03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Jeg býst við, að jeg þurfi ekki að tala langt mál, því að jeg hefi talað svo mikið um þetta mál að undanförnu. En jeg get ekki setið undir því, að háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sárnar, að jeg hafi misskilið svo margt hjer í þinginu. Hann bar mjer á brýn misskilning, er jeg mótmælti því, er hann sagði, að allsherjarnefndin hefði bundið sig við orðin tóm. En sá misskilur ekki, sem ekkert skilur, en þannig er háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

En svo var það annar háttv. þm. (S. E.), sem nú er orðinn hæstv. fjármálaráðherra, sem jeg vildi beina nokkrum orðum að, en jeg veit ekki, hvernig jeg á að ávarpa hann, hvort jeg á að kalla hann ráðherra, bæjarfógeta eða landskjörinn. (S. E.: Ekki bæjarfógeta). Ef hann ætlar að slá sig til riddara hjer í byrjun síns ráðherradóms með því að segja, að hjer sjeu menn að kasta steinum, þá verð jeg að segja það, að jeg bjóst ekki við að heyra þau orð hjer í deildinni höfð um samþingismenn, enda þótt hann sje einn af þessum mönnum, sem aldrei verða æstari en ef þeir heyra talað um aðflutningsbann eða brennivín. Jeg hefi sagt það í einni ræðu hjer áður, að menn þyrftu að tala um þetta mál rólega hjer á þinginu, en ekki eins og þegar Good-templari og andbanningur mætast, og mjer þykir það leitt, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) getur aldrei talað um þetta mál án þess að verða æstur. Mun hann síst bæta málstað sinn með því. En hann um það.

Að öðru leyti hefir háttv. frsm. (M. G.) gert ljósa grein fyrir afstöðu nefndarinnar, og hefi jeg þar engu við að bæta. (S. S.: Jeg er háttv. þm. (E. J.) alveg samdóma). Ef háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er orðinn mjer samdóma í þessu máli, þá er hann hringlandi, og er það reyndar engin nýung.