05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Arnórsson:

Það hefir verið vikið á víð og dreif nokkrum orðum til nefndarinnar, sem fór með þetta mál. Jeg þykist ekki þurfa að afsaka nefndina, því að jeg álít, að hún hafi unnið vel og skynsamlega. Jeg hefi ávalt litið svo á, að úr því að bannlögin á annað borð væru komin á, þá væri sjálfsagt að breyta þeim að því leyti, sem það gæti verið til bóta. Sumar þær brtt., sem voru í frv. því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og fleiri fluttu hjer í sumar, voru til bóta, en sumar þeirra gat ekki komið til nokkurra mála að samþykkja. Nefndin tók auðvitað þær af þeim, sem hún áleit að væru til bóta, og tók svo enn fremur það ráð að steypa saman í eina heild þeim 3 brotum, sem til eru af þessum lögum, og verður varla hægt að leggja henni það til ámælis. Það er miklu hægra, bæði fyrir lögreglustjóra og aðra, sem lesa vilja lögin eða eiga að gæta þeirra, að hafa þau öll á einum stað.

Um einstakar brtt., sem fram hafa komið, skal jeg fara fáeinum orðum. Það er þá fyrst brtt. við 2. gr., frá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og þykist jeg ekki þurfa að efa, að sá háttv. þm. hafi komið með hana af góðum hug til bannlaganna og bannstefnunnar, en það eru þó aðrar ástæður, sem gera það að verkum, að mínu áliti, að ekki er hægt að samþykkja hana, sem sje þær, að 1913 var það lögleitt, að sendiræðismönnum erlendra ríka skyldi leyft að flytja inn ákveðinn forða af áfengi til heimilisnotkunar. Nú lít jeg svo á, að ef það væri ekki ólöglegt að svifta þá þessu leyfi, þá væri það að minsta kosti mjög ókurteist, því að það er bara einskær milliríkjakurteisi að leyfa ræðismönnum þetta, og býst jeg við, að enginn álíti það hættulegt fyrir bannlögin, því að engum dettur víst í hug, að þessir menn fari að misbrúka þetta leyfi.

Það horfir ekki ósvipað við með þetta í lögunum eins og eitt atriði í frv. því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) o. fl. báru fram, sem sje það að taka af þeim mönnum vínföng, sem fullan rjett eiga á að fá að halda þeim, samkvæmt 11. gr. laganna frá 1909. Nefndin gat ekki fallist á það, og um það var samkomulag milli allra nefndarmanna, að ekki væri rjett að svifta þá menn eignarheimild, sem áður hefir verið veitt hún með lögum. Sama er að segja um þetta atriði; það er millilandakurteisi, sem Íslendingar geta ekki skorast undan að sýna, þar sem þegnar annara ríkja eiga í hlut, menn, sem starfa hjer í þjónustu sinnar eigin stjórnar.

Þá kem jeg að 5. gr. frv. Háttv. þm. Stranda. (M. P.) kemur með brtt. við hana og vill nema í burt ákvæðið um það, að lögreglustjórum skuli heimilt að opna hirslur og klefa í skipum. Jeg skal játa það, að það er ekki í hvert sinn hægt að nota þessa heimild. Lögreglustjórar geta ekki komist yfir það. En tilgangurinn með heimildinni er sá, að þeir noti hana þegar þeir geta og þegar þess þykir þörf. Lögreglustjórar eru yfirleitt svo mentaðir menn og ábyggilegir, að hægt er að trúa þeim til að nota ekki þessa heimild nema einhver ástæða sje til. Það er auðvitað ekki rjett, að með þessu sje gengið neitt á rjett manna, fremur en heimild er til. Erlendis verða menn að hlíta því, að tollgæslumenn opni hirslur þeirra og farangur allan, og engum dettur í hug að skoða það sem nein rjettarspjöll. En það er full ástæða til, að þetta sje tekið fram í lögunum. Án þess er ekki heimilt að opna suma staði í skipum, nema eftir dómsúrskurði. Í 52. gr. stjórnarskrárinnar er heimilið lýst friðheilagt og sagt, að heimilisrannsókn megi ekki gera, nema samkvæmt dómsúrskurði. Nú lít jeg svo á, að í skipi sjeu íbúðarklefar skipstjóra og skipverja heimili þeirra, og lúti því sömu ákvæðum og heimili manna á landi. Þess vegna þarf dómsúrskurð til í hvert sinn, sem opna þarf klefa skipstjóra, bryta eða háseta, ef þeir láta þá ekki góðfúslega opna.

