05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er að eins örstutt athugasemd. Jeg heyrði, að háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að ræður allra bannmanna væru eins. (M. P.: Jeg sagði ekki allra). En þegar jeg hlustaði á ræðu hv. þm. Stranda. (M. P.), fanst mjer, að jeg hefði heyrt hana alla áður, heyrt hana á hinn sísuðandi Grammofon andbanninga. Mig furðar á því, hvað jafnsiðavandur maður og háttv. þm. Stranda. (M. P.) leggur litla rækt við þessi lög, en að hann sje siðavandur, marka jeg af því, að hann samþykti hjer brtt. við 2. umr. þessa máls, sem mjög gekk í þá átt. Hann er svo mikill bannmaður í hjarta, að hann þolir ekki að sjá ölvaðan mann. Jeg er sammála honum um það, að illa fari á því, en þá er jeg líka hissa á því, hve eftirgjöfull hann er í ýmsum öðrum greinum. Sjerstaklega fer illa á því, hve andstæður hann er því, að sjálfsögð rannsókn sje gerð á farangri manna.

Ef ekki er heimilt að rannsaka farangur farþega, er afleiðingin sú, að altaf er hægt að flytja áfengi á land í einkafarangri. Hitt er ekki annað en grýla, að þetta hafi svo mikinn kostnað í för með sjer, því að það stendur hvergi, að farangur skuli rannsaka í hvert skifti, heldur er þetta að eins heimild til að rannsaka, og það hjelt jeg að væri mjög heppilegt og rjettmætt, því að fólk verður ekki eins óhrætt, þegar það á á hættu, að rannsakaður verði flutningur þess. Kostnaðurinn við þetta er bara grýla, því að það verður alveg komið undir conduite lögreglustjóranna, hve langt þeir ganga, og að gengið sje með þessu ofnálægt einstaklingnum nær engri átt, því að í útlöndum er slíkt eftirlit álitið sjálfsagt, og það yrði álitið hlægilegt, ef einhver neitaði að sýna farangur sinn, eða teldi það óviðfeldið. Þessum lögum er ómögulegt að framfylgja nema þessi heimild sje gefin. Það verða allir að játa, að það er ekki nema æskilegt, að lögunum sje haldið uppi, og hjer er ekki um annað að ræða en að gera lögreglustjórunum mögulegt að gæta þess, að lögunum sje hlýtt og fylgt. Sá möguleiki er heimilaður hjer í þessu frumvarpi, og jeg álít því heimildina mjög æskilega. Það er álitamál, hvort hirslur farþega má opna eftir núgildandi lögum án dómsúrskurðar, en ef kveða þyrfti upp dómsúrskurð í hvert einasta skifti, yrði það altof þungt í framkvæmdinni. Jeg verð því fyrir mitt leyti að leggja eindregið með því, að þetta atriði verði samþykt. Annars virðist afstaða háttv. þm. Stranda. (M. P.) gagnvart þessum lögum vera mjög mismunandi, því að í sumum atriðum er hann mjög strangur, t. d. með það að banna ræðismönnum að hafa vín, og er jeg honum alveg sammála um það, að það hefði aldrei átt að leyfa. Háttv. þm. Stranda. (M. P.) er í sumum atriðum svo strangur, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) myndi kalla hann æstan bannmann, en í sumum atriðum vill hann opna sem flestar dyr fyrir þá, sem vilja brjóta lögin. Af hverju þetta kemur skal jeg ekki segja, en það gæti verið, að hann vildi kveikja einhver villuljós, og bak við þau væri tundurdufl, sem hann ætlar frv. að stranda á. (E. A : Ekki stranda á, heldur springa). Það getur verið, að þetta sje ofmælt hjá mjer, og að jeg sje að gera háttv. þm. (M. P.) getsakir. Jeg vildi óska, að hann væri fulleinlægur og hefði sama hugarfar gagnvart öllum atriðum þessara laga og vildi bæta þau sem mest.

Annars er það vitanlegt, að þótt ekki sje hægt að koma fram öllum umbótum í einu, þá getur verið tilvinnandi að sleppa sumum umbótum, til þess að koma öðrum fram, og hygg jeg, að ýmsir vilji, með það fyrir augum, fella sumt, sem þeir áður hafa samþykt, til þess að frv. strandi síður.