05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi ekki viljað hrófla neitt við þeirri gersemi, sem bannlagafrv. er nú orðið. Jeg hefi ekki einu sinni komið fram með brtt. sama efnis og frv. það, er jeg bar fram snemma á þessu þingi, og miðaði til þess að örva menn til að halda bannlögin í heiðri. Frv. hefir ekki batnað í mínum augum frá því við 2. umr. Það ákvæðið, sem þá var samþykt, sem sje brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.), spilti því, en bætti ekki. Það hefir jafnan verið mín skoðun, eins og jeg tók fram snemma á þinginu, að ekki ætti að vera að breyta bannlögunum æ ofan í æ. Ef litið er á breytingarnar, sem gerðar hafa verið, þá sjest það, að margar þeirra gera það lítt kleift fyrir gætna menn að fylgja frv.

Jeg skal meðal annars benda á þá grein, sem var áður 15., en er nú sú 16. Það, sem þar hefir verið bætt inn í, gerir það að verkum, að ekki verður vel ljóst, hvert stefnt er. 3. málsgreinin hljóðar svo: »Ef nokkur brýtur oftar ákvæði þessarar greinar, eða gerir sjer það að atvinnu að selja eða veita áfenga drykki, þá varðar það fangelsi« o. s. frv. Ef maður svo les greinina og virðir fyrir sjer, hver þessi »nokkur« muni vera, þá sjer maður, að það getur ekki átt við aðra en skipstjórana. Hjer getur ekki verið átt við allan almenning, því að ekki er um verknað annara að ræða í greininni en skipstjóranna, auk þess sem þetta ákvæði talar um þá, sem veita eða selja áfenga drykki, Eðlilegast væri að fella orðin »brýtur . . . eða« burt, eins og farið er fram á í brtt. hv. þm. Stranda. (M. P.). En ef þetta verður ekki skýrt öðruvísi en að það eigi við skipstjórana, þá hefði verið langhreinlegast að segja: Ef skipstjóri o. s. frv. Nú er í öðru ákvæði þessa frv. heimilað að leita í hirslum skipsmanna og ferðamanna. Ef eitthvað skyldi nú finnast þar, sem ekki hefir verið talið fram í skýrslu skipstjóra, þá finst mjer það nokkuð hart, ef hann á að sæta fangelsishegningu fyrir. Jafnvel sektir gætu verið ósanngjarnar, því að ekki getur skipstjóri borið ábyrgð á því, þótt honum sjeu gefnar rangar skýrslur, þegar líka lögreglustjóri á að ganga úr skugga um þetta með rannsókn. Deildin ætti því að samþykkja brtt. háttv. þm. Stranda. (M. P.), um að ljetta þó fangelsishegningunni af skipstjórunum.

Þá skal jeg minnast á 4. málsgrein 16. greinar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: »Hver, sem aflar sjer áfengis undir því yfirskyni, að hann þurfi á því að halda í lögleyfðum tilgangi, en notar það til drykkjar, skal sæta sektum« o. s. frv. Þessi lögleyfði tilgangur getur verið margskonar. Menn mega afla sjer þess til iðnar sinnar, og jeg býst ekki við, að neinn neiti því, að það sje lögleyfður tilgangur, ef menn afla sjer þess til heilsubótar. En hvernig á þá að nota þetta vín, sem aflað er á þann hátt í lögleyfðum tilgangi, öðruvísi en að drekka það. (B. J.: Sötra það). (S. St.: Lepja það). En jeg býst ekki við, að gott verði að setja skorður við því, að menn helli þessum 3—4—5 matskeiðum, sem þeir mega sötra, í staup og drekki það svo. Jeg býst við, að hv. nefnd, sem kunn er að miklum bannáhuga, og ekki síst frsm. (M.G.), hafi ekki athugað þetta nægilega. Hún hefir sjálfsagt átt við, að menn mættu ekki nota áfengið sjer til nautnar, en vel mætti drekka það sjer til heilsubótar. Jeg er ekki í vafa um, að þetta mun vera meining nefndarinnar, þótt jeg hins vegar hafi ekki fundið ástæðu til að hreyfa hönd eða fót til að leiðrjetta þessa misfellu frekar en aðrar, sem á frv. eru. Hin virðulega nefnd mun sjálf vera nógu fær. En, eins og þetta ákvæði nú er, þá má misbeita því, ef viljinn er til þess, og það þarf ekki að efast um, að margir hafa vilja til að nota alt, sem lög þessi gefa færi á að nota.