Þá kem jeg að 14. gr., brtt. á þgskj. 785. Eins og deildinni er kunnugt gat meiri hluti nefndarinnar ekki fallist á það að sekta menn, þó að þeir sjáist ölvaðir á almannafæri. Þó að jeg fyrir mitt leyti vilji ekki mæla því bót, að menn láti sjá sig ölvaða á almannafæri í bannlandi, þá get jeg ekki greitt atkvæði með frv., ef þetta ákvæði stendur í því. Það kemur ekki ósjaldan fyrir, að þó að hægt sje að segja, að menn sjeu ölvaðir, þá geta þeir verið það með þeim hætti, að ekki sjeu þeir til truflunar almennu velsæmi. Þeir geta gengið götu sína hneykslislaust og verða hvorki sjálfum sjer nje öðrum til vansa eða meins á nokkurn hátt. Mjer þykir það oflangt gengið að veita heimild til að leggja hendur á þessa menn fyrir þetta eitt. Nú er því ekki heldur til að dreifa, að það sjeu altaf lögreglustjórar sjálfir, sem myndu leggja hendur á þessa ölvuðu menn. Það myndu að öllum jafnaði vera lögregluþjónar í kaupstöðum, og ef á því þyrfti að halda í sveitum, þá hreppstjórar, sem þar eru lögregluþjónar. Í flestum eða öllum tilfellum mundi líða alllangur tími frá því að maður er tekinn og þangað til dómur yrði uppkveðinn, svo að maðurinn gæti verið orðinn afdrukkinn fyrir löngu. Það er ekki altaf svo auðvelt að skera úr því, hvort menn eru ölvaðir eða ekki, að ekki er óhugsanlegt, að lögregluþjónum geti skjátlast. T. d. um það, hve erfitt það getur verið, má benda á atvik, sem margir munu hafa heyrt frá sagt. Einn nafnkendur Good-Templar og bindindisfrömuður var á ferðalagi úti um land, í bindindiserindum. Hann kom að gistihúsi síðla um kvöld og beiddist næturbeina. Veitingamaður færðist undan að hýsa hann fyrir þá sök, að hann sagðist aldrei vilja hýsa fulla menn. Þetta sýnir, hve vandasamt það getur verið að greina, hvort menn eru ölvaðir eða ekki. Háttv. þm. Borgf. (P. O.) bar þessa till. fram á móti vilja meiri hluta nefndarinnar. Nokkrir menn, sem annars eru andvígir frv., höfðu gengið á vitsmuni við suma deildarmenn og komist að því, að við hinir mundum ekki geta greitt atkvæði með frv., ef þetta ákvæði kæmist inn í það. Þessir menn, er vjeltir voru svo af sjer slægari mönnum, greiddu því atkv. með brtt. hv. þm. Borgf. (P. O), svo að hún var samþ. Nú sje jeg, að einn hv. deildarmaður ber fram brtt. um að fella 14. gr. burt aftur. Það er ekki neitt óeðlilegt við það, þó að menn, sem um daginn greiddu atkv. með því, að þessi grein yrði tekin upp í frv., greiði nú aftur atkv. með því að fella hana burt, þegar það er nauðsynlegt til þess, að málið gangi fram. Jeg hefi sagt, að jeg gæti ekki greitt atkv. með frv., ef þetta ákvæði stæði í því. Og til þess að taka af allan vafa, get jeg lýst yfir því, að það er skilyrði frá mjer og háttv. framsögumanni (M. G.), — þó að jeg hafi ekkert umboð til að lýsa yfir því fyrir hans hönd, — fyrir fylgi okkar við frv., að þessi grein verði feld burt aftur.

