05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Benedikt Sveinsson:

Jeg er þeirrar skoðunar, að ekki sje nauðsyn að breyta bannlögunum á þessu þingi. Það kveikir sundurlyndi í landinu í hvert sinn, sem farið er að deila um þetta mál, því að þar standa flokkar mjög andvígir, og skyldu því allir forðast að hefja deilur um það, ekki síst nú, þar sem svo margt annað þarfara og nauðsynlegra kallar að. En nú hefir meiri hluti háttv. deildar ráðist í að fara að breyta lögunum, og úr því að svo er komið, þá er rjett, að bornar sjeu fram allar þær breytingar, sem til bóta mega teljast, og meðal annars kippa því burt úr lögunum, sem mestri óánægju hefir valdið. Að því miðar brtt. sú, sem jeg hefi borið fram á þgskj. 801, um að kippa burt leyfi því, sem sendiherrar erlendra ríkja hafa til að flytja vín hingað til lands. Þetta svokallaða konsúlabrennivín hefir verið þyrnir í augum margra góðra bannvina, og hefir verið vakið máls á því bæði í blöðum þeirra og hjer á þingi, að það leyfi hefði illu heilli komist inn í lögin. Nú finst mjer rjett, fyrst að á annað borð er farið að hrófla við bannlögunum, að þessu atriði sje kipt burt. Að vísu er því svo háttað með leyfi þetta, að einn af helstu forkólfum bannstefnunnar barðist fyrir, að það væri tekið í lögin, og fjekk hann því framgengt. En vera má, að honum og fleiri bannmönnum, sem honum fylgdu þá að málum, hafi snúist hugur síðan.

Ef þetta þykir galli á lögunum, þá er nú einn allra hentugasti tíminn til að nema hann burt. Nú eru ekki nema 2 eða 3 heimansendir ræðismenn hjer í landi; en þeim mun eflaust fjölga þegar eftir stríðið. Meira að segja hefir það heyrst, að Danir mundu ætla að senda einn slíkan ræðismann hingað. Það má við því búast, að þessir sendiræðismenn verði hjer einir 10—12, þegar viðskiftalífið kemst aftur í samt lag. Hygg jeg það því hagkvæmara að afnema leyfið einmitt nú, er það kemur að eins niður á tveim eða þrem mönnum, en að geyma það þangað til þeir verða 10—12. Sje þessi breyting samþykt, þá er ekki víst, að þurfi að fara að sjóða lögin upp enn á ný undir eins á næsta þingi.

Um hinar brtt. ætla jeg ekki margt að segja. Þó get jeg ekki betur sjeð en að nærri stappi broti á þingsköpunum að leyfa brtt. á þgskj. 785 að komast að; að minsta kosti er það varla samkvæmt andanum í 32. gr. þeirra, þar sem svo segir, að brtt. um atriði, sem búið er að fella í deild, má ekki bera upp á sama þingi, og þá virðist liggja næst, að hið sama eigi og að ná til brtt., sem samþ. hefir verið við umræðu áður, að hana megi ekki niður fella í sömu deild á sama þingi, þótt eigi sje það tekið fram með berum orðum í þingsköpunum. Jeg geri ráð fyrir, að þeim, sem þingsköpin settu, hafi ekki dottið í hug sá hringlandaháttur, að menn mundu berjast fyrir því að kippa því burt í dag, sem þeir hefðu sett inn í gær. Vil jeg leyfa mjer að skjóta þessu undir úrskurð hæstv. forseta.