Úr því að nefndin fór að gera breytingar á bannlögunum, þá hefði hún átt að færa eitthvað til betra máls, sem í þeim hefir staðið. Altaf hefi jeg kunnað illa við ákvæði 23. greinar t. d., sem nú er, um að prenta skuli svo mörg eintök af bannlögunum, »að nægi til að senda dönskum verslunarfulltrúum í öðrum löndum«. Nefndinni hefir víst þótt nauðsynlegt, að þetta ákvæði hjeldist. En ætli að það væri ekki hægt með einfaldri stjórnarráðstöfun að hafa eintökin nógu mörg! Jeg segi þetta að eins því til sönnunar, að ekki hefir nefndin sjeð sjer fært að breyta eða færa til betra máls alt sem þurfti, eða öllu heldur ekki neitt þesskonar.

Úr því að jeg stóð upp, skal jeg lýsa afstöðu minni til brtt., sem nú liggja fyrir. Um síðari lið brtt. á þgskj. 781 hefi jeg þegar talað. Fyrri liðinn tel jeg líka til bóta. Það er ógerningur að fara að innleiða rannsókn á hirslum þeirra, sem á skipum koma, úr því að engin tollgæsla er hjer á landi. Í frv., sem jeg hefi flutt á þessu þingi, er farið fram á, að tollgæsla sje lögleidd hjer í Reykjavík, og er það áreiðanlega stærsta sporið, sem stigið hefir verið til góðrar framkvæmdar bannlaganna. En að mínu áliti er það ókleift enn sem komið er að innleiða tollgæslu um land alt, En meðan tollgæsla er engin er það þýðingarlaust að vera að nokkru smákáki í sambandi við bannlögin.

Brtt. háttv. þm. Dala. (B. J.) finst mjer og miða til bóta. Ef Alþingi vill, þá er það hægast fyrir hendi að skeyta skapi sínu sjerstaklega á embættismönnum landsins, en láta lausamenn læknastjettarinnar sæta sektunum einum, eins og aðra borgara þjóðfjelagsins. Jeg býst ekki við, að neinn gruni mig um að vilja stemma stigu fyrir framgangi bannmálsins, þótt jeg fylgi þessari tillögu, þar sem hún er fram komin frá jafneinlægum og viðurkendum bannmanni og háttv. þm. Dala. (B. J).

Brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), um að afnema »konsúlabrennivínið« svokallaða, get jeg ekki fylgt, og mun jeg greiða atkvæði, ásamt öðrum bannmönnum, með því, að konsúlarnir fái að halda sínu brennivíni. Því að það voru góðir bannmenn, sem stóðu fyrir að veita þeim það.

Þá er brtt. um »ölvuðu mennina«, frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem er harla merkileg. Þar fer ágætur bannmaður fram á, að feld sje burt grein, sem aðrir ágætisbannmenn lögðu aðaláhersluna á við síðustu umr. að væri samþykt. Það hefir flogið fyrir, að nú stæði til síðdegis að halda meiri háttar »kvöldmáltíð«, og ætli bannmenn að eta ofan í sig það, sem þeir samþyktu við 2. umr. Það má merkilegt heita, ef þeir telja það nú skilyrði fyrir framgangi bannmálsins að fella það burt, sem þeir við 2. umræðu líka töldu óhjákvæmilegt skilyrði fyrir heppilegum framgangi bannmálsins. Jeg er auðvitað þessari grein jafnmótfallinn nú og við síðustu umræðu.

Margt merkilegt mun standa í þingtíðindunum frá þessu þingi, býst jeg við, en þó víst ekki hvað síst frá þessu kvöldi, bæði hvað snertir umræður og atkvæðagreiðslu. En hvað sem verður um brtt. þær, sem fram eru komnar, þá mun jeg þó, eins og í fyrra skiftið, greiða atkvæði á móti frv. í heild sinni