05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson:

Jeg hefi nú lengi setið hjá og engan þátt tekið í hjaðningavígum þeim, sem hjer hefir verið háð, og hefir þó stundum þurft á þolinmæðinni að halda, því að ekki hafa skort rakalítil stóryrði í garð þeirra, sem ekki eru bannvinir, og staðhæfingar. Samt ætla jeg mjer ekki að blanda mjer inn í aðaldeilu manna hjer, því að mig langar ekki til, að lenda í hinu sama sem þrír háttv. þingdm., sem haldið hafa nálega sömu ræðuna.

Sný jeg mjer þá að brtt. á þgskj. 781, en þarf þó ekki að fjölyrða um þær, því að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir þegar sagt sumt af því, sem jeg mundi hafa sagt þeim til málsbóta.

Háttv. frsm. (M. G.) mælti á móti fyrri brtt., um heimildina til að rannsaka dót farþega, hvort þeir hafi meðferðis áfengi, af því að hann kvað það nauðsynlegt, að lögreglustjóri hefði heimild til að rannsaka einnig þetta, ekki einungis vegna áfengis þess, sem í þeirra vörslum kynni að dyljast, heldur og vegna annarar tollskyldrar vöru. Þessi mótbára kemur mjer undarlega fyrir, því að till. segir ekkert um það, að honum sje það ekki heimilt, og bannar ekki að rannsaka hirslur skipverja og farþega; hún lætur það mál afskiftalaust. En hins vegar þykir mjer það óviðkunnanlegt að vera eins og að siga lögreglustjóra á að rannsaka hirslur manna. Það á að vera nóg, að hann noti heimild þá, er hann hefir þegar að lögum til þess, þegar honum þykir þörf á vera; og nú segir háttv. frsm. (M. G.), að þessi heimild sje í tolllögunum; fæ jeg því ekki sjeð, hvaða þýðingu það á að hafa að vera að setja hana líka í þessi lög. (M. G.: Jeg sagði, að dómsúrskurð þyrfti til þess). Háttv. þm. (M. G.) sagði, að líklega yrði það skilið þannig, að dómsúrskurð þyrfti. Það er og eitt, sem gerir það, að mjer finst hálfhjákátlegt að vera að setja ákvæðið um rannsókn á hirslum manna í frv. þetta, og það er, að lögreglustjórar mundu ekki geta notað sjer heimildina; þeir mundu ekki komast yfir að framkvæma rannsóknina til nokkurrar hlítar. Það mætti í fljótu bragði ætla, að ákvæði þetta hefði verið sett með hliðsjón af frv. um aukna löggæslu, sem hjer hefir verið á ferðinni. En varla hefir það þó vakað fyrir háttv. allsherjarnefnd, því að hún mun ekki óska því frv. langra lífdaga. Jeg man líka, að þegar frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) um bannlögin var hjer fyrst til umræðu, þá hafði hæstv. forsætisráðherra meðal annars það að athuga við það, að þetta ákvæði mundi ekki framkvæmanlegt fyrir lögreglustjóra. Og það geta allir sjeð, að ekki bætir það lögin, að sett sjeu í þau ákvæði, sem ekki er unt að framfylgja.

Jeg býst nú við, að eins fari með þessar brtt. eins og sumar aðrar brtt., sem bornar hafa verið fram til að »bæta« bannlögin, að þær muni engan rjett eiga á sjer og að engu verða hafðar, af því að þær koma frá andbanningi. Það lítur út fyrir, að bannmenn hjer í deild þykist hafa einkarjettindi til að bera fram till. í þessu máli, og líka einir rjett til að greiða atkvæði um þær; því að ef svo vill til, að andbanningur greiði atkvæði með einhverri till. þeirra, þá er hún um leið orðin óalandi og óferjandi. Þó þykir mjer, satt að segja, ótrúlegt, að athöfn sú fari hjer fram í kvöld, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gat um. (E. A : Hver er hún?) Hin mikla kvöldmáltíð.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gat um rök þau, er liggja fyrir annari brtt. á þgskj. 781. Mjer skildist, sem það mundi einkum hafa vakað fyrir allsherjarnefnd, að hert væri refsingin á þeim, sem hefðu sjer það fyrir atvinnu að smeygja víni inn í landið til að versla með það, og að hún hafi ekki ætlast til, að öðrum yrði refsað með fangelsisvist en þeim. Mjer þótti vænt um, að háttv. frsm. (M. G.) fjellst á þessa brtt; bara að hún verði nú ekki álitin grunsamleg af sumum, og álitið, að hún sje borin fram í einhverjum lævísum tilgangi.

Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 801, frá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), sem jeg ofurlítið vil víkja að. Hann hefir þegar fært rök fyrir henni, og þykir mjer sennilegt, að sú brtt. verði samþykt, því að jafnan hefir heyrst harmagrátur hjá bannmönnum yfir því, hvernig bannlögin hafi verið fleyguð. Barmaði hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sjer einkum yfir því. Taldi hann upp ýmsa fleyga, sem í þau hefðu verið reknir, og þar á meðal þann, sem háttv. þm. N.-Þ.

(B. Sv.) vill nú ná í burt; má ganga að því vísu, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) muni nú ljá lið sitt til þess, fyrst að honum býðst svona gott færi til þess, og taki nú á því, sem hann á til, til þess að sýna, að þar hafi hugur fylgt máli.

Jeg ætla mjer ekki að deila við hæstv. forseta út af úrskurði hans áðan, því að forsetaúrskurði eiga allir að hlíta. En jeg, svo sem fleiri, tel það hafa verið tilætlun þeirra, er þingsköpin sömdu, að firra þingið þeim skrípaleik að fara að eta ofan í sig það, sem það hefir nýsagt og ályktað.