Jeg get tekið í sama strenginn og hv. framsm. (M. G.) um það, að jeg get látið mjer á sama standa, hvort hún verður samþ. eða ekki; sætti jeg mig þó fult eins vel við, að hún verði samþ.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Dala. (B. J.) verð jeg að segja það, að að öllu athuguðu verð jeg að kannast við, að hann hefir rjett að mæla. Það er satt, að í lögum frá 1911 stendur, að svifta megi læknisleyfi fyrir óhæfu í læknisdómi. Þótt rjett geti talist, að brot gegn lögum þessum varði embættismissi, þá veit jeg ekki, hvort þau geta heyrt undir óhæfu í læknisdómi. Það verður dómsspursmál í hverju einstöku tilfelli, og ef dómari kemst að þeirri niðurstöðu, þá er heimildin til að svifta læknisleyfi til í lögunum frá 1911. Jeg er samdóma hv. þm.

(B. J.) í því, að bannlagabrot geti að öllum jafnaði ekki talist óhæfa í læknisdómi. Til þess þurfi klaufaskap í meðferð sjúklinga, vanrækslu eða vanþekkingu, sem geti orðið skaðleg fyrir sjúklinginn.

Jeg get ekki svarað mörgum orðum gamansemi háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Jeg álít, að hann hafi að eins mælt til að sýna gamansemi sína og rökfimi. Hann fann að því, að skipstjórar skuli sektaðir fyrir að skýra rangt frá um áfengisbirgðir í skipi. Jeg vona, að dómstólarnir sjeu ekki svo ófróðir, að þeir kveði upp dóm, nema »subjectivu« skilyrðin sjeu fyrir hendi. Þá hjelt hann því fram, að 16. gr. yrði eigi skilin öðruvísi en svo, að hertu ákvæðin í 3. málsgrein ættu að eins við skipstjóra. Jeg get ekki sjeð, að neinn dómari þurfi að ruglast í þessu. 3. málsgrein stendur á eftir því, sem sagt er að ítrekuð brot skuli varða hærri sektum. Svo kemur þetta: »Ef nokkur brýtur oftar ákvæði þessarar greinar.« Það er auðsætt, að »nokkur« getur ekki átt eingöngu við 1. málsgrein, heldur við alt, sem fram er tekið á undan í greininni. Enn fremur var hv. þm. (G. Sv.) fyndinn um orðin »að nota til drykkjar«. Jeg get ekki álitið það annað en fyndni, því að jeg býst ekki við, að dómarar hjer á landi þurfi endilega að vera annaðhvort heimskingjar eða bófar. Jeg vona, að enginn geti skilið »til drykkjar« í þessu sambandi annað en það, sem menn drekka sjer til nautnar. Málvenjan er búin að helga þetta orðatiltæki svo, að á því getur enginn vafi verið, hvernig skilja beri. Að vísu getur áfengi, sem menn neyta til lækninga, um leið verið til nautnar. En á því er ekki heldur hægt að villast. Aðaltilgangurinn með því að láta það í sig er sá, að læknast, en ekki að njóta áfengisáhrifanna. Það er ekki meiri erfiðleikum bundið en ýmislegt annað að skera úr því í hvert sinn, hvort vínsins hafi verið neytt til drykkjar eða ekki. Það er að minsta kosti ekki erfiðara en að skera úr t. d., hvort glæpur er framinn af gáleysi, miklu gáleysi, eða af ásetningi.

Þá kem jeg loks að hinni miklu kvöldmáltíð, sem hv. þm. (G. Sv.) endaði ræðu sína með. Það hefir hingað til ekki þótt ljótur siður hjer á Íslandi að vera til altaris. Annars hefi jeg áður skýrt frá ástæðunum til þess, sem hann kallar kvöldmáltíð.

Jeg hefi nú rakið allar brtt. og flyt því ekki lengra mál að þessu sinni.