05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Arnórsson:

2. málsgr. 16. gr. hljóðar um það, að þeir, sem brjóta lögin einu sinni eða tvisvar, sæti sektum. Svo kemur í 3. málsgrein, að sje oftar brotið, varði það ekki eingöngu sektum, heldur einnig fangelsi. Jeg sje ekki neitt rangt við þetta, svo framarlega sem heimilt er að setja ákvæði um tvöfalda refsingu. Með þessu þykist jeg hafa svarað 1. spurningunni, og býst ekki við, að neinn dómari komist í kröggur út af því atriði, ekki heldur hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þó að það eigi fyrir honum að liggja að verða dómari. Því síður er ástæða til að komast í kröggur út af hinu atriðinu. Þar er ekki gengið lengra en málvenjan heimilar. Það er ekki kallað að neyta til drykkjar, sem neytt er til lækninga, eða í öðrum tilgangi en beint til nautnar. Viðvíkjandi 3. atriðinu, sem átti að vera mesta gamanið, skal jeg geta þess, að bannmenn ýta að vísu frá sjer víni, en ekki messuvíni.