05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gísli Sveinsson:

Það var að eins ein lítil fyrirspurn til hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Hvernig geta menn brotið ákvæði 2. málsgreinar í 16. grein? Hún hljóðar um að sekta þá, sem brjóta ákvæði laganna, en ekki um neinn verknað. Hana er því ekki hægt að brjóta í þeim skilningi, sem nefndin leggur í hana.

Í öðru lagi vildi jeg spyrja, hvort það hafi verið ásetningur nefndarinnar að orða 4. málsgrein þessarar sömu greinar svo, að sjerstaka skýringaraðferð þurfi til að koma henni í samræmi við heilbrigða skynsemi?

Í þriðja lagi vildi jeg geta þess, að jeg veit ekki til þess, þótt hv. 2. þm. Árn. (E. A.) kunni ef til vill að hafa vanist því, að altarisgöngur verði með þeim hætti, að altarisgestirnir neyti þess, sem þeir sjálfir hafa frá sjer látið.