir það langt gengið, og næstum bíræfni, að fara fram á, svo fljótt, eftir að eins tvö ár, að lán þetta sje gefið eftir. Vjer eigum ef til vill eftir að fá að heyra einhverjar ástæður fyrir þessari brtt. En undarlegt þætti mjer, ef brtt. hefði við þau rök að styðjast, að hún geti verið rjettmæt. Jeg mun því greiða atkvæði á móti þessari tillögu.